Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir mjög svo prúðmannlega ræðu hér. Ég er viss um að sá mikli lærifaðir, Gunnar heitinn Thoroddsen, hefði verið nokkuð ánægður með sinn lærisvein þegar hann flutti sína ræðu hér áðan til hreinnar fyrirmyndar. Það gætti að vísu eins misskilnings í hans málflutningi. Hann var sá að hann sagði að ég hefði kallað ráðherrana halaklippta hunda. Það gerði ég ekki. Ég sagði að þeir hefðu verið á flótta eins og halaklipptir hundar. Á þessu er nokkur mismunur, en samræmið liggur í því að báðir eru skottlausir undir þeim kringumstæðum.
    Ég vil aftur á móti þakka honum fyrir það að ég má treysta því að Sjálfstfl. mun hugsa undir þessum kringumstæðum, hann mun skoða málið, hann mun meta það hvort hann telji að það eigi að vera mannréttindi og taka afstöðu til þess. Þetta eru náttúrlega góðar fréttir og ég verð að segja eins og er að ég tel að það sé kannski einhver möguleiki eftir þau sinnaskipti sem orðið hafa að það sé hik á mönnum að samþykkja lög sem beinlínis brjóta það ákvæði að hér gildi reglur um þrískiptingu valdsins, þ.e. að það sé framkvæmdarvald, dómsvald og löggjafarvald. Reyndar eru nú reglugerðarákvæðin svo rúm að það liggur við að hæstv. ráðherra vilji hafa þetta allt, þ.e. löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, undir sama hatti. Maður hefur áður orðið var við tilhneigingu ráðherra til að koma með slík lög hér inn. En það er fróðlegt að lesa hér upp, með leyfi forseta, það sem stendur í inngangsorðum Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna:
    ,,Mannréttindi á að vernda með lögum. Að öðrum kosti hljóta menn að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.``
    Ég sá ágæta íslenska kvikmynd um daginn --- og vil óska höfundi hennar til hamingju með gott verk --- myndin hét Magnús. Þar kenndi nú ýmissa grasa. Allt voru þetta mannleg vandamál sem við var að glíma. Einn vandræðagripur var þar á jarðnæði sem einn embættismaður borgarinnar hafði fengið fyrirmæli um að ná undir borgina. Og auðvitað var gripið til ýmissa ráða eins og að taka af honum vatnið og rafmagnið og svona. Karlinn greip til þess ráðs að nota haglabyssuna til að hreinsa frá, en borgarstarfsmenn áttu leynivopn. Þeir áttu leynivopn. Og þá færðist bros yfir fulltrúann þegar hann kynnti hvert leynivopnið var. Það var heilbrigðiseftirlitið, hollustunefndin. Hún mundi aldrei bregðast.
    Hæstv. ráðherra flutti hér út af fyrir sig skilmerkilega ræðu um aukaatriðið í þessu máli. En aðalatriðið í hans málflutningi var á þann veg að frv. væri algjörlega í takt við þá vitleysu sem væri í lögunum eins og þau eru núna. Það er hárrétt athugað. Það er ekkert ósamræmi á milli þeirra mannréttindabrota sem eru í lögunum og þess sem er í frv. Það er aðeins verið að útvíkka valdið, meiri heimildir.
    Ég verð að segja það eins og er að ég skil ekki

hvaða nauðsyn ber til, eins og hér er í þessum lögum sem eru í gildi í 27. gr., 27.9, með leyfi forseta:
    ,,Heilbrigðisnefndum er heimilt að gefa fyrirmæli um meðferð og notkun matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara þar sem settum reglum hefur ekki verið fylgt. Nefndin getur lagt hald á slíkar vörur og fyrirskipað förgun þeirra teljist slíkt nauðsynlegt.``
    Hvers vegna mega dómstólar ekki dæma í svona málum? Hvers vegna þarf ríkið ekki að sækja sitt mál fyrir dómstól og sakborningur má þá eiga þess kost að leggja fram sína vörn? Hvað er það sem gerir það svo stórhættulegt að hér skuli vera réttarríki í þessum efnum? Eru þetta svo voðalegir þegnar sem við höfum, svo ægilegt fólk í þessu landi að það sé bara ekki hægt að búa við það að ríkið þurfi að sækja sín mál? Það geti sagt: Þú mátt leita réttar þíns á eftir og fá dóm eftir kannski --- hvað, fimm ár.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst það líka alveg forkostulegt að einhverjir embættismenn með ákvarðanatöku geti lagt skaðabótaskyldu á íslenska þjóð kannski upp á hundruð milljóna. Það hlýtur að verða að krefjast þess að sú viðhorfsbreyting eigi sér stað við lagasetningu á Alþingi Íslendinga að menn telji það sjálfsagðan hlut að tryggja það að almenn lög brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Ég get nefnilega sagt eins og hæstv. ráðherra: Ég er ekki að fara fram á neinar breytingar á stjórnarskránni. Ég er ekki að leggja til að henni sé breytt. Hún er búin að vera svona. Það eina sem ég er að fara fram á er að farið sé eftir henni. Það er það eina sem ég er að fara fram á.
    Þriðja atriðið í 27. gr., í 27.1, hljóðar svo, eins og hæstv. ráðherra réttilega las hér áðan og ég vil, með leyfi forseta, lesa aftur: ,,Stöðvað viðkomandi starfsemi eða notkun að öllu leyti eða að hluta til með aðstoð lögreglu ef með þarf.`` --- Það verður ekki annað séð en að lögreglan eigi að hlýða heilbrigðiseftirlitinu.
    Og hvað gerist ef menn stoppa starfsemi laxeldisstöðvar sem framleiðir fyrir 500 millj. á ári? Eigum við að segja að það geri það í þessum fræga mánuði þegar réttarhlé er í landinu, þegar dómskerfið færi aftur á stað eftir mánuð? Hvernig ætli fiskarnir litu út? Það yrði kannski að drepa þá alla til þess að það yrði ekki brot á dýraverndunarlögum í millitíðinni. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hjá hv. 8. þm. Reykv. þó að hann búi við þau skertu mannréttindi eins og aðrir að þessi lög ná yfir hann. Væri það traustvekjandi fyrir lánastofnanir að lána til starfsemi sem ætti slíkt yfir höfði sér? Auðvitað er það rétt að hann býr við þessa makalausu erfiðleika, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e., að hafa ekki málfrelsi hér í deildinni. En ég treysti ekkert á Nd. í þessum efnum. Ég býst við að vitleysan haldi áfram upp, ég geri ráð fyrir því. Ég geri ráð fyrir að menn samþykki. Það er ekki nóg að Sjálfstfl. lofi að hugsa. Hann þyrfti að taka upp á þeim fáheyrða atburði að taka ákvarðanir líka og það gæti stefnt einingunni í voða eins og menn vita.
    Hæstv. heilbrrh. upplýsir það hér að hann hafi alla

í þingflokknum með sér í þessu máli nema mig. Ég er nú ekki búinn að sjá að það verði niðurstaðan en það má vel vera.
    En hjólreiðamaðurinn sem setti allt á annan endann í landinu sótti mál sitt út á eitt atriði: Að framkvæmdarvaldið ætti ekki að fara með dómsvald. Svo einfalt var það. Hér biðja menn aftur á móti í öðrum lagabálki um framlengingu á því að framkvæmdarvaldið megi sjá um dómsvaldið og, eins og ég gat um hér áðan, með rúmum reglugerðarheimildum að sjá svona um bróðurpartinn af lagasetningunni líka.
    Ég var að frétta það utan að mér að venjulegir bílar yrðu sennilega ekki gjaldgengir á Íslandi á næstu árum þannig að það er nú komið nýtt verkefni fyrir íslenska járniðnaðarmenn, þ.e. að hefja smíði á nægilega fullkomnum bílum sem passa fyrir íslenskar aðstæður. Og skyldi þá einhver spyrja sjálfan sig hvort þetta væri í reynd þéttbýlasta land í heimi sem þyrfti strangari reglur en önnur í þessum efnum?
    Hvar endar þetta framsal Alþingis á valdi? Hvar endar það? Endar það með því að lagagreinar verði sífellt styttri og styttri og þar standi fyrst og fremst ein setning í venjulegum lögum: Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um framkvæmd heilbrigðisvarna, mundi þetta hljóða upp á og þar með væri fullnægt afsalinu.
    Ég segi eins og er að mér gjörsamlega ofbýður að nokkur maður skuli láta sér detta það í hug á þessum tímum að flytja frv. til laga sem þverbrýtur grundvallarmannréttindi. Og rökin fyrir því að það eigi að flytja frv. eru á þann veg að í gildandi lögum sé að finna jafnvitlaus ákvæði.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja þessa umræðu. En ég vænti þess að hún hafi orðið til þess að sú nefnd sem fær þetta til meðferðar óski eftir áliti manna á því hvort þessi ákvæði standist stjórnarskrá Íslands.