Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að halda mig við það mál sem hér er á dagskrá þó að vissulega sé tilefni til að fara um víðan völl eins og ræðumenn hafa verið að gera. Vissulega er tilefni til að spyrja hv. varaþingmann, hæstv. fjmrh., prófessor og kennara við Háskóla Íslands, hvort hann ætli virkilega að standa á því að taka tekjur happdrættis Háskólans til þess að byggja upp Þjóðarbókhlöðu þegar til er markaður tekjustofn fyrir það ákveðna verkefni. Vissulega er ástæða til að fara út í virðisaukaskattinn og spyrja þar fjölmargra spurninga eins og t.d. varðandi húshitunarkostnað, varðandi byggingariðnaðinn, varðandi innflutninginn. Verður heimiluð tollkrít eður ei? Það eru fjölmargar spurningar sem hægt er að spyrja í þessa veru.
    Ég ætla hins vegar að segja örfá orð um það frv. sem hér er lagt fram og er árlegt frv. Eins og sl. tvö ár andmæli ég því kröftuglega og fæ reyndar ekki séð hvernig ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti getur leyft sér að leggja fram slíkt frv. sem þetta. Og ég óska jafnframt eftir skýringum á því hvaða jafnrétti felist í því að taka eina atvinnugrein út úr og skattleggja hana með þeim hætti sem hér er gert.
    Forsrh. lýsti því hér yfir áðan undir dagskrárliðnum skattlagning á verslunar- og skrifstofuhúsnæði að helstu erfiðleikarnir yrðu í verslun og þjónustu. Verslun og atvinnulíf hér er nú í molum eins og menn vita og ekki hvað síst einmitt í þessum geira. Uppsagnir í stórum stíl og lokanir á verslunum og fyrirtækjum. Þessi skattur hefur þá afleiðingu að hann hækkar vöruverð og hann veldur því að það verða fleiri og fleiri uppsagnir og fleiri og fleiri lokanir. Það er því furðulegt að hlusta á fulltrúa Kvennalistans lýsa yfir stuðningi við frv. sem slíkt. Ég hefði haldið að Kvennalistinn vildi berjast fyrir stöðu kvenna í verslun sem annars staðar, fyrir lækkandi vöruverði eins og fyrri daginn.
    Hæstv. forseti. Það er sjaldgæft að sjá stjórnarliða í salnum. Nú höfum við einn fulltrúa sennilega frá hverjum flokki. Mig langar að spyrja þann fulltrúa Borgaraflokks sem hér er, hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson, hvort hann hyggist styðja þetta frv. Borgaraflokkurinn greiddi atkvæði gegn þessu frv. á síðasta þingi að undanteknum einum þm., hv. þm. Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur. Nú vildi ég gjarnan heyra álit Borgaraflokks á því hvort þeir hafa kyngt þessari stefnu sinni eins og svo fjölmörgum öðrum.
    Frjálslyndi hægriflokkurinn mun leggja fram brtt. við þetta frv. Hann mun leggja það til að þessi skattur verði lagður niður og ég vænti þess að sjálfsögðu að sjálfstæðismenn taki undir þá tillögu. Það er ekki nóg að taka lítið skref og lækka þetta örlítið. Þessi skattur á að fara út alfarið.
    Ég vil taka undir orð hv. þm. Karvels Pálmasonar að auðvitað á ríkisstjórnin að þekkja sinn vitjunartíma. Hann er löngu kominn. Að vísu stendur sá ákveðni þm. fyrir svona uppákomum á hverju einasta hausti og hefur sjálfsagt sitt út úr því. En hann mælti þó orð að

sönnu hér í gær.
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég hef hins vegar áhyggjur af því skilningsleysi stjórnvalda fyrir vanda verslunarinnar, skilningsleysi fyrir vanda þess fólks sem verið er að segja upp í stórum stíl, skilningsleysi á öllum þeim gjaldþrotum sem núna blasa við í þessum atvinnurekstri og skilningsleysi á þeim fjármunum og eignum sem eru að fara í vaskinn af völdum ríkisstjórnarinnar.