Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Við þessa umræðu hefur það komið fram að hæstv. iðnrh. gengur mun lengra en aðrir þingmenn í að túlka svigrúm til framkvæmda sem ekki hafa verið heimilaðar lögum samkvæmt. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sem sæti á í stjórn Landsvirkjunar er þó það skynsamur að viðurkenna að eðlilegt væri að leita heimildar fyrir þeim framkvæmdum sem þarna er verið að ráðast í. Þetta segir sína sögu. Þetta eru stórar upphæðir sem hér er um að ræða og varða beinar framkvæmdir eins og hér hefur komið fram, byggingu vinnubúða og grunn fyrir stöðvarhúsi eins og hæstv. iðnrh. upplýsti hér. Ég ítreka það að þetta mál hlýtur að verða athugað frekar á vegum þingsins. Það er svo alvarlegt og stríðir svo mjög gegn samþykktum sem gerðar hafa verið hér á Alþingi.