Fjarvera stjórnarþingmanna
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég gat þess áðan að yfirleitt mættu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ekki til funda þannig að hægt væri að afgreiða mál og þetta mál sem nú er verið að taka út af dagskrá, lánsfjárlög 1989, var hér til umræðu og stjórnarandstæðingar urðu að hjálpa til svo að hægt væri að klára 2. umr. Mér er kunnugt um að gerð hefur verið tilraun á undanförnu korteri eða svo, eða lengri tíma, að kalla stjórnarþingmenn inn þannig að hægt væri að afgreiða þetta mál, enda lýsti formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar því hér áðan mjög fjálglega að brýn nauðsyn væri að afgreiða málið nú þegar vegna sjóðaframlaga og annars slíks.
    Ég hlýt að gagnrýna mjög þessi vinnubrögð stjórnarsinna og tel þetta fráleitt að taka þetta mál út af dagskrá, þegar einu sinni er búið að taka það fyrir að nýju, án þess að gefa þá skýringu sem rétt er, að ekki er hægt að ná 11 stjórnarþingmönnum inn í deildina.