Samningaviðræður við EB
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég tel, fyrst minnst er á samningamál við Evrópubandalagið, að það sé nauðsynlegt að hér komi fram ýmis sjónarmið sem allir hljóta auðvitað að hafa áhyggjur af. Það hefur sýnt sig að það er mikið talað um frelsi í sambandi við þessar viðræður og þar er frelsi fjármagnsflutninganna oft nefnt.
    Það sem ég óttast og vona að íslenskir ráðamenn gæti vel að í þeim viðræðum sem fram undan eru er að þeir hugleiði þá staðreynd sem þegar hefur komið í ljós í tengslum við frelsi fjármagnsins í öðrum Evrópubandalagslöndum, þ.e. Írlandi og Danmörku sem teljast jaðarsvæði. En þar hefur sannast, eins og við reyndar þekkjum vel hér á Íslandi, að fjármagnið streymir frá jaðarsvæðum til miðjunnar á nákvæmlega sama hátt og fjármagn streymir hér frá landsbyggðinni og til suðvesturhornsins. Það er vart ástæða til að ætla að farvegur fjármagnsins breytist ef flóðgáttir verða allar opnaðar hér. Ég tel nauðsynlegt að koma þessu að því að það er mjög mikil þörf á að við förum að gera okkur grein fyrir hvaða skref er verið að stíga og ég sé ekki ástæðu til þess að ætla að Evrópubúar hafi ómældan áhuga fyrir að ávaxta sitt pund hér á þessu eylandi.
    Ég vil að lokum aðeins ræða um þetta frelsi sem svo fjálglega er talað um. Það er dálítið ankannalegt að hér höfum við ríkisstjórn sem telur sig vera andsvar við frjálshyggjuna en talar orðið mjög fagurlega um frelsið. Svo hátt er þessu hugtaki gert undir höfði að það er talað um það í fleirtölu. Frelsin fjögur eru oftlega nefnd, bæði af ráðherrum og öðrum sem um þessi mál fjalla og það er jafnvel talað um að nú þurfi fimmta frelsið. Þetta finnst mér dálítið merkilegt á þeim tímum sem við lifum núna, ekki síst með tilliti til árs málræktarátaks.