Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. hefur verið staðinn hér að ósannindum með margvíslegum hætti. Ég vildi gjarnan bjóða hæstv. fjmrh. heim til mín nú eftir þessa umræðu og við hlustuðum saman á upptöku af viðtali við hann í sjónvarpinu sl. miðvikudagskvöld. Þar sagði hann að Sjálfstfl. hefði sett fram tillögu um 25% virðisaukaskatt. Hann minntist ekki einu einasta orði á tvö þrep. Hér eru hans varnir þær að Sjálfstfl. vilji hafa þrepin tvö og af þeim sökum þurfi kannski að fara ofurlítið hærra, en margar vörutegundir séu í hinu lægra þrepinu. En það var ekki það sem hann sagði í sjónvarpinu, heldur að Sjálfstfl. vildi einn flatan skatt, 25% virðisaukaskatt. Hann vitnaði til samþykktar sem þingflokkur Sjálfstfl. gerði nú á sl. hausti. Ég skal rifja þá samþykkt upp, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Virðisaukaskattur á að verða í tveimur þrepum, almennt þrep og lægra þrep fyrir matvæli. Með þessu er tekið af skarið um lægri skattlagningu á matvæli en aðrar vörur og komið til móts við þá almennu skoðun að rétt skuli að halda matvælum eins ódýrum og kostur er.``
    Þetta er sú samþykkt sem þingflokkur Sjálfstfl. gerði um virðisaukaskatt. Ég hlýt að biðja hæstv. forseta að gefa hæstv. fjmrh. tækifæri til að koma hér upp í pontu og biðja þingheim og þjóðina afsökunar á þeim ósannindum sem hann viðhafði í sjónvarpinu á miðvikudagskvöld. Það er auðvitað ábyrgðarhluti fyrir sjónvarpið að hleypa þvílíkum mönnum í beina útsendingu án þess að hafa á varðbergi á bak við svona tug manna til þess að geta borið af sér sakir eftir því hvar fjmrh. ber niður hverju sinni.