Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er nú svo að þegar kemur að eigin hagsmunum, þá hrökkva menn við og ég hrökk óneitanlega við áðan þegar hv. 1. þm. Norðurl. v. ætlaði að fara að láta lækka fjöll við aðflug að Akureyrarflugvöll því að það vill nú svo til að ég bý undir einu af þessum fjöllum sem yrði væntanlega að ryðja niður og hef af þessu vissar áhyggjur. En það var nú ekki þetta sem ég ætlaði að koma að.
    Ég ítreka þá skoðun sem hér hefur komið fram hjá nokkrum ræðumönnum að auðvitað er þetta ekkert annað en hervöllur sem verið er að tala um og ég skil ekki þá sjálfsblekkingu þegar menn halda öðru fram. Síðan geta menn rökrætt það opnum augum, hvort sem þau eru blá eða einhvern veginn öðruvísi á litinn, hvort menn vilja annan herflugvöll og hvaða tilgangi hann þjónar fyrir okkur.
    Mín skoðun er nú reyndar sú og hefur verið lengi að við eigum að standa á móti hernaðaruppbyggingu hér á landi eins og við mögulega getum. Og ég held að það hljóti að samrýmast þeirri skoðun, sem ég vil meina að sé skoðun meiri hluta þingheims, að við viljum vinna að afvopnun og friði í norðurhöfum. Kannski er ég afskaplega bláeygur í þessari skoðun minni, í svolítið annarri merkingu en menn hafa notað hér áður, en þetta er engu að síður mín skoðun.