Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að byrja á því að taka undir orð hv. 3. þm. Vestf. og hans ræðu sem hann flutti hér áðan, og ég verð að segja það að mér finnst sá málflutningur hreint ekki vera úr takt við það sem hér er verið að ræða. Ég get alveg tekið undir það með honum að það er vissulega jafnmikilvægt að ræða fjárþörf heimilanna eins og stóra sameiginlega heimilisins okkar allra, ríkissjóðs.
    Það er nú því miður svo að af þeim málflutningi sem við höfum fengið að hlusta á undanfarið, eins og t.d. í umræðum um stefnuræðu hæstv. forsrh., hefði mátt ráða að þeir hv. þm. sem þar töluðu af hálfu Alþb. væru ekki í sama flokki og hæstv. fjmrh. Það liggur við að manni detti stundum í hug að hann búi í sérstökum fílabeinsturni því að honum virðist ekki vera kunnugt um hag almennings í landinu eða kjör eins og hans málflutningur hefur verið að undanförnu. Hann er duglegur við að upplýsa menn um að hvítt sé svart eða að svart sé hvítt og það hefur komið greinilega fram í hans málflutningi.
    Hitt er svo annað mál að ég get ekki staðist, úr því að ég er komin hér í ræðustól og við erum að ræða við hæstv. fjmrh., þá freistingu að þakka honum fyrir hvað honum er farið að þykja vænt um flokkinn okkar, Sjálfstfl., því að það hefur verið sagt að það sem tungunni er tamast sé hjartanu kærast. Það hefur varla fallið svo setning eða málsgrein frá hans munni að hann ekki nefni flokkinn okkar í leiðinni. Ég tel það vera af hinu góða, enda viðurkennir hann með því hversu sterkur Sjálfstfl. er í íslenskum stjórnmálum.
    En erindi mitt hingað við þessa 1. umr. lánsfjárlaga var fyrst og fremst að gera athugasemd við og reyndar rifja upp mál sem hér var til umræðu á sl. vori og varðar málefni aldraðra. Um það mál er fjallað í 27. gr. þessa frv. til lánsfjárlaga, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, skal framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs aldraðra eigi vera hærra en 160 millj. á árinu 1990.``
    Mig langar að rifja upp þær umræður sem urðu hér í deildinni á sl. vori, eins og ég sagði áðan, en það var þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. mælti fyrir frv. um málefni aldraðra. Við 1. umr. gerði ég m.a. athugasemdir við 10. gr. frv. sem þessi 27. gr. hér fjallar um, þ.e. um nefskattinn, 2500 krónurnar sem renna áttu í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég leyfði mér þá að draga sterklega í efa, í ljósi fenginnar reynslu, að sú fjárhæð fengi að renna óskert í sjóðinn og nú kemur einmitt fram samkvæmt þessu frv., og reyndar kemur það einnig fram í fjárlagafrv., að það á svo sannarlega að skerða þetta framlag. Ríkissjóður ætlar með þessum lánsfjárlögum --- ég vil leyfa mér að nota svo gróft orð --- að stela hluta af þessu framlagi sem fólk í góðri trú er að greiða með sköttum sínum í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Ég minnist þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. fjallaði um þetta atriði eða svaraði minni athugasemd þarna

við umræðurnar og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér smákafla úr því svari, en þar segir hann:
    ,,Það er ljóst`` og þá er hann að tala um þessar 2500 kr. ,,að hér er um nokkra viðbótarskattheimtu að ræða, en ég vil þó minna á að það er ekki stór upphæð miðað við heildarútgjöld fjárlaga, sem eru 77 milljarðar ef ég man rétt, ef þessi litli skattur ætti að gefa Framkvæmdasjóðnum áætlaðar 200 millj. í ár, 2500 kr. á hvern skattgreiðanda sem á annað borð yrði skattskyldur samkvæmt ákvæðum frv.`` Svo segir hann hér nokkru síðar: ,,Þó hygg ég að ég megi fullyrða og muni rétt að hvað varðar þennan nefskatt sem var í gildi og rann til Framkvæmdasjóðs aldraðra, þá hafi hann haldið sínu og runnið óskertur í Framkvæmdasjóðinn af því að hann var svo skýrt afmarkaður þessum málaflokki og var beinlínis álagður sem slíkur, föst ákveðin krónutala sem rann í þennan ákveðna sjóð. Við því var ekki hróflað fyrr en með staðgreiðslukerfinu þegar hætt var að innheimta þennan skatt sérstaklega og þá skipti engum togum að sú upphæð sem rann í Framkvæmdasjóðinn festist við krónutölu þess árs og er síðan, eins og ég kom að í framsöguræðu minni áðan, aftur óbreytt krónutala í fjárlögum þessa árs eins og krónutalan var í fjárlögum seinasta árs. Mér er því nokkuð í mun að við náum aftur að festa í sessi þessa upphæð og hafi menn eða sé hægt að segja að menn hafi einhvern tíma greitt skatt með glöðu geði, þá hygg ég að menn hafi þó einna helst eða frekast gert það varðandi þennan nefskatt sem rann beint og óskertur í Framkvæmdasjóð aldraðra.``
    Þetta voru orð hæstv. heilbr.- og trmrh. Hann hefur e.t.v. verið í góðri trú, en mér sýnist að skattur sem var orðinn að 200 millj. á sl. vori, eða átti að vera á þessu ári, geti varla orðið 160 millj. á næsta ári ef hann ætti að renna óskertur í sjóðinn. Þess vegna vildi ég gjarnan spyrja --- og ég hefði nú gjarnan viljað hafa hæstv. heilbr.- og trmrh. hér, en ég veit ekki hvort hann er hér í húsinu. ( Forseti: Ég skal gera ráðstafanir til að kanna það.) Já, þá ætla ég aðeins að fá að hinkra við, hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. heilbr.- og trmrh. væri hér viðstaddur.
    Það má kannski minna á það á meðan við bíðum eftir hæstv. heilbr.- og trmrh.
að þegar þetta mál var til umræðu í Nd. var bent á að þarna væri verið að fara aftan að mönnum vegna þess að þessi skattur var einn af fjórum sköttum sem voru felldir niður þegar staðgreiðslukerfinu var komið á og þessum sjóðum voru tryggðar tekjur með framlögum úr staðgreiðslukerfinu eftir að því var komið á. Framlag til þeirra var ekki svikið þrátt fyrir staðgreiðslukerfið. Það var tekið með inn í dæmið. Þessir skattar voru sóknargjald, kirkjugarðsgjald, sjúkratryggingagjald og svo þetta sérstaka gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Nú minnumst við þess að hæstv. núv. utanrrh. og fyrrv. fjmrh. hafi viðurkennt að það að taka þetta ákvæði upp í þessu frv. um Framkvæmdasjóð aldraðra hafi verið slys. Það hafi verið athugunarleysi því að

búið hafi verið að gera ráð fyrir þessum skatti innan staðgreiðslukerfisins. Það væri því fróðlegt að fá að heyra álit hæstv. ráðherra, hvaða hug þeir bera til þessa máls nú. ( Forseti: Ég sé á töflu minni að hæstv. ráðherra virðist vera í húsinu, en ég fæ skilaboð. --- Hæstv. ráðherra mun vera í símanum en hann kemur að vörmu spori hingað í deildina.) (Gripið fram í.) Gera hlé svo að aðrir komist að? (Gripið fram í.) Nei. Ég held að hv. 2. þm. Norðurl. e. sé það mjög ljúft að gefa 6. þm. Reykn. tækifæri til þess að ljúka máli sínu. ( Forseti: Vill hv. þm. bíða um stund?) Já, hv. þm. vill gjarnan bíða um stund. ( Forseti: Já. Meðan beðið er eftir ráðherranum?) Það hefur nú áður gerst að slíkar ræður hafa verið haldnar úr ræðustóli hér á hv. Alþingi, með þögninni, og ég geri ekki ráð fyrir að símtalið verði svo langt að það sé ekki hægt að þrauka. ( KP: ... ekki að feta í þau fótspor.) Nei, ekki hefur nú 6. þm. Reykn. áhuga á því en (Gripið fram í.) Ja, ekki getur þm. lofað því að hann umberi það ef það tekur lengri tíma en símtal hæstv. heilbr.- og trmrh. sem nú er kominn í salinn.
    Ég óskaði eftir að hæstv. heilbr.- og trmrh. væri hér viðstaddur svo að hann gæti heyrt þær athugasemdir eða spurningar sem mig langaði að leggja fyrir þá tvo hæstv. ráðherra fjármála og heilbrigðis- og tryggingamála varðandi 27. gr. lánsfjárlaga, en ég þykist vita að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé vel kunnugt um að þarna er verið að fara þvert á það sem rætt var hér á sl. vori þegar við vorum að fjalla um Framkvæmdasjóð aldraðra og 2500 kr. nefskattinn þegar ég gerði athugasemdir við 10. gr. þess frv. og hæstv. heilbr.- og trmrh. fullvissaði mig um að hér væri um svo gott mál að ræða að það mundi aldrei koma til að það yrði farið að skerða slíkt. En það er einmitt það sem verið er að gera nú með 27. gr. Nú má þetta framlag ekki fara yfir 160 millj. og ég þykist vita að það sé nokkuð ljóst að þessi skattur eða tekjur af þessum skatti muni verða miklu hærri á næsta ári ef að líkum lætur. Þess vegna langar mig að spyrja þessa tvo hæstv. ráherra hvaða rök séu fyrir því að ætla nú að draga hluta af þessum nefskatti beint í ríkishítina og hvort hæstv. heilbrrh. þá sérstaklega sé ljúft að standa að slíku, hvort hann telji að það sé ofgert með þessum nefskatti til þessa góða málefnis og því megi skerða hlut þess.