Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum til viðbótar um það frv. sem hér er til umræðu. Það hefur þegar verið gert í langri umræðu sem fór fram í síðustu viku þar sem fjallað var um þetta mál ásamt öðrum skattamálum og skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Það kemur í ljós að þrátt fyrir miklar skattaálögur sem lagðar hafa verið á þjóðina, fyrirtæki, heimili og einstaklinga á undanförnum árum stefnir enn í mikinn halla á þessu ári og hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp við að skorða ríkisútgjöldin innan þeirra marka sem tekjur ríkisins bjóða. Þetta er auðvitað uppgjöf og sýnir að hæstv. ríkisstjórn ræður ekki við það verkefni sem er kannski eitt helsta verkefni og frumskylda hverrar ríkisstjórnar.
    Það er þó ástæða til þess við þessa umræðu að beina fyrirspurn til nýs stjórnarflokks og í framhaldi af ummælum og fsp. sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. finnst mér óviðeigandi annað en fulltrúi Borgfl., einhver þeirra hv. þm. sem hér eru staddir í dag, geri grein fyrir afstöðu flokksins til þessa máls nú þegar Borgfl. er farinn að taka þátt í ríkisstjórninni og styður hana. Ég man ekki nákvæmlega hvernig atkvæði féllu um brtt. og málið sjálft á síðasta þingi. Ég hygg þó að Borgfl. hafi verið klofinn í afstöðu til málsins. Einn þm. hafi ekki greitt atkvæði heldur setið hjá við afgreiðslu málsins, en aðrir hv. þm. greitt atkvæði gegn frv. ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Má vera
að þetta sé rangminni og þá leiðréttist það að sjálfsögðu hér á eftir þegar einhver hv. þm. Borgfl. tekur hér til máls.
    Það er ljóst að Borgfl. kom til samstarfs við þá ríkisstjórn sem nú situr fyrst og fremst til þess að lækka vöruverð með því að draga úr svokölluðum matarskatti. Í yfirlýsingu flokksins frá því snemma í sumar, að mig minnir í lok júnímánaðar, eru þessi sjónarmið áréttuð og þar sagt að ekki komi til greina að Borgfl. eigi aðild að ríkisstjórninni nema virðisaukaskattur verði í tveimur þrepum og skattur á matvæli verði mun lægri, helst enginn eða a.m.k. mun lægri.
    Því miður liggur ekki enn fyrir þinginu frv. til l. til breytinga á lögum um virðisaukaskatt, en ljóst er af ummælum forráðamanna hæstv. ríkisstjórnar að nokkrar útgáfur eru í gangi um þann skatt. Sú fyrsta er að endurgreiða eigi því sem nemur helmingi af skatti á fisk, dilkakjöt, mjólk og innlent grænmeti. Í öðru lagi, það er önnur útgáfan sem kom fram frá hæstv. forsrh. í stefnuræðu hans, var þessi sama upptalning og til viðbótar var svo minnst á að til greina kæmi að endurgreiða því sem nemur helmingi skattsins á gróft brauð. Þriðju útgáfuna má finna í plöggum hæstv. fjmrh. til hæstv. ríkisstjórnar um að endurgreiðslan eigi einungis að taka til dilkakjöts og mjólkur. Það er ljóst að enn virðist hæstv. ríkisstjórn ekki hafa komið sér saman um það hvernig sinna eigi þessu máli sem þó var það grundvallaratriði sem Borgfl. setti þegar rætt var um hugsanlega þátttöku

hans í ríkisstjórninni og kemur mjög skýrt fram í fréttatilkynningu frá Borgfl. frá því í sumar. Ég hef því miður þessa tilkynningu ekki hér í ræðustólnum hjá mér, en hún er í tösku minni við borðið og ég get náð í hana hvenær sem er. Það mál er auðvitað ekki á dagskrá hér, en það hlýtur að hafa þýðingu að vita nú hver er afstaða Borgfl. til þessa máls vegna þess að það kemur í ljós að ýmislegt það sem ræðir um í fjárlagafrv., bæði teknamegin og gjaldamegin eru atriði sem ekki hafa fengist rædd í einstökum atriðum í stjórnarflokkunum. Þess vegna er það eðlileg krafa almennings að fá að vita hver sé afstaða Borgfl. til þessa máls sem hér er til umræðu, ekki síst í ljósi þess að fjölmörg atriði í fjárlagagerðinni hafa ekki verið borin undir stjórnarflokkana í einstökum atriðum heldur fyrst og fremst niðurstöðutölur.
    Þetta var ástæðan fyrir því, virðulegur forseti, að ég óskaði að fá að taka til máls aftur. Mér þótti eðlilegt að ljúka ekki þessari umræðu án þess að fulltrúar Borgfl. í hv. deild fengju tækifæri til þess að lýsa sínum skoðunum því að vissulega eru það söguleg tíðindi þegar hæstv. ríkisstjórn, sem ekki var meirihlutastjórn í þinglegum skilningi, hefur nú orðið meirihlutastjórn með því að Borgfl. hefur ákveðið að eiga samstarf við stjórnarflokkana. Óska ég eindregið eftir því að einhver hv. þm. Borgfl. komi hér og geri þingheimi og þá um leið þjóðinni grein fyrir því hver sé afstaða flokksins til þess frv. sem hér liggur fyrir í 1. umr.