Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það er kórrétt sem hæstv. utanrrh. sagði hér. Núverandi söluskattur, þegar hann var settur á í því formi sem hann er í í dag, var settur á með þeim hætti að hann var að fullu endurgreiddur á brýnustu lífsnauðsynjar. Það hefur að vísu dregið úr þessari fullu endurgreiðslu eftir að núv. hæstv. ríkisstjórn kom til valda, en það sem samið var um eftir að hæstv. ráðherra Hagstofu fékk sæti í ríkisstjórninni var það að í stað fullrar endurgreiðslu á brýnustu matvælum í söluskattskerfinu á að koma hálf endurgreiðsla í virðisaukaskattskerfinu. En þær döpru staðreyndir sem hér liggja fyrir eftir þessa umræðu eru þær að við höfum ríkisstjórn í landinu sem getur ekki komið virðisaukaskatti til framkvæmda sem Alþingi hefur þó samþykkt að skuli taka gildi um áramót og allar fullyrðingar um vanhæfi hæstv. fjmrh. til þess að standa í þeim undirbúningi hafa komið hér fram.
    Það er ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir stefna hver í sína áttina og mestu sápuóperuna hefur hæstv. forsrh. sett á svið með því að innan hans flokks vilja menn bæði tvö þrep um áramót --- hann sjálfur vill bæði að gildistakan verði um áramót en nokkrum mánuðum seinna komi tvö þrep og þar á ofan eigi að athuga kerfisbreytingu með eitt þrep og að fella niður allar niðurgreiðslur. Þetta sýnir ekki einasta að hæstv. ríkisstjórn er ófær um að koma þessu máli fram og það er þegar af þeirri ástæðu óhjákvæmilegt að fresta gildistökunni. Þetta sýnir einnig að hæstv. ríkisstjórn verður að fara frá. Það eru þeir þjóðarhagsmunir sem hér eru í húfi.