Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að láta það koma fram að ég er ekkert undrandi á því þó að menn vilji ræða þetta hér en bendi á að þetta er flókið verk satt best að segja. Þetta eru um 350 framkvæmdir sem þarf að gera upp og starfsmenn byggingardeildar menntmrn. eru samtals tveir sem sinna þessu verki ásamt ýmsu öðru. Ég vil að embættismenn mínir vandi sig við verk af þessu tagi og ljúki þeim ekki nema menn viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera vegna þess að eftirkaupin geta orðið þjóðinni svo dýr. Þess vegna segi ég það af fullri hreinskilni, ég mun reyna að vanda þessi verk tæknilega eins og kostur er og leggja auðvitað á það áherslu að staðið verði við samninga sem gerðir höfðu verið. En ég spyr líka: Hvernig stendur á því að sveitarstjórnarmenn virðast margir hverjir ekki hafa gert sér nákvæma grein fyrir því að þau verk sem þeir voru að þrýsta á þingið að yrðu framkvæmd hér og ákveðin virðast svo koma þeim sjálfum eins og í opna skjöldu? Ég satt að segja undrast stundum það lýðræði sem tíðkað er í því félagslega fyrirbæri sem heitir Samband ísl. sveitarfélaga. Ég get ekki neitað mér um að láta það koma hér fram, virðulegi forseti.