Afstaða til Kambódíu
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svarið en hlýt að benda á hvílíkar þversagnir eru í hans málflutningi sem og annarra þeirra sem fara með utanríkismál á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu, þeirra sem styðja enn Norodom
Sihanouk og stjórn hans sem hefur innan sinna vébanda rauða khmera. Ég vek alveg sérstaka athygli á því að tvö Norðurlandanna hafa séð sig um hönd frá því á síðasta allsherjarþingi. Þá studdu öll Norðurlöndin að ég hygg með atkvæði sínu ályktunartillögu um málið svipaða þeirri sem enn var til meðferðar og er til meðferðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en Finnland og Svíþjóð hafa dregið sig út úr hópi þeirra sem styðja þetta mál og sátu nú hjá við atkvæðagreiðslu og var raunar Svíþjóð meðflutningsaðili að tillögunni á síðasta þingi. Ég held að hæstv. utanrrh. ætti að athuga þessa afstöðubreytingu Svía, m.a. með tilliti til þeirra upplýsinga sem hann hefur veitt um málið í ríkisstjórn Íslands.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til samþykktar á landsfundi Alþb. um þetta mál sérstaklega, þar sem segir:
    ,,Með brottflutningi víetnamskra herja frá Kambódíu hófst nýr kafli í sögu þessa stríðshrjáða heimshluta. Ömurlegt er til þess að vita að ríkisstjórn Íslands skuli veita Pol Pot og rauðu khmerunum pólitískan stuðning með viðurkenningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Alþb. krefst þess að ríkisstjórn Íslands afmái þá smán sem stuðningur við Pol Pot og rauðu khmerana er og viðurkenni ríkisstjórn Kambódíu. Æskilegt er að samskipti Íslendinga við þjóðir Laos, Víetnam og Kambódíu verði aukin með það fyrir augum að leggja lóð á vogarskál friðar í Suðaustur-Asíu.``