Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Hér hafa nú farið fram að nokkru leyti mjög almennar umræður um efnahagsmál og ég ætla ekki að víkja mikið að þeim heldur reyna að svara hér nokkrum orðum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og gera nokkrar athugasemdir við fáein atriði sem fram komu.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að við höfum nokkuð oft rætt hans kenningar um efnahagsmál og ég hef ætíð hlustað á þær með athygli. Þó verð ég að segja að sú kenning sem hann lét í ljós nú, að lækkun skatta mundi vera veigamikið tæki til að lækna efnahagsvanda Íslendinga, er ekki rétt. Það vandamál sem við er að etja í hagkerfinu er ekki fyrst og fremst eftirspurnarvandi heldur felst sá vandi sem við glímum hér við annars vegar í tekjubresti þjóðarbúsins í heild vegna verðlækkunar á erlendum mörkuðum og minnkandi sjávarafla og hins vegar í víðtækri skipulagskreppu atvinnuveganna sem m.a. stafar af offjárfestingu liðinna ára. Væri hér um eftirspurnarvanda að ræða í hagkerfinu, þá er það vissulega rétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að lækkun skatta gæti verið áhrifaríkt tæki. ( EKJ: Eftirspurnarvandinn, hver er hann?) Eftirspurnarvandinn felst í því að til þess að koma hjólum hagkerfisins í gang á nýjan leik þurfi að skapa víðtæka eftirspurn hjá almenningi eftir vörum og þjónustu með því að auka ráðstöfunartekjur fólks og nota skattalækkun t.d. í því skyni. ( EKJ: Það er ekki þörf á því?) Nei, það er ekki vandamálið sem við er að etja og með hliðsjón af læknisfræðum, ef ég má nota þá líkingu vegna hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, þá er auðvitað frumatriði að greina sjúkdóminn áður en meðalagjöfin er ákveðin. Og ef sjúkdómsgreiningin er röng, þá geta áhrifin af því að gefa vitlaust meðal orðið þau að ástandið versnar. Þess vegna er mikilvægt atriði að fjalla um það hvert er eðli vandamálsins ef menn á annað borð viðurkenna að það sé eitthvert vandamál við að etja sem ég held að allir hv. þm. hljóti að gera. Ég hef sett fram þá skoðun bæði hér á Alþingi og annars staðar að vandamálið sé fyrst og fremst þessi víðtæki tekjubrestur sem fór að koma fram á seinni hluta síðasta árs og við munum öll eftir því hvernig hann birtist æ skýrar frá einum mánuði til annars og síðan þessi víðtæka skipulagskreppa atvinnuveganna, m.a. vegna margvíslegrar offjárfestingar á ýmsum sviðum.
    Ég ætla ekki að ræða þetta ítarlega hér, vonandi gefst tækifæri til þess síðar, heldur aðeins víkja að þessu vegna þess að ég hef jafnan viljað að hlusta á kenningar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar um íslensk efnahagsmál og vildi þess vegna nota þetta tækifæri hér og nú til þess að láta í ljós þá skoðun mína að nú finnist mér hann aftur á móti vera í sporum læknisins sem hefur greint sjúkdóminn rangt og leggur þess vegna til meðal sem mundi hafa þveröfug áhrif.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kvartaði mjög undan því að erfitt væri að átta sig á þeim tölum sem

að baki búa frv. og það má til sanns vegar færa að það þarf nokkra yfirlegu til þess að setja það í ákveðið samhengi. E.t.v. væri tímabært að taka hér upp í þingsölum aðstöðu til þess að geta með myndrænum hætti sýnt fram á samhengið í þessum tölum vegna þess að það auðveldar mönnum mjög skilning á því sem hér er um rætt. En til þess er ekki aðstaða hér í þjóðþingi okkar hér á Íslandi þó að hún sé til sums staðar annars staðar og þess vegna verða menn að leggja á sig þá vinnu að raða þessum tölum saman í ákveðið samhengi.
    Ég minnist þess t.d. að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hélt því fram fyrir u.þ.b. ári síðan að vegna skattahækkunarinnar sem ákveðin var á síðasta ári mundi hallinn á ríkissjóði í ár verða 14--15 milljarðar. (Gripið fram í.) Það held ég nú ekki vegna þess að það er senn komið fram í nóvembermánuð og við höfum allgóðar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs fyrstu níu til tíu mánuði þessa árs þannig að hér þarf að verða algjört efnahagslegt hrun á næstu átta vikum, nánast án nokkurs fordæmis í hagsögunni, ef þessi spásögn á að reynast rétt.
    Ástæðan fyrir því að við höfum náð þessum stöðugleika í hagkerfinu sem ég hef gert að umræðuefni, jafnvægi í peningamálum, vaxtalækkun og ýmsu öðru sem hér hefur verið til umræðu, felst í skattahækkuninni sem framkvæmd var á sl. ári. Skattahækkunin á sl. ári var raunhæfasta efnahagsaðgerðin til þess að koma á jafnvægi í hagkerfinu á Íslandi á nýjan leik. Og ég veit að ég þarf ekki að útskýra það fyrir hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, eins vel lærður og hann er í hinum hagrænu fræðum, að skattahækkanir geta verið mikilvægt hagstjórnartæki til að ná jöfnuði í hagkerfinu á nýjan leik. Ein meginástæðan fyrir því hvers vegna hlutirnir fóru hér úr skorðum á árunum 1986 og 1987 var að á þenslutíma, í stað þess að auka tekjur ríkissjóðs, voru skattar lækkaðir og ríkissjóður ofan í kaupið gerðist allfyrirferðarmikill á lánsfjármarkaðnum. Það er nú hin einfalda skýring á því hvers vegna efnahagsstjórn Sjálfstfl. fór algjörlega úr böndunum á þessum árum.
    Ég veit vel að það er stundum erfitt í öllu þessu moldviðri um skatta og umræðu um skatta að gera mönnum grein fyrir því að skattabreytingar eru ekki
bara nauðsynlegar út frá ýmsum almennum sjónarmiðum eða sem réttlætistæki, heldur eru þær einnig hagstjórnartæki, til þess að ná ákveðnum markmiðum, enda hefur það verið að koma í ljós á hinum frjálsa og almenna markaði að þessar skattahækkanir hafa skapað þennan stöðugleika. Það er ein af skýringunum á því hvers vegna þúsundir Íslendinga af fúsum og frjálsum vilja hafa gerst kaupendur að spariskírteinum ríkissjóðs og það er dómur hins frjálsa markaðar um þennan efnahagslega stöðugleika. Þeir sem trúa á hinn frjálsa markað sem grundvallarþátt í sinni hugmyndafræði ættu að horfa á þá traustsyfirlýsingu sem hinn frjálsi markaður hefur gefið þessari efnahagsstefnu, hvað sem líður pólitískri afstöðu. Á sama hátt er vöruskiptajöfnuðurinn nú

jákvæður í fyrsta skipti síðan 1986 og staða peningastofnana einnig eins og hér hefur borið á góma.
    Þess vegna búum við kannski við þá þversögn að það sem Sjálfstfl. vill helst hafa í hávegum, þ.e. hinn frjálsi markaður, hefur í raun og veru dæmt gagnrýni Sjálfstfl. á efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar sem ómerka vegna þess að ríkisstjórnin hefur hlotið traustsyfirlýsingu hins frjálsa markaðar gagnvart efnahagsstefnu sinni.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vék einnig að fullyrðingum mínum um kaupmátt þeirra sem lægst hafa launin og það gerði einnig hv. þm. Karvel Pálmason og hafði uppi stór orð um svik ríkisstjórnarinnar við fyrirheit í kjarasamningum. Ég tek loforð ríkisstjórnar, sem ég á sæti í, gagnvart samtökum launafólks mjög alvarlega, og ég tel það mjög alvarlega ásökun ef ég er borinn þeim sökum að hafa ekki staðið við þau loforð sem gefin voru af félögum mínum sem gegna trúnaðarstörfum í samtökum launafólks. Þess vegna langar mig bara hér á einni mínútu eða svo að rifja upp hvað það var sem lofað var í kjarasamningunum og hvernig efndirnar hafa verið.
    Kjarasamningar BSRB voru gerðir á undan og í tengslum við þá kjarasamninga var undirrituð yfirlýsing um það að kaupmáttur þeirra sem lægst hafa launin innan BSRB mundi halda gildi sínu til samræmis við verðbreytingar innlendrar landbúnaðarvöru. Nýlega var birt skýrsla um þetta mál og forusta BSRB fjallaði einnig um málið af sinni hálfu og niðurstaða forustusveitar BSRB og fjmrn. var samhljóma í þessum efnum. Rúmur fjórðungur félagsmanna BSRB hefur hækkað í launum um 14--18% á samningstímanum. Verðbreytingar á innlendum landbúnaðarvörum eru 13% á sama tíma og ber þá að hafa í huga að ein kaupbreyting á eftir að koma fram fyrir félagsmenn BSRB þótt verð á landbúnaðarvörum muni ekki hækka það sem eftir er á samningstímanum. Í reynd er því munurinn enn meiri þessum hópi launafólks í hag en þessar tölur sýna. Samanburður við verðlag á öllum innlendum matvælum og matvælum í framfærsluvístölunni í heild --- þær breytingar hafa verið 9--10% frá því í apríl á sama tíma og breytingarnar á kaupi þessa fjórðungs innan BSRB sem hefur verið með lægst launin eru 14--18%.
    Það er því alveg ljóst, það er töluleg staðreynd, að kaupmáttur þess fjórðungs félagsmanna BSRB sem lægst hafa launin sem mældur er í verðlagi matvæla, hvort sem það eru landbúnaðarvörur eða matvælin öll, hefur aukist um 2--7% á samningstímanum. Um þetta er ekki nein deila milli fjmrn. og forustu BSRB. Hitt er svo alveg ljóst að kaupmáttur annarra félagsmanna BSRB hefur minnkað en fyrirheit samningsins voru ekki um að varðveita kaupmátt allra félagsmanna BSRB, heldur þeirra sem lægst höfðu launin.
    Þegar kom að samningunum við ASÍ var því lýst yfir sem viðhorfi af hálfu forustu ASÍ að hún teldi þessa yfirlýsingu sem BSRB var gefin ekki vera

nægilega trausta og vildi þess vegna fá skýrt ákveðnar upphæðir í auknum niðurgreiðslum ákveðnar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Forusta Alþýðusambandsins setti þess vegna fram þá ósk að í stað þess að um væri að ræða einhverja almennt orðaða yfirlýsingu eins og í samningunum við BSRB yrði ákveðin krónutöluaukning niðurgreiðslna og samkomulag varð um að hún næmi 500--600 millj. kr. Niðurstaðan verður sú að niðurgreiðslur verða auknar um 800 millj. kr. á þessu ári. Eða með öðrum orðum, niðurgreiðslur verða auknar rúmlega 50% meira en lofað var í kjarasamningunum sem gerðir voru við ASÍ. Þetta eru staðreyndir málsins, tölulegar staðreyndir málsins, sem ekki er hægt að hrekja með neinum yfirlýsingum því að þær blasa við og eru öllum ljósar.
    Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurði hér um nokkur atriði. Ég vil fyrst geta þess að það listaverk sem nefnt er í samhengi við þetta frv. og tengist flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, er eftir listamanninn Magnús Tómasson, en í fjárveitingum fyrir yfirstandandi ár var byggingarnefndinni veitt fjármagn til að standa við skuldbindingar gagnvart listaverki listakonunnar Rúrí. Þetta er mál sem fjmrn. hefur ekki haft afskipti af. Það er sérstök byggingarnefnd sem fer með þessar framkvæmdir og starfar á vegum utanrrn. og það komu fram óskir frá henni um að veitt yrði fé nú til að heimila lántökur til að standa við skuldbindingar gagnvart listaverki Magnúsar Tómassonar og það er hér gert. Byggingarnefndin var áður búin að gera samninga gagnvart listakonunni Rúrí og ég hef ekki upplýsingar um annað en að a.m.k. hvað snertir afgreiðslu af hálfu fjmrn. hafi verið við þær
óskir staðið.
    Hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm. að þessi saga flugstöðvarinnar er auðvitað merkilegur ferill og einhver sagði hér í sæti sínu í þingsalnum þegar hv. þm. spurði um þetta að líklegast væru þessir fjármunir í listaverk til þess að greypa í brons myndina af frambjóðendum Sjálfstfl. í síðustu þingkosningum fyrir framan flugstöðina.
    Hv. þm. spurði einnig um lántökuheimildir Hitaveitu Reykjavíkur. Sú heimild tengist framkvæmdum Hitaveitunnar á Nesjavöllum til orkuöflunar. Hitt er svo rétt ábending sem lá í orðum hv. þm. að ef Hitaveitan stæði ekki í umfangsmiklum framkvæmdum ofan á hitaveitugeymunum væri e.t.v. minni þörf á að sækja erlent fé í framkvæmdir á Nesjavöllum, en það er mál sem snertir stjórnendur Hitaveitunnar og borgaryfirvöld í Reykjavík. Það væri ekki í samræmi við þá almennu venju sem tíðkast hefur hér á landi ef ríkisstjórnin færi að beita sér gegn því að sveitarfélag fengi heimild til erlendrar lántöku vegna orkuframkvæmda.
    Hvað snertir athugasemd hv. þm. um Ríkisútvarpið, þá vil ég aðeins geta þess og rifja það upp að á síðasta ári voru gerðar umfangsmiklar aðgerðir til þess að bæta fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins, þannig að árið í ár er fyrsta árið í langan tíma þar sem Ríkisútvarpið

býr við viðunandi fjárhagsstöðu og eðlilegan rekstrargrundvöll og það hefur ekki gerst í langan tíma.
    Varðandi Ferðamálaráð, þá er það mikið vandamál. Mér skilst að þeir sem stýrðu Ferðamálaráði áður hafi farið út í margvíslegar aðgerðir og ákvarðanir umfram fjárveitingaramma Ferðamálaráðs. Það mál er nú til skoðunar og mér er ekki ljóst hvernig því verður ráðið til lykta.
    Hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm. að mjög skortir á það í okkar þjóðfélagi að sjónarmiða kvenna og þar með Kvennalistans gæti við ákvarðanir í peningamálum og lánamálum. Ég hef nú í rúmt ár lýst áhuga mínum á því að fá samvinnu við Kvennalistann á vettvangi ríkisstjórnar um það hvernig slíkar ákvarðanir séu teknar með þátttöku Kvennalistans í ríkisstjórn ásamt þeim flokkum sem þar sitja nú. Sá áhugi er enn sá sami og hann var áður og ég hef sannfærst um það að það væri áhrifaríkasta sporið sem Kvennalistinn gæti stigið til þess að tryggja að sjónarmiða kvenna mundi gæta með afgerandi hætti í ráðstöfun fjármagns í okkar þjóðfélagi. Ég fagna því svo að Kvennalistinn hefur ákveðið að taka þátt í kjöri til bankaráða, tel að þær stofnanir muni batna við þá ákvörðun, og það geti verið spor í átt að frekari samvinnu Kvennalistans við aðra flokka um víðtæka fjármálastjórn þessa lands.
    Hvað hv. þm. Halldór Blöndal snertir spurði hann nokkurra atriða. Hann vék m.a. að Slippstöðinni á Akureyri og málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Ég vil í því sambandi geta þess að við undirbúning lánsfjáráætlunar voru opinberar lánastofnanir beðnar um að leggja fram áform sín og það var athyglisvert að í svari Byggðastofnunar við þeirri beiðni var ekki farið fram á lántöku til endurbóta og viðgerða á skipum innan lands, þannig að það barst engin ósk frá Byggðastofnun um það atriði. Hins vegar urðu fjmrh. og iðnrh. sammála um það að bæta við óskir Byggðastofnunar lántökuheimild um 100 millj. kr. til endurlána til innlendra skipaviðgerða. Þannig að það er auðvitað athyglisverð staðreynd að Byggðastofnun óskaði ekki eftir því að fá slíka heimild en iðnrh. og fjmrh. ákváðu engu að síður að taka inn í þetta frv. slíka ákvörðun.
    Hv. þm. vék einnig að málefnum Slippstöðvarinnar á Akureyri. Ég ætla ekki að gera þau að ítarlegu umræðuefni hér en ég vek bara athygli á því að meginástæða þess að fyrirtækið á nú í erfiðleikum er að þeir sem réðu málum fyrir nokkrum árum tóku þá ákvörðun að setja í gang smíði á skipi sem ekki hafði tryggðar fiskveiðiheimildir og ekki voru tryggðir kaupendur að. Þannig að það er fyrst og fremst ákvörðun þessara aðila fyrir nokkrum árum síðan sem skapar það vandamál sem Slippstöðin á Akureyri á við að etja í dag.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði um ríkisábyrgðir, þá hélt ég satt að segja að það væri nokkuð almenn samstaða um það hér á Alþingi að það ætti að draga úr ríkisábyrgðum til atvinnufyrirtækja og það er það sem gert er í þessu frv. og það kemur mér satt að

segja á óvart að þingmaður Sjálfstfl. skuli gagnrýna þá ákvörðun. Ég hélt að þetta hefði verið ein af meginkröfum m.a. Sjálfstfl. um áraraðir. Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þm. að fjmrh. ætli sér síðan að blanda sér inn í það mat sem Seðlabankinn mun framkvæma í þessum efnum. Það mun Seðlabankinn gera einn og óstuddur. Ástæðan fyrir því að þessi ákvæði eru tekin inn, eins og ég gat um hér í upphafi, er að reynslan hefur sýnt að þegar hinir ýmsu sjóðir eru sjálfir að taka erlend lán skortir þá annaðhvort mannafla eða þekkingu á hinum erlendu lánamörkuðum til þess að ná fram jafnhagstæðum lánskjörum og hinir stóru aðilar geta gert á þessum markaði. Vegna þess að þeir ná fram lakari lánskjörum hefur það áhrif á lánskjör Íslands að öðru leyti og getur þess vegna orðið mjög dýrt fyrir þjóðfélagið. Það hlýtur þess vegna að vera hagsmunamál sjóðanna sjálfra að fá lánin á sem hagstæðustum kjörum vegna þess að þar með verður byrði þeirra af lánunum minni. Hér er þess vegna fyrst og fremst um það að ræða að framkvæma breytingu sem á að styrkja þessa sjóði.
    Varðandi spurningar um loðdýraræktina, þá veit ég að hv. þm. er kunnugt um það að núv. ríkisstjórn og fjmrh. hafa nú þegar greitt til loðdýraræktarinnar mun meiri upphæðir en eru í fjárlögum yfirstandandi árs og ég mun leggja fyrir Alþingi innan tíðar fjáraukalög þar sem leitað verður eftir staðfestingu Alþingis á því að greiða meira til loðdýraræktarinnar á þessu ári en ætlað var fyrir í fjárlögum. Ég vænti þess að hv. þm. gagnrýni mig ekki harðlega fyrir það vegna þess að hér á fyrstu dögum þingsins kaus aðalfulltrúi Sjálfstfl. í fjvn. að gera að utandagskrárumræðuefni nauðsyn þess að fjmrh. sækti sér heimildir til þingsins til þess að geta bætt við fjármunum.
    Hvað Atvinnutryggingarsjóð snertir þá heyrir það meira undir það frv. sem ég vona að ég geti mælt fyrir hér síðar í dag og ætla kannski að bíða með þá umræðu. Þessar heimildir, sem hér er um að ræða og sem eru fyrir næsta ár einnig, eru eingöngu liður í því að ljúka þeim umsvifum sem um var rætt í Atvinnutryggingarsjóði en fela ekki í sér neinar sérstakar viðbætur.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi svarað flestum þeim beinu fsp. sem til mín var beint. Það væri vissulega tilefni til þess að víkja mörgum orðum að ýmsu öðru sem hér hefur verið sagt, en ég ætla ekki að gera það nema ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar á því --- af því að hann sýndi nú mikið hugmyndaflug í þeim efnum að velta því fyrir sér hvers vegna ætlað væri að greiða 1 milljarð inn í Seðlabankann --- að þar er um að ræða afborganir af lánum sem ríkissjóður tók hjá Seðlabankanum áður en núgildandi lög um Seðlabanka voru sett og hefur verið vanrækt um áraraðir að standa við þær skuldbindingar. Hér er því eingöngu um að ræða eðlilega og sjálfstæða fjármagnsráðstöfun í samskiptum ríkissjóðs og Seðlabanka um áraraðir ef ríkissjóður hefur svigrúm til þess að uppfylla þær skyldur sínar að borga þessi lán til baka. Málið snertir

ekki á neinn hátt samskipti Seðlabankans við einstaka viðskiptabanka eða viðskiptabankana í heild, heldur tengist einungis því hlutverki Seðlabankans að vera viðskiptabanki ríkissjóðs og þeim skuldbindingum ríkissjóðs að standa við greiðslur á því sem hann hefur fengið frá sínum viðskiptabanka.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að þær athugasemdir sem ég hef hér sett fram hafi að nokkru varpað ljósi á ýmislegt sem hér hefur komið til umræðu. Hitt er svo samkvæmt venju að málið kemur hér til 2. umr. eftir að hv. fjh.- og viðskn. hefur fengið ítarlegar upplýsingar um það sem hún óskar og þá gefst vonandi tækifæri til þess að fjalla nánar um ýmsa þætti sem hér hafa borið á góma.