Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Frv. það sem hér liggur frammi um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, er samið í samráði við stjórn Hollustuverndar ríkisins og er tilgangur frv. sá að Hollustuvernd ríkisins búi yfir sömu ráðum til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar og heilbrigðisnefndir búa yfir í þeim tilvikum þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með það sem kallað hefur verið beint eftirlit.
    Samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem að grunni til eru frá 1981, er heilbrigðiseftirlit hér á landi í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og starfa heilbrigðisfulltrúar sem framkvæmdaaðilar heilbrigðisnefndanna og eru starfsmenn sveitarfélaganna. Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna er ætlað að hafa með að gera það sem kallað hefur verið frumheilbrigðiseftirlit eða beint eftirlit. Þetta eftirlit er því rekið á kostnað og ábyrgð sveitarfélaganna með nokkrum undantekningartilvikum.
    Skv. 2. tölul. 17. gr. laganna er Hollustuvernd ríkisins ætlað beint eftirlit með innflutningi á matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og enn fremur er gert ráð fyrir því í 4. tölul. 13. gr. laganna að Hollustuvernd ríkisins geti samkvæmt ákvörðun ráðherra, náist samkomulag þar um, tekið að sér beint eftirlit. Hefur þessu verið þannig háttað í reynd að Hollustuvernd ríkisins fer með beint eftirlit með ýmiss konar mengandi starfsemi í samræmi við reglugerð nr. 390/1985, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
    Þar sem heilbrigðisnefndir fara með eftirlit geta þær samkvæmt lögunum beitt ýmsum ráðstöfunum til þess að knýja á um framkvæmdir eða til þess að viðkomandi starfsemi verði stöðvuð ef ekki er orðið við fyrirmælum, sbr. nánar í 27. gr. laganna. Í þeim tilvikum þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlitið, eins og gildir um innflutningseftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum eða eftirlit með mengandi starfsemi, er engum slíkum lagafyrirmælum til að dreifa þannig að heilbrigðisnefndir hafa þurft að grípa til ráðstafana vegna eftirlits sem Hollustuvernd ríkisins er falið. Þetta er að mati ráðuneytisins ekki eðlileg ráðstöfun þar sem hafa verður í huga að hlutaðeigandi sveitarfélög hljóta að bera ábyrgð á aðgerðum sem þau grípa til í þessu skyni án þess þó að starfsmenn þeirra, þ.e. heilbrigðisnefndir eða heilbrigðisfulltrúar, hafi með málið að gera að öðru leyti. Þannig fer ekki saman raunveruleg ákvarðanataka og framkvæmd ráðstöfunarinnar.
    Hefur þetta m.a. leitt til þess að erfiðlega hefur gengið að fá heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna til þess að grípa til ráðstafana sem hugsanlega kynnu að baka þeim fjárhagsábyrgð án þess að geta dæmt um málið á fyrri stigum. Þannig hefur ekki farið saman raunveruleg ákvarðanataka og framkvæmd.

    Það er því álit ráðuneytisins og stjórnar Hollustuverndar ríkisins að eðlilegt sé að sú stofnun búi yfir sömu ráðum til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar og heilbrigðisnefndirnar búa yfir í dag fari stofnunin með beint eftirlit. Slíkt eftirlit heyrir til undantekninga eins og fram hefur komið en getur hins vegar varðað mjög mikilvæg atriði, atriði sem að öðru jöfnu gætu haft alvarlegri afleiðingar, sé ekki við brugðist, en margt af því sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hefur með að gera. Í þessu tilviki má benda á eftirlit Hollustuverndar ríkisins með mengandi starfsemi eins og t.d. stóriðju.
    Þeir þættir, sem Hollustuvernd ríkisins hefur með að gera í formi frumeftirlits, eru þekktir og sé ætlunin að beita þeim eða auka við þarf til sérstakt samkomulag við heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna, sbr. nánar 4. tölul. 13. gr. laganna, og ætti því ekki að verða hætta á árekstrum við eftirlit sveitarfélaganna um framkvæmdina.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um frv. þetta því að það er í eðli sínu skýrt og kveður á um hluti sem hljóta að teljast eðlilegir með hliðsjón af því að haldið skuli úti heildstæðu heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirliti. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. með ósk um að nefndin hraði störfum sínum svo að möguleiki gefist til að afgreiða frv. fyrir áramót. En það er æskilegt að þessar breytingar nái fram að ganga með gildistöku 1. jan. nk. þegar ný mengunarvarnareglugerð öðlast gildi.