Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það er undarlegt að heyra sjálfstæðismenn hefja þessa umræðu undir þeim formerkjum að um sundrungu sé að ræða í ríkisstjórnarflokkunum. Í rauninni er Sjálfstfl. miklu, miklu fleiri flokkar heldur en þeir flokkar sem standa að þessari ríkisstjórn. Sjálfstfl. greinir á um öll grundvallaratriði innbyrðis sem máli skipta í þessu þjóðfélagi. Sjálfstfl. eru líklega ólíkustu regnhlífarsamtök sem eiginlega unnt er að finna þó að víðs vegar væri leitað í heiminum. Takið þið bara grunnatriði þjóðfélagsins eins og fiskveiðistefnu: Hluti flokksins berst fyrir kvótakerfi, hinn hlutinn vill fá auðlindaskatt eða veiðileyfasölu. Takið þið landbúnaðarstefnuna: Hluti berst fyrir því að fá frjálsan innflutning á landbúnaðarafurðum, hinn vill vernda landbúnaðinn og alls ekki leyfa neinn innflutning. Hluti berst fyrir frjálshyggju sem hinn hlutinn hefur megnustu óbeit á. Þannig mætti lengi telja.
    Það sem hér er um að ræða er ekki ágreiningur um virðisaukaskatt. Menn eru sammála um að koma honum á. Og það er ekkert óeðlilegt í svo viðamiklu máli sem hér er um að ræða þó að menn greini á um það á hvaða tíma hann eigi að taka gildi. Hvort virðisaukaskatti er frestað um fáeina mánuði er auðvitað ekki mál til þess að taka til umræðu á Alþingi undir þeim formerkjum sem hér er gert. Svona mikið mál þarf mikinn undirbúning. Það er stuttur tími til stefnu og það þarf að vanda málið. Ég held að sjálfstæðismenn þekki það sjálfir vegna þeirra áhrifa sem þeir hafa haft á stjórn landsmála að ósjaldan hafa þeir staðið að því að koma fram löggjöf sem hefur verið illa undirbúin og borið í sér marga galla sem hefur þurft að laga eftir á. Það er auðvitað það sem málið snýst um, að gefa sér tíma til að standa að vandaðri löggjöf, en ekki efniságreiningur. Þess vegna er þetta upphlaup hér engan veginn tímabært og algjörlega óþarft og snýst um smáatriði sem ekki skipta máli.