Jöklarannsóknastöð
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Flm. (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 44 till. til þál. um jöklarannsóknastöð á Íslandi. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um í samráði við Háskóla Íslands, Jöklarannsóknafélagið og Orkustofnun að gerðar verði tillögur að stofnun rannsóknastöðvar í jöklavísindum á Íslandi.``
    Till. fylgir grg. og sérstaklega nákvæmt fskj. frá tveimur jarðvísindamönnum, þeim Freysteini Sigurðssyni og Guðmundi Ómari Friðleifssyni. Grg. og fskj. skýra nákvæmlega hvað hér er átt við. En til viðbótar vil ég þó leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta mál.
    Ísland hefur gjarnan verið kennt við eld og ísa og er sú samlíking sannarlega ekki ný af nálinni. Þessir tveir örlagaþættir hafa meiri áhrif á útlit landsins heldur en nokkrir aðrir og hafa verið meira ráðandi um líf og afkomu íslensku þjóðarinnar en nokkrir aðrir náttúruþættir í fari landsins, enda er sérstaða Íslands augljós í þessum efnum. Einn tíundi hluti þess er hulinn jöklum. Hér er því um að ræða það land sem hefur mestu jökla þegar frá eru tekin heimskautalöndin. Og á Íslandi er stærsti jökull í byggðu landi utan heimskautalandanna, Vatnajökull.
    Það er því ekki að ófyrirsynju að áhugi Íslendinga, bæði lærðra og leikra, sé mikill á þessum aðstæðum í náttúrufari landsins, enda eiga jöklavísindi langa sögu að því er varðar sambýli fólksins við landið.
    Það má ekki gleyma því að í jöklarannsóknum hefur áhugi almennings á Íslandi verið sérstaklega mikill og má í þeim efnum sérstaklega minna á störf Jöklarannsóknafélagsins sem menn þekkja sem verðmætt innlegg í þá umfjöllun.
    Nú hefur það verið svo að áhugi og umræða um náttúrufar, verndun náttúrunnar, hefur farið mjög vaxandi ekki einungis hér á landi heldur víða um lönd. Og það er vissulega mikil þörf á því, ekki síst hér á Íslandi, að menn kunni góð skil á náttúrusögu landsins. Vissulega hafa ýmis mál verið rædd á undanförnum mánuðum og árum í þeim efnum sem bera þess vott að menn hafa ekki tekið eins mikið tillit til hinna stórvirku náttúruafla og ástæða væri til.
    Þetta er nú, virðulegi forseti, eins og ég sagði áðan, greinilega fram sett í fskj. með till. sem birtist hér í fjórum köflum og er meira að segja það víðtækt að sérstaklega er getið um hugsanlegan kostnað við þessa rannsóknastöð. Hygg ég að það sé ekki algengt í þáltill., sem gerir þó ekki ráð fyrir stærri skrefum en hér er lagt til, að mál sé skýrt jafnítarlega að þessu leyti.
    Ég lýk því máli mínu með því að vísa sérstaklega til þessa fylgiskjals. Mér þykir líka vert að það komi hér fram að frá því að ég lagði fram þessa tillögu á Alþingi hef ég fengið spurnir af því að meðal náttúrufræðinga, og sérstaklega þá þeirra sem hafa áhuga á jöklarannsóknum, hefur komið fram mikill áhugi fyrir þessum tillöguflutningi. Það staðfesta bæði

bréf sem mér hafa borist og önnur samtöl. Ég er þess vegna enn þá sannfærðari um það að hér er um gott mál að ræða eftir þessi viðbrögð en jafnvel áður var.
    Ég vil svo að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, leggja til að þessari tillögu verði vísað til síðari umr. og allshn.