Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég tel að ég hafi svarað þessari fsp. eins og hægt er á þessu stigi málsins út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja og mínum skilningi og mínu samþykki við það orðalag sem er í fjárlagafrv. Ég get að sjálfsögðu ekki svarað hv. þm. Agli Jónssyni til um einhverjar bréfaskriftir sem hann hefur séð en ekki ég. Hv. þm. notar sér vitneskju sína sem nefndarmanns í fjvn. til að draga hér inn í umræðuna plögg og bréfaskriftir hverjar hafa ekki komið fyrir augu mín sem landbrh. Ég tel líka þá upphæð sem hv. þm. nefndi fráleita. Það gefur auga leið að það ætti ekki að kosta neinar 150 millj. kr. þó svo að einhver aðili tæki að sér að grípa til ráðstafana til að fjármagna söluátak á 600 tonnum kindakjöts. Það væri þá allhrikaleg niðurgreiðsla svo að ekki sé meira sagt. Þannig má t.d. reikna það út í huganum að ef auknar væru niðurgreiðslur um 75 kr. á kg á 600 tonnum, þá kostar það 45 millj. en ekki 150 svo að dæmi sé tekið.
    Ég hef lagt þann skilning í þetta orðalag að Framleiðnisjóði landbúnaðarins væri ætlað að leggja af mörkum, sérstaklega á næsta ári, fé til að standa að og styðja við bakið á ýmiss konar markaðsstarfi, sérstaklega til að auka sölu á dilkakjöti. En eins og ég sagði hér úr ræðustólnum áðan, þá hef ég ekki reiknað með að það yrði gert í formi beinna niðurgreiðslna úr Framleiðnisjóði, enda tel ég að það orki miklu meira tvímælis að gera það. Hitt er ljóst að fyrir því eru mörg fordæmi að ráðstafa fé úr Framleiðnisjóði til að standa straum af ýmiss konar markaðsaðgerðum. Fyrir því eru bæði fordæmi og ótvíræðar heimildir í lögunum um Framleiðnisjóð.