Kísilgúrverksmiðja við Mývatn
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 179 um breytingu á lögum nr. 80 frá 15. ágúst 1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Í þessu frv. er lagt til að hlutafélaginu verði heimilt að taka þátt í öðrum félögum og öðrum greinum atvinnurekstrar, ekki eingöngu vera bundið við vinnslu kísilgúrs úr botni Mývatns. Samkvæmt núgildandi aðalsamningi milli ríkisstjórnarinnar og Manville Corporation takmarkast starfsheimildir Kísiliðjunnar við nám og vinnslu kísilgúrs. Afkoma Kísiliðjunnar hefur verið góð á undanförnum árum og hefur félaginu tekist að greiða niður allar langtímaskuldir og er eiginfjárhlutfall fyrirtækisins orðið yfir 90%. Með tilliti til þekktrar fjárhagsstöðu félagsins virðist mér því eðlilegt að rýmka verksvið Kísiliðjunnar á þann hátt sem lagt er til í frv. Mér finnst skynsamlegt að nýta þann styrk sem samstarfið við Manville-félagið hefur veitt Kísiliðjunni og þá miklu tækni-, markaðs- og stjórnunarþekkingu sem þar er að finna með þessum hætti. Með því að rýmka verksviðið gæti Kísiliðjan hf. orðið virkari þátttakandi í atvinnurekstri í landinu og reyndar styrkt stoðir atvinnulífsins, einkum á Norðausturlandi.
    Með samningi sem var undirritaður föstudaginn 23. júní á þessu ári var ákvæðum aðalsamnings milli Manville og íslensku ríkisstjórnarinnar breytt með viðauka á þann veg að félaginu var veitt heimild til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Viðaukinn var undirritaður samhliða því að Manville Corporation jók eignarhlut sinn í félaginu úr 39,8% í 48,7% með kaupum á 8,9% hlutafjár í félaginu. Þessi breyting á hlutafjáreign felur í reynd í sér að aftur er horfið að upphaflegum skiptum á hlutafénu eins og voru við stofnun félagsins, en um sinn eftir vandræði sem hlutust af Kröflueldum varð ríkið að auka nokkuð framlag sitt til þessa félags.
    Ákvæðin um breytt hlutverk Kísiliðjunnar voru undirrituð með fyrirvara um samþykki Alþingis á þann hátt sem hér er gerð tillaga um. Ákvæðin um sölu hlutabréfanna tóku hins vegar gildi þegar við undirritun samkvæmt ákvæðum laganna um Kísiliðjuna.
    Á liðnum árum hefur Manville-félagið athugað nokkra kosti hér á landi, m.a. nám og vinnslu perlusteins, kaup á steinull til frekari úrvinnslu í Bretlandi og frekari úrvinnslu kísilgúrs hér á landi. Kísiliðjan hf. hefur gert samstarfssamning við Iðntæknistofnun Íslands um könnun á nokkrum kostum til aukins iðnrekstrar hér á landi og hefur sú könnun einkum beinst að því hvort vinna megi svokallaða zeólíta úr kísilgúrefninu. Markaður fyrir þessa afurð, zeólítana, fer nú mjög vaxandi, en þetta efni er m.a. notað sem íblöndunarefni í þvottaefni og önnur hreinsiefni. Þess skal getið að sérfræðingar frá Manville-félaginu hafa unnið með sérfræðingum Iðntæknistofnunar að sýnatöku á perlusteini úr Prestahnjúki haustið 1988. Frumniðurstöðurnar voru þær að perlusteinninn úr Prestahnjúki hentaði ekki

sérlega vel til þeirrar framleiðslu sem Manville-félagið hafði í huga. Samstarfið við Iðntæknistofnun um zeólítaverkefnið lofar hins vegar góðu og það er til marks um það hversu vel þetta samstarf hefur tekist að Manville-félagið hefur hug á því að fá Iðntæknistofnun Íslands til þess að vinna að verkefnum fyrir sig vegna annarra verksmiðja þeirra, þ.e. í öðrum löndum.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að gera frekari grein fyrir efni frv., en það er sama eðlis og frv. til laga um breytingu á lögum um Járnblendifélagið á Grundartanga sem fram var lagt og samþykkt á sl. vori. Ég legg svo til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. að lokinni þessari umræðu.