Skil innheimtumanna ríkissjóðs
Mánudaginn 30. október 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti. Þetta eru mjög sérkennileg og á margan hátt þægileg vinnubrögð sem sýslumenn og yfirvöld hafa tekið upp með þessum hætti. Ef ég mætti færa þau hingað til Reykjavíkur þar sem Gjaldheimtan innheimti 24 milljarða 441 millj. 51 þús. 491 kr. á síðasta ári og um helmingur af þeirri fjárhæð fer í ríkissjóð væri það vissulega ekki amalegt fyrir Reykvíkinga að halda eftir rúmum 12 milljörðum til eigin framkvæmda. Það mætti t.d. nota þá peninga til að ljúka við Ráðhúsið. Það mætti nota þá peninga til að ljúka við ,,skopparakringluna`` eða ýmsar aðrar framkvæmdir og skipulagsslys sem því miður hafa verið samþykkt hér í Reykjavík. En fyrst og síðast held ég að hægt væri að nota þessa peninga til að standa í skilum við Reykjavíkurborg og greiða þann milljarð króna sem ríkið skuldar borginni í vegaframkvæmdir, fyrir þá þjóðvegi sem borgin hefur lagt út fyrir fyrir ríkið hér á borgarlandinu.
    Það sjá náttúrlega allir hvers konar firra þetta er, að það gengur ekki upp að þetta sé unnið á þennan hátt. Sé þetta hins vegar venja í einu kjördæmi langar mig að athuga hvort hæstv. fjmrh. mundi samþykkja það með því að kinka kolli að Reykvíkingar fengju að nota gjaldheimtupeningana á sama hátt og varla sér högg á vatni.