Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Við flytjum hér fjórir þingmenn á þskj. 49 till. til þál. um aukin verkefni sveitarfélaga. Þeir eru auk mín Geir H. Haarde, 17. þm. Reykv., Salome Þorkelsdóttir, 6. þm. Reykn., og Guðmundur H. Garðarsson, 14. þm. Reykv.
    Till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hefja nú þegar í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga skipulega vinnu við undirbúning lagafrumvarpa um aukin verkefni sveitarfélaga og samsvarandi tilfærslu tekjustofna frá ríkinu.``
    Það er þingmönnum væntanlega í fersku minni að á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þau lög áttu sér langan aðdraganda, höfðu verið á borði margra ríkisstjórna, og mikið unnið í því að reyna að samræma skoðanir sveitarstjórnarmanna og þingmanna og einstakra ráðuneyta um hvernig skipta bæri upp verkefnum milli þessara stjórnvalda. Markmið þessarar vinnu var að gera öll samskipti sveitarfélaga og ríkisins einfaldari og skýrari, þannig að hver málaflokkur félli eftir því sem kostur væri aðeins undir einn aðila. Að leitast við að saman færi frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð á stofnkostnaði og rekstri. Að gera sveitarfélögin fjárhagslega sjálfstæð og óháðari ríkisvaldinu en nú er. Síðast en ekki síst hefur það verið haft að leiðarljósi í allri þessari vinnu að auka eða efla sjálfstæði sveitarfélaganna, færa valdið út í héruðin og draga úr miðstýringu ráðuneyta hér í Reykjavík.
    Ég hygg að þetta hafi verið þær meginlínur sem menn voru sammála um að reyna að draga við undirbúning nýrrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga.
    Um það frv. sem hér var til meðferðar á Alþingi sl. vor náðist mjög góð samstaða. Það var samþykkt hér í góðri samvinnu, bæði ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, og það var samþykkt í góðri samvinnu við fulltrúa sveitarfélaganna í landinu. Þegar upp er staðið eftir þennan áfanga er þó ljóst að það hefur ekki unnist nema að litlu leyti að færa valdið út til sveitarfélaganna. Þau verkefni sem alfarið féllu til ríkisins voru viðameiri verkefni, kostnaðarsamari verkefni, eins og t.d. á sviði heilsugæslunnar, en þau verkefni sem færðust yfir til sveitarfélaganna voru ýmis viðaminni verkefni, verkefni sem ekki hafa kostað eins mikið á undanförnum árum þó að þau skipti vissulega miklu máli. Ég skal ekki draga úr þýðingu þeirra.
    Þess vegna vil ég líta svo á að hér sé fyrst og fremst um að ræða áfanga á braut sem halda ber áfram á, og ég held, og þá ekki síst miðað við hversu langan tíma tók að ná þessum fyrsta áfanga, að nauðsynlegt sé að hefja nú þegar undirbúning að næstu skrefum í þessum málum sem hljóti þá að vera að flytja verkefni frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna, færa þannig valdið út í héruðin og draga úr miðstýringu ráðuneyta í Reykjavík.

    Ástæðan fyrir því að þessi till. er nú flutt er að ýta á að nú þegar verði farið í þetta verkefni. Menn setjist ekki með hendur í skauti ánægðir yfir því sem vannst á síðasta vori, heldur verði nú þegar tekið til við að vinna þetta mál áfram og þá í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga.
    Þessi spurning hlýtur auðvitað að vakna: Hvaða verkefni eru það sem eðlilegt er að færa frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna? Þar kemur auðvitað margt til greina. Í grg. með þessari þáltill. eru nefndar sérstaklega þrjár tegundir af verkefnum, þ.e. heilsugæslan, grunnskólinn og löggæslan.
    Í nál., sem lagt var til grundvallar þegar lagafrv. var samið sem hér var til meðferðar á Alþingi á sl. vetri, var gert ráð fyrir því að heilsugæslan færi yfir til sveitarfélaganna. Þá var verkefni á sviði heilbrigðismála skipt í tvennt, þ.e. rekstur sjúkrahúsa og svo rekstur heilsugæslu. Frá þessu var þó horfið á miðri leið, m.a. vegna þess að menn töldu að sveitarfélögin stæðu mjög misjafnlega að vígi til þess að taka að sér heilsugæsluna og jafnframt að heilsugæsla og rekstur sjúkrahúsa væru svo samtvinnuð í mörgum sveitarfélögum að það yrði ekki að skilið. Þess vegna var frá þessu horfið og heilsugæslan alfarið sett yfir til ríkisins, þannig að ríkið er þá með heilbrigðismálin að öllu leyti á sínum snærum. Ég held að það sé ekki gott til frambúðar og því sé nauðsynlegt að taka þetta mál upp aftur og skoða það mjög rækilega og kanna hvort ekki er hægt að finna lausn á því að heilsugæsla fari yfir til sveitarfélaganna sem auðvitað kann að þýða aukna samvinnu sveitarfélaga á ákveðnum svæðum um þessi mál.
    Varðandi grunnskólann þá var stór hluti af verkefnum sem hann snerta færður yfir til sveitarfélaga með lögunum frá því í vor, þ.e. stofnkostnaður að öllu leyti og rekstrarkostnaður að hluta. Þó er stór hluti rekstursins enn þá á höndum ríkisins, þ.e. allur sá hluti sem snýr að kennslumálunum sjálfum, og því rétt að kanna hvort ekki er eðlilegt að grunnskólinn fari að öllu leyti yfir til sveitarfélaganna.
    Þriðja verkefnið sem nefnt er í greinargerðinni er löggæslan. Svo var fyrir allmörgum árum síðan að löggæsla var verkefni sveitarfélaga. Ríkið hafði að vísu með höndum ákveðinn hluta löggæslunnar og greiddi sveitarfélögum vissan kostnað í því sambandi en síðan var gerð á því breyting þannig að löggæsla fór alfarið yfir til ríkisins.
    Ég finn það að ýmsir sveitarstjórnarmenn, ekki síst víða út um land, sakna þessara tíma þegar löggæslan var verkefni sveitarfélaganna og sveitarfélögin höfðu sjálf meira um það að segja hvernig henni var stjórnað. Nú er henni alfarið stjórnað úr ráðuneytum hér í Reykjavík og menn þekkja dæmi, nýleg dæmi, um það hvernig farið getur þegar þannig er ástatt, að þessu er stjórnað úr jafnmikilli fjarlægð og raun ber vitni. Þessi dæmi sem ég á við hafa nýlega komið upp í sambandi við bann við eftirvinnu löggæslumanna sem hefur valdið því að rannsóknir á

slysum eða jafnvel afbrotum hafa þurft að bíða sólarhringum saman vegna þess að löggæslumenn þurfa að lúta fyrirmælum héðan úr Reykjavík um hvernig þeir eiga að standa að sínum verkum.
    Þessi þrjú mál eru fyrst og fremst nefnd sem dæmi. Og ég skal ekki fullyrða að það sé rétt að þau fari yfir til sveitarfélaganna. Mér finnst rétt að það verði kannað mjög rækilega. Mér er það einnig ljóst að það þarf auknar tekjur til sveitarfélaganna til að sinna þessum verkefnum, það þarf aukna samvinnu þeirra á milli, og það er reyndar ekki alveg víst að sömu reglur geti gilt hvar sem er á landinu, þ.e. það fari töluvert eftir stærð sveitarfélaga hvaða verkefni þau geti tekið að sér í þessum efnum. En þarna er verk að vinna sem mér finnst rétt að þegar verði farið í að kanna og þess vegna er þessi till. nú flutt, til að ýta á eftir því að þessi vinna verði sett í gang.
    Ég vil, virðulegi forseti, að svo mæltu leggja til að að þessari umræðu lokinni verði till. vísað til 2. umr. og félmn. sameinaðs þings.