Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að endurflytja frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Þetta er 64. mál yfirstandandi Alþingis og frv. er að finna á þskj. 64.
    Þetta frv. er ekki flókið að gerð og reyndar þekkja hv. þm. frv. frá fyrri tíð. A.m.k. fjórum sinnum hafa verið flutt frv. þessa efnis á hinu háa Alþingi. Í eitt skipti var reynt á fylgi frv. í hv. Ed. Þar féll það frv. sem var lagt fram þá. Síðan hefur frv. verið breytt. Fyrst var því breytt í tíð síðustu ríkisstjórnar og lagt þá fyrir þáv. stjórnarflokka og einnig fjallað um frv. með nokkrum forráðamönnum Sementsverksmiðjunnar og bæjarstjórnarfulltrúum á Akranesi. Að því samráði loknu var frv. enn breytt fyrir u.þ.b. ári síðan og það lagað af þeim mönnum sem höfðu unnið að undirbúningi þess en það voru menn tilkvaddir af iðnrn.
    Þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. er að orðalag 2. gr. er víkkað. Þar segir nú að félaginu sé heimilt að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum eða sameignarfélögum. Þetta er ákvæði sem heimilar Sementsverksmiðjunni, ef af verður, að hefja rekstur um skylda starfsemi og taka þátt í ýmsum þróunarverkefnum. Þetta er samsvarandi ákvæði og hæstv. iðnrh. hefur beitt sér fyrir að tekið var upp í lögum um Járnblendiverksmiðjuna og er eðlilegt að fyrirtæki á borð við þetta geti á grundvelli reynslu sinnar og þekkingar tekið þátt í annarri starfsemi en beinlínis þeirri að framleiða sement.
    Þá er í öðru lagi 3. gr. frv. ný. Í henni er tekið fram að heimili og varnarþing félagsins skuli vera á Akranesi, en því sé hins vegar heimilt að starfrækja útibú á öðrum stöðum. Þetta er tekið fram í þessu frv. vegna þess að aðaleigur Sementsverksmiðjunnar eru á Akranesi og eðlilegt að heimili félagsins verði í þeim kaupstað.
    Þá vil ég vekja athygli á 6. gr. frv. en hún breytir frv. talsvert frá því sem það var fyrir tveimur árum. Þetta er reyndar eins og var í frv. í fyrra, en þar segir nú, með leyfi forseta:
    ,,Verði hlutabréf ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni boðin til sölu, öll eða að hluta, skal leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.``
    Þess skal getið að án samþykkis Alþingis er stjórnvöldum heimilt að selja hlutabréf þótt atbeini Alþingis þurfi að koma til ef um sölu á fasteignum er að ræða, enda eru hlutabréf skilgreind sem lausafé og margoft hafa stjórnvöld selt hluti ríkisins í einstökum hlutafélögum. Hér er þrátt fyrir þetta gert ráð fyrir að Alþingi hafi um þetta mál að segja, t.d. í formi þál.
    Í fskj. með stefnuræðu forsrh. sem þingmenn hafa fengið í sínar hendur er sagt að hæstv. iðnrh. muni á þessu þingi flytja frv. um að gera Sementsverksmiðjuna að hlutafélagi. Slík yfirlýsing lá enn fremur fyrir í upphafi síðasta þings en þá strandaði málið í samstarfsflokkum Alþfl. og í samráði við hann flutti ég þetta frv. í fyrravor, en frv. dagaði þá uppi vegna tímaskorts. Þess vegna hefur verið

brugðið á það ráð nú að bíða þess ekki hvort frv. sem er eins fái náð fyrir augum allra stjórnarflokkanna. Í stað þess var hugmyndin að reyna að ná fram breiðri samstöðu um þetta mál, annars vegar af hálfu flokka utan stjórnar og hins vegar stjórnarflokka sem nú þegar hafa tekið afstöðu til frv. með jákvæðum hætti og þar á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við Alþfl.
    Í umræðum sem urðu um sams konar frv., sem afgreitt var á þinginu í fyrra, þ.e. um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, lagði ég ákveðnar spurningar fyrir iðnrh. af þessu tilefni fyrir hönd Alþfl. og spurðist fyrir um það hvort hugsanlegt væri að Alþfl. gæti stutt frv. þrátt fyrir stjórnaraðild flokksins. Hæstv. ráðherra svaraði því til þá að hann treysti sér ekki til þess á svo stuttum tíma sem þá lifði eftir af þinginu að svara þeirri spurningu, en hún á auðvitað fullan rétt á sér í dag og þess vegna hef ég óskað eftir því við hæstv. forseta að hann afgreiði ekki endanlega þetta mál fyrr en hæstv. ráðherra hefur haft tækifæri til að gera grein fyrir sínum skoðunum þegar hann kemur aftur úr för sinni til útlanda í opinberum erindum.
    Í raun er enginn efnislegur munur á þessu frv. og lögunum um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg. Þetta frv. er unnið að tilhlutan iðnrn. á sínum tíma af sömu mönnum og þeim sem gerðu drög að frv. um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, en það voru þeir Jafet Ólafsson, fyrrv. starfsmaður iðnrn., nú útibússtjóri Iðnaðarbankans í Reykjavík, og Sigurður B. Stefánsson, hagfræðingur og forstöðumaður Verðbréfamarkaðs Iðnaðarbankans.
    Í grg. með þessu frv. er sagt hvað í raun breytist í frv. frá þeim frv. sem reynt hefur verið að ná fram í gegnum þingið á undanförnum árum að því síðasta undanskildu. Það er tekið fram á bls. 3 og 4 í grg. með frv. og óþarfi að endurflytja það hér.
    Það er ljóst að það eru ýmsir kostir þess að reka fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjuna sem hlutafélag, og þeim kostum er jafnframt lýst í grg., en það hefur einkum verið rökstutt með tilvísan til þess sem gerst hefur í öðrum löndum. Þetta er stundum kallað einkavæðing og er þá verið að vísa til
þess sem hefur gerst í okkar helstu viðskipta- og nágrannalöndum, kannski mest áberandi í Bretlandi en einnig að sjálfsögðu í öðrum löndum, einkum í Vestur-Evrópu þar sem markvisst hefur verið unnið að því að koma fyrirtækjum í ríkiseign yfir til einkaaðila, ekki síst fyrirtækjum sem eiga í samkeppni við önnur fyrirtæki. En þess ber að geta að Sementsverksmiðja ríkisins á í samkeppni við innflutt sement þótt verðyfirburðir Sementsverksmiðjunnar séu þeir að ekki hefur komið til meiri háttar innflutnings og reyndar er um mjög lítinn innflutning að ræða nema þegar beðið er um sérstakt sement, en það gerist í örfáum undantekningartilvikum.
    Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að benda á 4. gr. frv. Það kann að vera að það sé óþarfi að taka síðari málsliðinn upp í lagatexta en þessi málsliður orðast svo í frv., með leyfi forseta: ,,Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur

starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Hér er verið að vísa til þess að fastráðnir starfsmenn Sementsverksmiðjunnar munu samkvæmt fyrri málslið þessarar greinar halda sínu starfi hjá hinu nýja fyrirtæki og þess vegna gildi ekki 14. gr. laga nr. 38/1954 um þessa starfsmenn eins og gerast mundi ef þeim yrði sagt upp, en þá er það skylda ríkisvaldsins að leita að sams konar störfum annars staðar í ríkisrekstrinum en greiða biðlaun ella.
    Frv. þetta er sams konar frv. og það frv. sem flutt var á sínum tíma um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg. Í raun er enginn eðlismunur á þessum tveimur fyrirtækjum og þess vegna óeðlilegt að annað frv. hafi verið samþykkt á síðasta þingi en þetta hins vegar skilið eftir. Ég bendi á að það atriði sem mestum ágreiningi hefur valdið, þ.e. sala hlutabréfanna, er nú í höndum Alþingis. Mér þykir þetta eðlileg ráðstöfun og vísa til þess að nauðsynlegt er að mínu áliti að bjóða út hlutabréf í fyrirtæki á borð við þetta á almennum hlutabréfamarkaði. En því miður vantar nokkuð á að um virkan hlutabréfamarkað sé að ræða hér á þessu landi. Það gerist venjulega þannig þegar stjórnvöld selja fyrirtæki að þau eru seld annaðhvort einstökum einkaaðilum sem stunda svipaðan rekstur, oftast starfandi fyrirtækjum eða mönnum sem hafa starfað við svipaðan rekstur, eða þá starfsmönnum viðkomandi fyrirtækja. Ég tel að varðandi Sementsverksmiðju ríkisins sé heppilegra að selja hlutabréf á almennum markaði og þá gerist það eftir að Alþingi hefur samþykkt t.d. með þál. að slíkt eigi að eiga sér stað. Það er engin ástæða til þess að fyrirtækið verði selt í einu lagi, heldur má gera það smám saman eftir því sem ástand er á slíkum hlutabréfamarkaði.
    Það þarf í raun og veru ekki að fara mörgum orðum til viðbótar um þetta mál. Ég vil þó, fyrst minnst er á hlutabréfamarkað, geta þess að á sínum tíma var gefin út á vegum Iðnþróunarsjóðs og Seðlabanka Íslands skýrsla um hlutabréfamarkað. Þessi skýrsla var unnin af fyrirtæki sem heitir Enskilda Securities og það er mál manna að efnisatriði þeirrar skýrslu séu með þeim hætti að full ástæða sé til þess fyrir stjórnvöld að fara að þeim tillögum sem þar er að finna. Því miður hafa íslensk stjórnvöld, einkum og sér í lagi núv. ríkisstjórn, ekki séð ástæðu til þess arna.
    Ég vil hins vegar geta þess að á síðasta þingi fluttu nokkrir sjálfstæðismenn í Nd. frv. um þessi atriði þar sem bent var á leiðir til að freista þess að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði og slík frv. verða flutt aftur innan tíðar.
    Í umræðum sem urðu um þetta mál á síðasta þingi kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann teldi ekki vera hægt að bera saman annars vegar Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg og hins vegar Sementsverksmiðju ríkisins vegna þess að Sementsverksmiðjan hefði í raun og veru einokun á sínu sviði. Á það get ég engan veginn fallist að sú sérstaða Sementsverksmiðjunnar sem felst í fjarlægðarvernd sé svo mikil að hún réttlæti að menn

geri mun á henni annars vegar og Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg, sem svo hét á sínum tíma, hins vegar. Staðreyndin er sú að innflutningur á sementi er frjáls. Það eru til íslenskir umboðsmenn sem hafa umboð fyrir sement sem framleitt er í nágrannaríkjunum og þeir sem byggja hús og önnur mannvirki hér á landi geta flutt inn sement ef þeim sýnist. Því til viðbótar ber að geta þess að jöfnun flutningskostnaðar gildir um sement almennt hér á landi.
    Þegar þetta mál fór til nefndar á síðasta þingi var það sent nokkrum aðilum til umsagnar. Ég vil, virðulegur forseti, geta fjögurra þeirra, en þau svör komu til nefndarinnar mjög seint á síðasta þingi. Í fyrsta lagi var frv. sent til stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins. Stjórnin svaraði bréfi iðnn. Nd. 8. maí og sagði orðrétt:
    ,,Þar sem ekki hefur tekist að ná saman fullskipuðum stjórnarfundi óskar stjórnin eftir að gefinn verði nokkru rýmri umsagnarfrestur þannig að öllum stjórnarmönnum gefist kostur á að fjalla um málið.``
    Undir þetta skrifar formaður stjórnarinnar, Eiður Guðnason alþingismaður.
    Í umsögn bæjarstjórans á Akranesi kemur í ljós að málið hefur verið lagt fyrir bæjarráðið en ekki fyrir bæjarstjórnina. Bæjarráðið klofnaði í afstöðu
sinni til málsins. Meiri hlutinn ályktaði að hann væri andvígur frv. en taldi að samt sem áður þyrfti að gera og mætti gera breytingar á lögunum um Sementsverksmiðjuna og tiltók þá atriði eins og þátttöku í öðrum fyrirtækjum, breytingar á greiðslu skatta, og þá einkum að breyta landsútsvari í aðstöðugjald, en minni hlutinn lýsti yfir stuðningi við frv. Hins vegar
fjallaði bæjarstjórnin sjálf aldrei um frv. sem slíkt.
    Verktakasamband Íslands skilaði svohljóðandi áliti, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Verktakasambands Íslands fagnar fram komnu frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Stjórnin telur að með breyttu eignarformi fyrirtækisins skapist traustari grundvöllur fyrir auknum framförum í byggingariðnaði og fyrir lækkun byggingarkostnaðar en nú er. Það er því álit stjórnarinnar að frv. muni hafa jákvæð áhrif á þróun byggingariðnaðar hér á landi verði það að lögum og því mælir stjórnin eindregið með samþykkt þess.``
    Undir þetta ritar Pálmi Kristinsson framkvæmdastjóri.
    Fjórða álitið sem barst nefndinni kom frá Félagi íslenskra iðnrekenda svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er stefna Félags íslenskra iðnrekenda að allur atvinnurekstur greiði sömu skatta án tillits til rekstrarforms, þar með talin opinber fyrirtæki. Að því er varðar ríkisfyrirtæki er einfaldasta leiðin sú að þau séu rekin sem hlutafélög og lúti þar með ákvæðum laga um skattlagningu hlutafélaga. Það er einnig skoðun félagsins að ríkisumsvif, þar með talin ríkisfyrirtæki, skuli lúta viðurkenndum

arðsemissjónarmiðum. Slíkt verður betur tryggt í formi hlutafélags en með núverandi rekstrarformi Sementsverksmiðju ríkisins. Félag íslenskra iðnrekenda leggur til að umrætt frv. verði samþykkt og hlutabréf í fyrirtækinu verði síðan seld á almennum hlutabréfamarkaði.``
    Undir þetta ritar Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú rakið meginefni frv. og fært rök fyrir því að full ástæða sé til þess að frv. fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Ég bendi á að hæstv. ríkisstjórn, þ.e. hæstv. iðnrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hefur lýst yfir vilja sínum til þess að flytja sams konar frv. þótt ég nú hafi tekið af honum ómakið. Þess vegna má ætla að verulegur meiri hluti sé fyrir því að þetta frv. fái samþykkt á þessu þingi enda hefur hv. Alþingi sýnt það með samþykkt á frv. um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg á sínum tíma að á Alþingi er verulega breið samstaða um það að breyta framleiðslufyrirtækjum sem eiga í samkeppni úr ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, jafnvel þótt allir hlutirnir séu til að byrja með í eigu ríkisins.
    Það kemur enn fremur fram að langflestir þeir sem hafa um þetta mál fjallað, þar á meðal forstjórar fyrirtækisins, eru mjög áfram um það að þessi breyting geti átt sér stað. Þess vegna vil ég, virðulegur forseti, mælast til þess að þetta frv. verði þegar það er fullrætt við 1. umr. sent til hv. iðnn. og fái síðan fullnaðarafgreiðslu síðar á þessu yfirstandandi þingi.