Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns minna á það að við umræður um fjárlagafrv. fyrir ári síðan benti ég ítrekað á að forsendur um verðlag ársins í ár væru síður en svo trúverðugar sem nú er komið á daginn. Verðbólgan mun vera allt að helmingi hærri en áætlað var. Ég benti einnig á að ekki væru líkur til að launafólk sætti sig við þau kjör sem gengið var út frá, enda hefur það gengið eftir. Þrátt fyrir yfirlýsingar frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun um að forsendur frv. væru hinar trúverðugustu og þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. að afstöðnum kjarasamningum um að launahækkanir rúmuðust innan fjárlaga er raunin sú að verðlags- og launabreytingar einar saman hafa hækkað gjaldahlið A-hliðar ríkissjóðs um 3,1 milljarð eins og segir á bls. 13 í frv.
    Ég benti einnig á að ekki væri séð fyrir niðurgreiðslum nema að litlu leyti og spurði hvað væri þá fyrirhugað. Því var ekki svarað, en nú liggur fyrir að niðurgreiðslur verða rúmar 800 millj. fram yfir. Framlag skorti einnig til landbúnaðarmála til að staðið yrði við lög og vaxtagreiðslur væru vanáætlaðar. Fjárlagaáætlun fyrir þetta ár einkenndist af óskhyggju og vísvitandi vantalningu og vanáætlunum. Því var ekki liðið nema skammt á ár þegar farið var að veita úr ríkissjóði umfram fjárlög til hinna margvíslegustu mála eins og kemur fram í frv. sem hér er til umfjöllunar. Ég er ekki að halda því fram að þessar greiðslur séu óþarfar, en þær voru í flestum tilvikum fyrirsjáanlegar fyrir afgreiðslu fjárlaga og það hefði verið heiðarlegra af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. að leggja fram raunhæft fjárlagafrv. á síðasta ári en að vera svo mikið í mun að það skilaði tekjuafgangi á pappírnum að útkoman yrði síðan markleysa. Það sjáum við nú að er þegar við stöndum frammi fyrir því að hallinn á ríkissjóði er á níunda milljarð, þrátt fyrir sparnað upp á 700 millj. kr. og auknar tekjur um a.m.k. 800 millj. kr.
    Svona fjárlagagerð er ekki til þess fallin að glæða traust manna á þeim sem stjórna ríkisbúskapnum og fara með þá fjármuni sem eru sameign okkar allra.
    Hæstv. fjmrh. hefur nú lagt fram frv. til fjáraukalaga og hefur talað um að með því sé brotið blað í fjárlagagerðinni og virðist telja að slíkur atburður verði lengi í minnum hafður. Í raun og veru er ekki verið að gera annað en að fylgja ákvæðum stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að ekkert gjald megi greiða af hendi nema til þess sé heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Og mér finnst rétt að hugleiða hvort frv. markar breytta stefnu. Ég fæ ekki séð að svo sé í neinum meginatriðum. Er ekki í rauninni verið með þessu að krefja þingmenn um að samþykkja heimild til greiðslna sem ríkið hefur þegar innt af hendi? Og það er um enga kosti að velja. Stjórnarandstaðan greiðir atkvæði á móti eða situr hjá eftir atvikum. Stjórnarliðar, sem eru í meiri hluta,
samþykkja. Þannig er nú sem áður verið að samþykkja það sem er búið og gert og það er öllum ljóst. Eina raunverulega breytingin, það eina sem með

góðum vilja er hægt að segja að marki einhver tímamót er það að frv. er lagt fram á því ári sem þessar greiðslur fara fram, og það hefur ekki gerst áður.
    Með frv. er hæstv. fjmrh. að leita eftir ábyrgð þingsins á ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur þegar tekið og framkvæmt. Það má þó segja að það sé til bóta að sjá þegar á sama ári yfirlit yfir ákvarðanir ríkisstjórnar meðan mönnum eru þær enn í fersku minni. Vissulega er það betra en að þær birtist í ríkisreikningi eftir allt að því áratug, eins og hingað til hefur gerst, en á síðasta þingi var þingmönnum gert að samþykkja ríkisreikninga margra síðustu ára. Slíkar aðferðir skapa ekki mikla virðingu fyrir fjárveitingavaldinu og ákvörðunum þess.
    Við þá breytingu að Ríkisendurskoðun vinnur nú í beinum tengslum við Alþingi hefur skapast stórum betri aðstaða til yfirsýnar um framkvæmd fjárlaga og einnig til þess að beita aðhaldi í ríkisrekstrinum og taka fjárlagadæmið fastari tökum. Hæstv. fjmrh. hefur einnig haft á orði vilja sinn til að beita aðhaldi í ríkisbúskapnum og vissulega hafa landsmenn fundið fyrir því á ýmsum sviðum þó að tölur varðandi hans eigið ráðuneyti beri þess ekki vott. Hitt er þó gagnrýnisvert að við þennan sparnað, t.d. á ríkisstofnunum, er eiginlega ekki tekið tillit til þess í hverju er verið að spara. Það er litið á vinnustundafjöldann og skorið af honum án tillits til þess hvað eftir er. Þar er talað um magn en ekki um gæðin. Það er skorið af sem best liggur við að ná tökum á án tillits til þjónustunnar og fyrirheiti ráðherra um að rannsaka og endurmeta tilgang og umfang ríkisstofnana er enn ófullnægt, og væri þarft að hann upplýsti nú hvar á vegi slíkar fyrirætlanir eru staddar.
    Það er ekki hægt annað en að gagnrýna uppsetningu þessa frv. Hún er bæði ruglingsleg og ónákvæm. Ég vil nefna sem dæmi ýmsa safnliði einstakra ráðuneyta. Í skýringum við frv. er að vísu drepið á ýmis verkefni sem veitt er til, en það koma ekki öll kurl til grafar.
    Minni hluti fjvn. hefur farið fram á að fá nákvæma sundurliðun á greiðslum undir þessum liðum. Sú greinargerð hefur enn ekki borist. Ég vil vekja athygli
þingmanna á því að á meðan slíkt liggur ekki fyrir vita þeir nákvæmlega ekkert um hvað þeir eru að samþykkja með því að fallast á þetta að óskoðuðu máli. Öll ráðuneyti hafa árlega til ráðstöfunar óskipt fé, og ég vil benda á að hvergi í frv. er gerð grein fyrir ráðstöfun þessa fjár. Um það gildir hið sama og með safnliðina. Það er sjálfsögð og réttmæt krafa þingmanna að fyrir liggi greinargerðir um ráðstöfun fjár af safnliðum og eins um ráðstöfun þess óskipta fjár sem ráðuneytin hafa. Fyrr er ekki nokkur leið að átta sig á hvað verið er að samþykkja í þessum efnum því ekki getur verið neitt leyndarmál til hvaða manna og málefna þetta fé fer.
    Frv. boðar engin tímamót og síður en svo er það nein skrautfjöður í hatt hæstv. fjmrh. Það er aðeins

staðfesting þess sem við kvennalistakonur og aðrir í stjórnarandstöðu héldum fram við afgreiðslu fjárlaga í janúar sl., að þau væru vísvitandi vanáætluð og engan veginn marktæk. Hvað er verið að biðja þingmenn um að gera með því að leggja þetta frv. fram? Það er verið að biðja þá um að leggja blessun sína yfir óraunhæfar áætlanir við fjárlagagerð, umdeilanlegar ráðstafanir á fjármunum landsmanna og milljónagreiðslur til félagasamtaka og verkefna sem ýmist ónákvæm eða engin grein er gerð fyrir.
    Endist hæstv. fjmrh. aldur í starfi til að leggja fram annað frv. til fjáraukalaga held ég að gera verði kröfur til þess að því fylgi nákvæm greinargerð um til hvers því fé hefur verið varið sem þá verður leitað samþykkis þingmanna um að heimilt sé að veita.
    Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni, en vonandi gefst tækifæri til að ræða frv. betur þó seinna verði.