Löggæsla í Reykjavík
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Því miður leyfir þetta fundarform ekki langa umræðu um þetta mál en það mun auðvitað fara fram ítarleg umræða þegar þáltill. okkar sjálfstæðismanna um þessi mál verður til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. En ég vil í fyrsta lagi þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan og einnig vil ég þakka hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni.
    Hæstv. dómsmrh. tók nokkuð undir gagnrýni mína á að ekki hafi verið staðið nægilega vel að löggæslumálum á undanförnum árum og hann ítrekaði það sérstaklega ... Virðulegi forseti. Mér þætti nú ágætt að ekki færu fram margir fundir í salnum meðan ég talaði. ( Forseti: Forseti var um það bil að hefja bjöllu sína.) Hæstv. dómsmrh. tók undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á það hversu illa hefur verið staðið að þessum málum af hálfu Alþingis og fyrrv. og núv. ríkisstjórnar að vissu marki og ekki hvað síst undirstrikaði hann í sinni ræðu hve illa væri staðið að þessum málum í Reykjavík. En þótt hæstv. ráðherra hafi lofað ákveðnum breytingum til hins betra, þá tel ég það ekki fullnægjandi. Í svari hans var drepið á afar fá mál og ekki talað um annað en að fjölga um nokkur stöðugildi sem ég tel ekki fullnægja því markmiði og þeim kröfum sem gerðar eru til þessara mála.
    Hv. 2. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson varpaði því fram að lögreglumál ættu að fara til sveitarfélaga. Ég vil taka undir þetta sjónarmið. Ég tel það afar brýnt að þannig verði að málum staðið og það komi fram frv. til l. sem feli í sér þessar breytingar innan tíðar. Boðleið milli þarfa íbúanna er styttri með slíku fyrirkomulagi en núverandi fyrirkomulagi. Auk þess hefur miðstýringarvaldið á þessu sviði haft það í för með sér, svo að dæmi séu nefnd, að þegar talið er að rúmlega 240 starfsmenn séu við löggæslu hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þá mun um helmingur starfa við skrifstofustörf, þ.e. þjóna kerfinu á hinum ýmsu stigum þess í stað þess að nýtast sem best úti á vettvangi sem er auðvitað úti í borginni.
    Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði í ræðu sinni að hún teldi að það þyrfti að greina ástæður ofbeldis. Ég tek undir þessi orð hennar og vek athygli á því að í framsögu minni talaði ég sérstaklega um að það þyrfti að efla forvarnarstarf á þessu sviði. Einnig var minnst á það hér af einum hv. þm. að lögreglan hefði sjálf efnt til funda um þennan þátt mála sem og önnur atriði er þýðingu hafa í sambandi við eflingu löggæslu. Forvarnarstarfið hefur verið vanrækt á öllum stigum og það þarf að efla.
    Varðandi það, hæstv. forseti, sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði um að ef ætti að bæta hér um þyrfti háar upphæðir til endurbóta, þá vil ég segja þetta: Það má breyta og færa til í sambandi við fjárlög. Það má breyta um áherslur. Það er ekki forsvaranlegt að hv. þm., stjórnarstuðningsmaður í fjvn., skuli ekki sjá möguleika á því að færa til og breyta um áherslur í sambandi við fjárlög næsta árs

eða næstu ára því hvað er þýðingarmeira en vernd og öryggi fólks? Það hlýtur að ganga fyrir.