Möguleikar Bláa lónsins
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að lýsa ánægju minni með þá till. sem hér er fram komin. Efni hennar er á þá leið að kannaðir verði þeir fjölþættu möguleikar sem Bláa lónið í Svartsengi hefur í ferðaþjónustu og það er tvennt sem einkum gerir þennan kost fýsilegan. Annars vegar að hér er verið að tala um atvinnugrein sem, ef rétt verður að staðið, er e.t.v. sú sem getur verið mestur vaxtarbroddur í á næstu árum svo framarlega sem menn flýta sér hægt og fara ekki af stað án þess að kanna hvernig halda skal á málum. Tillaga í þessa átt sýnir einmitt að hér á ekki að flana að neinu heldur að vita hverjir kostirnir eru áður en farið er út í framkvæmdir. Ferðaþjónusta er fýsilegur kostur í atvinnumálum einkum vegna þess að hann er mjög gjaldeyrisskapandi, sé vel á málum haldið, og einnig vegna þess að hann er mjög mannfrekur.
    Einnig er þessi hlið ferðaþjónustu, þjónusta í heilbrigðismálum þar sem verið er að byggja upp heilsubótarstaði, eitt hið ákjósanlegasta sem hægt er að hugsa sér vegna þess að þar er jákvæð kynning, þar er ábyrg uppbygging og þarna er um að ræða hóp ferðafólks sem leitar að ákveðinni aðstöðu sem við höfum upp á að bjóða en ekki er eins sveiflukenndur og margt annað er lýtur að ferðaþjónustu.
    Ég hlýt því að fagna þessari till. og vonast til að hún fái góða málsmeðferð.