Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það má segja að það sé kannski óvanalegt að kveðja sér hljóðs eftir að hæstv. fjmrh. hefur lokið annarri ræðu sinni í sambandi við frv. til fjárlaga, en ég beindi til hans beinum spurningum sem hann hefur kosið að svara ekki. Og í því skjóli að venja sé að fleiri verði ekki til andsvara, þá má e.t.v. reyna að skjóta sér á bak við slíkt, en ég beindi til hans beinum spurningum sem ég óskaði svara við og vil ítreka þær.
    Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. fjmrh. hvort rétt sé að samband hafi verið haft við utanrrn. vegna þess að jöfnunargjald er lagt hér á útflutning. (Gripið fram í.) Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. svari úr stólnum. Ég óska eftir að það komi í þingtíðindum, hans svar. ( Fjmrh.: Þingmaðurinn túlkaði svarið í þingtíðindin áðan og sagði að ...) Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort athugasemd hefði borist til utanrrn. um það að hér væri lagt á jöfnunargjald. ( Fjmrh.: Mér er ekki kunnugt um það.) Hann segir að sér sé ekki kunnugt um það nú, en áður hefur hann svarað því neitandi. Ég hins vegar get tekið undir með honum að ég er auðvitað mjög ánægður yfir því ef sú hugsun með jöfnunargjaldinu nú er að nota það ekki sem almenna skattheimtu í ríkissjóð heldur hugsi hæstv. fjmrh. sér í fyrsta lagi að endurgreiða þann uppsafnaða söluskatt til atvinnuveganna sem hann sagði réttilega áðan að væri uppsafnaður í kerfinu og þá er rétt að gera ráð fyrir því í fjárlagafrv.
    Í öðru lagi er ég fyllilega sammála honum um að það getur verið heilbrigt og eðlilegt að styðja og styrkja atvinnurekstur hér á landi með slíkum aðgerðum, en þá á að gera það en ekki að nota jöfnunargjaldið til þess að stinga því ofan í vasa fjmrh. og hafa atvinnuvegina að yfirskini. Það kemur skýrt fram, hæstv. fjmrh., í því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir, í frv. til lánsfjárlaga og ég tala nú ekki um í frv. um breytingu á lögum um launaskatt að við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf aðilum atvinnuveganna í maímánuði sl. um
að beita sér fyrir breytingu á opinberum gjöldum í þá veru að sambærilegt væri við það sem gerist í Evrópubandalagslöndunum, það liggur fyrir að hæstv. fjmrh. hyggst ekki standa við þau.
    Ég get, hæstv. forseti, aðeins vitnað í eina setningu sem sýnir glögglega að skilningur minn er réttur, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hins vegar má benda á að það þjónar ekki hagsmunum hins almenna skattborgara að geyma féð frekar hjá fyrirtækjunum en ríkissjóði.``
    Þessi setning ber það með sér að það frv. til laga um breytingu á lögum um launaskatt sem hér liggur fyrir er til þess að þyngja þessa skattheimtu, en ég hef meira en rökstuddan grun um að í þeim viðræðum sem áttu sér stað milli atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar í maímánuði sl. hafi einmitt verið bent á að skattur af þessu tagi væri ekki lagður á í a.m.k. sumum löndum Efnahagsbandalagsins.

    Ég vil líka rifja upp, hæstv. fjmrh., að ég vísaði til ummæla sem hæstv. iðnrh. viðhafði í Ed. þegar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar voru þar til umræðu. Þá lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að á vegum iðnrn. væri starfandi nefnd sem fulltrúar iðnaðarins ættu sæti í og sömuleiðis fulltrúi fjmrn. Eftir þeim orðum sem hæstv. fjmrh. viðhafði hér áðan virðist sú nefnd hafa verið lögð niður, ekki boðuð til fundar eða sniðgengin, vegna þess að hæstv. fjmrh. sagði hér berum orðum áðan að henni kæmi í rauninni ekki við hvað ríkisstjórnin væri að aðhafast, það væri ekki hennar mál, heldur yrði henni tilkynnt á sínum tíma um niðurstöður ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar aðilar vinnumarkaðarins ganga til samninga við launþega um kjarasamninga og fá skriflega yfirlýsingu frá ríkisstjórn og forsrh. um tilteknar aðgerðir fyrir atvinnureksturinn, að þeir skuli svo hundsaðir að þeim skuli ekki einu sinni heimilt að eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem hefur með það að gera hvernig eigi að koma til móts við það fyrirheit að samkeppnisstaða þeirra verði jöfnuð skattalega borið saman við lönd Efnahagsbandalagsins.
    Ég beindi þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. hér áðan og ég bað þann hæstv. forseta sem þá sat í forsetastóli um að liðka til fyrir fjmrh. ef þingið gæti með einhverjum hætti gert það, að þingmenn fengju í hendur þær upplýsingar sem hæstv. iðnrh. talaði um í hinum tilvitnuðu ummælum. Nú fékk ég ekki svar við því hvort ríkisstjórnin sé reiðubúin til þess að láta þingmönnum í té þær upplýsingar sem ríkisstjórnin, eftir því sem hæstv. ráðherra sagði áðan, leggur til grundvallar þegar hún er að meta hvað sé sambærileg skattaleg staða fyrirtækja í löndum Evrópubandalagsins og fyrirtækja hér. Ég skal rifja upp þessa setningu í bréfi hæstv. forsrh. fyrir hæstv. fjmrh. ef hann vill láta svo lítið að svara skýrar. Setningin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun taka skattlagningu fyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum. Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem verða innan Evrópubandalagsins. Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök atvinnurekenda um þessa endurskoðun.``
    Nú vill svo til að framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda er erlendis,
sömuleiðis framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands þannig að ég hafði ekki tök á því að ráðfæra mig við þá áður en ég tæki hér til máls um það hversu slíku samstarfi hefði verið háttað. En hæstv. fjmrh. hefur tekið af mér ómakið. Hann hefur lýst því hér yfir að þessi yfirlýsing verði að engu höfð. Hæstv. fjmrh. sagði áðan úr ræðustól að hann hefði gert grein fyrir því í frumræðu sinni hvernig að þessari leiðréttingu yrði staðið. Ég heyrði hluta af ræðu hans, var kallaður í síma svo að ég heyrði hana ekki alla, en ég hef spurt aðra þingmenn að því hvort hann hafi kveðið fastar eða skýrar að orði í sinni ræðu um þessi atriði en í hinni skrifuðu ræðu sem útbýtt var til þingmanna. ( Fjmrh.: Ég sagði aldrei að ég hefði fjallað um það í ræðu minni. Ég sagði bara að

þingmaðurinn hefði gefið ...) Nú. Hæstv. ráðherra man ekki hvað hann sagði. Hann er nú líka farinn að ruglast í höfðinu því að hann sagði þegar hann kom hér upp áðan um tíuleytið að umræðan hefði staðið í níu tíma. ( Fjmrh.: Senn.) Það er nú kannski nær átta. Átta tímar hefðu kannski verið nær. Þar að auki hófst umræðan ekki fyrr en hálfþrjú þannig að hæstv. ráðherra hefur eitthvað ruglast í ríminu. En í grg. með fjárlagafrv. standa þessi orð, hæstv. fjmrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mikil óvissa ríkir um tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti félaga á næsta ári. Horfur eru á að afkoma fyrirtækja verði lakari á þessu ári en á árinu 1988, sem óhjákvæmilega leiðir til minni tekna af þessum skattstofni á næsta ári. Vaxandi greiðsluerfiðleikar hjá fyrirtækjum gætu einnig sett mark sitt á innheimtuna, bæði á þessu ári og hinu næsta. Miðað við þessar forsendur er óvarlegt að ætla að tekjuskattur félaga færi ríkissjóði meira en 1,7--1,8 milljarða í tekjur árið 1990, samanborið við 2 milljarða 250 millj. í ár.``
    Þetta er sú skýring sem gefin er á minni tekjuskatti félaga á næsta ári en þessu. Það er ekki vikið einu einasta orði að því að einhverjar þær skattabreytingar séu hafðar í huga sem hæstv. forsrh. hét og lofaði aðilum vinnumarkaðarins skriflega á sl. vori. Á hinn bóginn segja þessar tölur okkur annað. Þær segja okkur hversu mikil áhrif það hefur á afkomu ríkissjóðs hver rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna er. Og svo að ég haldi áfram þessari upprifjun, þá var því heitið í þessu plaggi að samkeppnisstaða útflutningsgreina yrði viðunandi á samningstímabilinu. Ég spurði hæstv. forsrh. hvort hann ætti við að hún yrði viðunandi allt samningstímabilið eða hvort hún yrði viðunandi t.d. einn sólarhring, eina klukkustund. Honum fannst þetta voðalega heimskulega spurt. Hann reyndi að gefa það í skyn að ríkisstjórnin hygðist bæta samkeppnisstöðuna hið skjótasta. En það hefur nú ekki verið gert enn þrátt fyrir það að frysting sé rekin með 3% styrkjum úr ríkissjóði og þrátt fyrir miklar greiðslur til saltfiskvinnslunnar úr Jöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, þrátt fyrir það að búið sé að tæma sjóði sem voru digrir hjá saltfiskverkuninni áður en þessi ríkisstjórn settist til valda, þá hefur staða sjávarútvegsins í heild versnað og það sem er kannski enn þá alvarlegra, annar atvinnurekstur hér á landi býr við erfiðari samkeppnisskilyrði en ella vegna þess að reynt er að reka sjávarútveginn með styrkjum. Af þessum sömu ástæðum er þessi mikli samdráttur í þjóðfélaginu í heild og þessi mikla heimatilbúna kreppa sem við búum nú við. Og eins og hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson gerði glögga grein fyrir áðan má búast við því að tekjur ríkissjóðs á næsta ári verði 1--1,5 milljörðum lægri á næsta ári heldur en þó er gert ráð fyrir í þessu frv. einmitt út af þessum mikla samdrætti. Þess vegna er það auðvitað algjörlega út í hött þegar hæstv. fjmrh. er að miða stjórn Sjálfstfl. á landsmálum við þessa hafta- og stöðnunarstefnu sem nú er.
    Ég get tekið annað dæmi. Þegar þessi hæstv. ráðherra og þegar hæstv. forsrh. voru að tala fyrir

Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina fyrir einu ári töluðu þeir um að þetta væri tímabundin aðgerð sem einungis mundi standa í eitt ár. Fyrirtækjunum yrði komið á réttan kjöl, síðan kæmi gósentíð vinstri stjórnar og þá væri hægt að leggja þennan sjóð niður.
    Hæstv. forseti. Þegar verið er að svara hæstv. fjmrh. er nú lágmark að hann sé inni, annars er ég alveg reiðubúinn að gera hlé á fundi til kl. tólf. ( Fjmrh.: Eins og áður var sagt, þá heyrir fjmrh. hvert einasta orð.) Það er gott. Ég vildi vera viss um það að ráðherrann hefði ekki misst af því sem ég er að segja. En í því frv. til lánsfjárlaga sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir því að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina fái til ráðstöfunar 750 millj. kr. fyrir utan 350 millj. kr. framlag úr ríkissjóði. Ég hef ekki lesið grg. með þessu frv. þar sem ég sá það fyrst áðan. Ég veit ekki hvaða hugmyndir hæstv. ríkisstjórn gerir sér um Hlutabréfasjóðinn, en á hinn bóginn er mér kunnugt, hæstv. fjmrh., að uppi eru hugmyndir um það í ríkisstjórninni að beita fleiri sjóðum í þá átt að greiða með margvíslegum atvinnurekstri hér á landi vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að skapa atvinnuvegunum viðunandi samkeppnisskilyrði á erlendum mörkuðum.
    Eitt atriði enn sem hæstv. fjmrh. minntist ekki á og ég beindi til hans beinni spurningu um. Hefur hæstv. fjmrh. t.d. staðið skil á uppsöfnuðum söluskatti vegna loðdýraræktar? Það kom ekki eitt einasta svar frá hæstv.
fjmrh. um þetta atriði. ( Fjmrh.: Samkvæmt fjárlagafrv. ...) Það er því í raun og veru algjörlega út í hött að hafa þessa umræðu hér, (Gripið fram í.) algjörlega út í hött og raunar mjög ömurlegt ef það færi nú svo að nauðsynlegt yrði að breyta þingsköpum til þess að knýja ráðherra til svara um einföldustu atriði vegna þess að þeir fást ekki til þess, vegna hinnar bágu stöðu sinnar og vegna þess að þeir hafa ekki staðið við þau fyrirheit sem þeir hafa gefið. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að loðdýraræktin, sem er aumust atvinnugreina hér á landi, á sama rétt til uppsafnaðs söluskatts og aðrar útflutningsgreinar. Á því er ekki minnsti vafi.
    Hæstv. fjmrh. kom þar máli sínu að hann talaði um hinn góða viðskilnað Ragnars Arnalds í fjmrn. Verð ég nú að segja að oft hefur mér blöskrað en aldrei eins og núna. Það er einmitt ágætt að rifja það upp í tengslum við Þjóðarbókhlöðu hvernig viðskilnaðurinn var hjá ráðherrum Alþb. þegar einmitt þessi maður, hv. þm. Ragnar Arnalds, var fjmrh. Ástandið var þá þannig í húsnæðismálum að erlend lán voru tekin til byggingarsjóða ríkisins. Ástandið var þannig hjá Lánasjóði ísl. námsmanna að erlend lán voru tekin til þess að hann gæti staðið við sínar skuldbindingar. Ég hygg að ríkisfjármál hafi aldrei hvorki fyrr né síðar komist á lægra plan nema í það eina skipti þegar vinstri stjórnin frá 1956--1958 fékk gullpeningana, silfurskildingana 30 úr varnarmálasjóði Bandaríkjanna, öryggissjóði Bandaríkjanna.
    Þegar síðan ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist að völdum þá urðum við að finna leiðir til þess

að reyna að draga úr þeim erlendu lántökum sem sú ríkisstjórn bar ábyrgð á sem þá sat að völdum, og hæstv. ráðherra átti mikinn þátt í að móta efnahagsstefnu hennar, var þá í fjh.- og viðskn. Nd. og flutti hér margar og lærðar ræður. Það kom í okkar hlut, sjálfstæðismanna, að finna leiðir út úr þessum vanda og sá eignarskattsauki sem oft hefur verið talað um í sambandi við Þjóðarbókhlöðuna var lagður á í því augnamiði að hægt væri að komast hjá því að taka erlend lán til húsnæðissjóðanna, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna eins og tíðkast hafði meðan Svavar Gestsson, hæstv. ráðherra, fór með húsnæðismál. Á þeim tíma voru framlög til húsnæðismála aumari og lélegri heldur en nokkru sinni síðan ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum. Raunlán til íbúðarbygginga þá voru um 11% af byggingarkostnaði.
    Við sjálfstæðismenn höfðum forustu um það að eignarskattsaukinn var lagður á. Síðan, þegar okkur hafði tekist að rétta svo fjárhag ríkisins að við gátum með innlendri lánsfjáröflun og greiðslum úr ríkissjóði staðið undir húsnæðislánakerfinu, þegar við hættum að taka erlendu lánin til húsnæðislánakerfisins, var það að frumkvæði hæstv. þáv. menntmrh. Sverris Hermannssonar sem þessi skattur var framlengdur og hugmyndin var sú að tekjurnar rynnu til Þjóðarbókhlöðu. Það var loforð alþingismanna á þeim tíma. Og þetta er satt að segja orðin mikil raunasaga. Við hátíðlega athöfn á Þingvöllum 1974 lýsti Alþingi Íslendinga yfir að það ætlaði að gefa þjóðinni þjóðarbókhlöðu. Þegar vinstri stjórnin sat 1980--1983 gerðist það í fyrsta skipti að þetta var svikið, þegar hv. þm. Ragnar Arnalds var fjmrh. Og í hans fjárlögum má sjá að heimild er til erlendrar lántöku í þjóðarbókhlöðu. Sú
ríkisstjórn sem þá sat tók erlent lán til þess að íslenska þjóðin gæti gefið sjálfri sér gjöf í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Þessi var nú reisnin yfir hæstv. fjmrh. þeirrar stjórnar, Ragnari Arnalds. Og ég get vel rifjað það upp að ég greiddi atkvæði gegn þessari heimild. Síðan þekkjum við söguna og nú er svo komið að það á að taka happdrættisfé Háskóla Íslands í Þjóðarbókhlöðuna, happdrættisfé Háskóla Íslands. Mér þykir í rauninni slæmt að ég skuli ekki eiga á segulbandi þau orð sem hafa fallið um Þjóðarbókhlöðu fyrr og síðar hér í þessum sölum. Orð sem ég hef heyrt á fundi sem var haldinn uppi í Háskóla um Þjóðarbókhlöðu. Mig minnir að á þeim fundi hafi hæstv. núv. fjmrh. talað, þá utan þings, mig minnir það, það má vera að það sé misskilningur. En kannski væri nú hægt að fletta því upp og athuga. En ljóst er að á þeim tíma sem Sjálfstfl. fór með fjármál og Sjálfstfl. fór með menntamál heyrðist ekki ein einasta rödd um það innan Háskólans, hvorki frá þessum virðulega prófessor eða neinum öðrum að rétt væri að peningar happdrættisins gengu til Þjóðarbókhlöðunnar. Ef skrautleg faguryrði hæstv. fjmrh. nú eru annað en yfirskin þá hlýtur hann að verða að svara sjálfum sér þeirri spurningu: Hvernig stóð á því að hann fann ekki upp á þessu fyrr?

Hvernig stóð á því að hann stakk ekki áður upp á því, meðan hann var innan Háskólans, þá hefði verið tekið meira mark á honum, að peningar happdrættisins rynnu til þessarar byggingar?
    Auðvitað vitum við að sparnaðurinn sem hæstv. fjmrh. hrósar sér af er ekki sparnaður í rekstri. Það er ekki sparnaður í rekstri að ákveða það að svipta Háskólann tekjum af happdrætti. Það er ekki sparnaður í rekstri að skera vegaframlög niður um 1 milljarð. Það er ekki sparnaður í rekstri að leysa buxurnar niður um hæstv. samgrh. í hafnamálum. Það er ekki sparnaður í rekstri að draga úr hafnaframkvæmdum. Það er ekki sparnaður í rekstri að stela 1 / 2 milljarði af opinberum starfsmönnum úr þeirra lífeyrissjóði. Það er ekki
sparnaður í rekstri að draga úr fé til byggingarsjóðanna og taka hærri lán í staðinn. Ekkert af þessu er sparnaður í rekstri.
    Hæstv. ráðherra hefur ekki sparað eina einustu krónu. Það sjáum við best á þessu pjatti sem heitir umhverfisráðuneyti í þessu hér og margvíslegu öðru pjatti sem er að finna í þessu ágæta frumvarpi --- afleita frumvarpi vildi ég sagt hafa.
    Kjarninn í því sem ég er að segja, hæstv. forseti, er þessi: Frumvarpið ber auðvitað keim af því að efnahagslíf hér á landi hefur verið að fara niður á við. Það er rétt sem hæstv. fjmrh. sagði: Við horfum fram á þriðja árið í röð sem landsframleiðsla minnkar. Og það sem kannski enn dapurlegra er: að sú ríkisstjórn sem hér situr við völd hefur misst allan metnað, ef hún hefur þá nokkurn tímann haft hann, og hefur ekkert markmið í þá veru að rétta við efnahag fólksins í landinu, efnahag fyrirtækjanna. Og auðvitað er það algerlega út í hött að reyna að halda því fram að kjör láglaunafólks, einhvers hóps innan BSRB hafi batnað síðan þessi ríkisstjórn settist að völdum. Það er náttúrlega slík ósvífni og ósvinna að halda slíku fram að engu tali tekur. Þvert á móti verður maður hvarvetna var við þá miklu þreytu sem einkennir fólkið. Og þessi þreyta er kannski ekki fyrst og fremst hjá því fólki sem hefur örugga atvinnu. Þreytan er kannski miklu meiri hjá öðru fólki sem vinnur hjá fyrirtækjum í margvíslegum rekstri, sem veit ekki hvort það heldur vinnunni fram að jólum, hvort það heldur vinnunni fram á vor. Fólki sem hefur gengið mánuðum saman atvinnulaust. Fólki sem er búið að vera svo lengi atvinnulaust að atvinnuleysisbætur hafa fallið niður. Ein skýringin á því að greiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð þurfa að vera meiri nú en áður er t.d. að nú er búið að lengja tímabilið sem menn mega vera atvinnulausir og halda þó fullum bótum. Það er ein skýringin. Það er þess vegna laukrétt sem hv. 14. þm. Reykv. sagði hér áðan að hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til að hreyfa við þessum sjóði af því að atvinnuleysið blasir við hjá æ fleiri og margir flýja land.