Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda að taka þetta mál hér upp. Það var fimmtudaginn 16. nóv. eftir hádegið að Siglingamálastofnun ríkisins fékk tilkynningu frá varnarmálaskrifstofu um að olía hefði runnið í sjó frá ratsjárstöðinni á Bolafjalli. Fulltrúi stofnunarinnar fór þegar á staðinn snemma næsta morgun til að kanna aðstæður. Siglingamálastofnun ríkisins var með öllu ókunnugt um að olíubirgðageymar hefðu verið reistir við ratsjárstöðina á Bolafjalli, hvað þá að olía væri þar þegar til geymslu. Reglugerð nr. 560/1982, um varnir gegn olíumengun sjávar við olíubirgðastöðvar, kveður á um að áður en hafist er handa um byggingu olíubirgðageyma skuli senda Siglingamálastofnun til samþykktar teikningar af fyrirkomulagi stöðvarinnar þar sem fram koma mengunarvarnir stöðvarinnar og fleira. Enn fremur skal sá verktaki er tekur að sér að sjá um verk tengd búnaði olíubirgðastöðva tilkynna Siglingamálastofnun hvenær byrjað verður á verkinu og hvenær áætlað er að því ljúki vegna eftirlits stofnunarinnar. Hvorugt var gert í þessu tilviki.
    Frá því að óhappið varð hefur stofnunin verið í stöðugu sambandi við varnarmáladeild sem var ókunnugt um að olía væri komin í birgðastöðina á Bolafjalli eins og reyndar kom hér fram í máli utanrrh. Svo virðist sem um það bil 41.000 bandarísk gallon af olíu hafi verið flutt í olíubirgðageyminn á fjallinu, þ.e. 155.800 lítrar og þetta hafi verið gert til 3. nóv. sl. Þetta fullnýtir birgðarými geymanna en þeir eru síðan tengdir við daggeyma með yfirföllum og á að heita svo að um lokað kerfi sé að ræða. En af einhverjum ástæðum lak olía úr aðalgeymi í daggeyma, þaðan í yfirfallsgeymi, en vegna þess að ýmis búnaður reyndist óvirkur og ónothæfur endaði olían utan húss og rann til sjávar niður fjallshlíðina eins og kunnugt er.
    Þessa olíuleka varð fyrst vart mánudaginn 13. nóv. og verður að átelja þann drátt sem varð á því að upplýsa málið. Af þeim mælingum sem enn liggja fyrir má ætla að um 6700 gallon eða 25.460 lítrar hafi lekið niður, en ekki er á þessu stigi hægt að fullyrða nákvæmlega um afdrif þessa olíumagns. Og vegna þess að Siglingamálastofnun hefur frá upphafi haft eftirlit með hönnun, byggingu og úttekt olíubirgðastöðvar í Helguvík er rétt að taka fram að varnarliðinu átti að vera fullljóst hvaða reglur gilda hér að lútandi.
    Þær aðgerðir sem ákveðnar hafa verið í framhaldi af þessu slysi eru:
    1. Siglingamálastofnun hefur krafist þess að allri olíu verði dælt til baka í aðalgeyma stöðvarinnar.
    2. Stofnunin hefur þegar farið fram á að fá allar teikningar og upplýsingar um mengunarvarnir stöðvarinnar, svo og um stöðina á Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi.
    3. Olíukerfi stöðvarinnar verður ekki tekið í notkun fyrr en hönnun þess hefur verið athuguð, kerfið

örugglega prófað og Siglingamálastofnun ríkisins samþykkt öll nauðsynleg mengunarvarnaatriði og framkvæmt lokaúttekt.
    4. Geta má þess að sérfræðingur Siglingamálastofnunar fór enn vestur til Bolungarvíkur í dag til að kanna nánar aðstæður og þar á meðal olíumengun í jarðvegi og snjó og er ekki hægt að veita fullnægjandi svör við spurningum hv. málshefjanda fyrr en að þeirri könnun lokinni sem vonandi verður í byrjun næstu viku.
    Að lokum vil ég geta þess, virðulegur forseti, að ég hef vegna þessa máls ritað siglingamálastjóra svofellt bréf í dag:
    ,,Að gefnu tilefni og með vísan til mengunarslyssins á Bolafjalli við Bolungarvík skal eftirfarandi tekið fram:
    Ráðuneytið lítur umrætt mengunarslys mjög alvarlegum augum og felur Siglingamálastofnun að kanna tafarlaust hvaða brot hafa verið framin gegn íslenskum rétti og beita þeim úrræðum sem lög og reglur heimila. Ráðuneytið felur stofnuninni að athuga umsvifalaust hvort olíu hefur verið komið fyrir við mannvirki Ratsjárstofnunar á Gunnólfsvíkurfjalli í heimildarleysi. Jafnframt skal stofnunin gera ráðuneytinu ítarlega grein fyrir niðurstöðu þeirrar athugunar.``
    Og eðli málsins samkvæmt mun siglingamálastjóri síðan snúa sér til saksóknara og óska athugunar á þeim þáttum þessa máls sem saknæmir kunna að reynast, en hér er alveg ljóst að reglur hafa verið þverbrotnar með vítaverðum hætti.