Heilsugæslustöðvar í Reykjavík
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Það má segja að hér sé enn höggvið í sama knérunn með þeirri fsp. sem hér liggur fyrir á þskj. 88 og hljóðar svo, og skal ég mjög stytta mál mitt:
,,1. Hvað líður undirbúningi að yfirtöku ríkisins á rekstri heilsugæslustöðva í Reykjavík?
    2. Hvaða aðilar veittu upplýsingar um starfsemi þeirra og fjárþörf við gerð fjárlagafrv.?``
    Í stuttu máli hef ég áhyggjur af því að mikill mismunur kom í ljós á kostnaði sem virtist koma mönnum á óvart. Ég hef vissu fyrir því að Heilbrigðisráð Reykjavíkur fékk lítið að koma nálægt gerð fjárlaga, en það liggur auðvitað inni með vitneskjuna um kostnað og fjárþörf og ég hef illan grun um að einnig þetta mál hafi verið unnið af starfsmönnum ráðuneytis með litlu samráði við þá sem málið varðar. T.d. kom það í ljós í viðtölum mínum við heimilislækna í Reykjavík að ekkert samráð hafði verið haft við þá og nú hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, og ég mun taka til máls þegar umræða um það fer fram því að þar þykir mér með ólíkindum gengið fram hjá ýmsu því sem varðar reykvíska borgara.
    Eins og ég hef áður sagt í þessari umræðu gilda satt að segja allt önnur lögmál um skipulag á heilbrigðisþjónustu í Reykjavík og úti á landi í fámennari byggðarlögum. Og mér er fullkunnugt um það að bæði heimilislæknar og sérfræðingar í Reykjavík hafa miklar áhyggjur af þróun þessara mála og þess vegna vildi ég fá svör við þessu frá hæstv. heilbrrh.: Hvernig var unnið að undirbúningi fjárlaga og hvaðan komu upplýsingar um fjárþörf heilsugæslustöðvanna í Reykjavík?