Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég stend ekki hér upp til að andmæla þessu frv. en vildi þó fara nokkrum orðum um það. Þetta frv. er um formbreytingu. Það er gerð sú breyting að leggja niður Fiskimálasjóð og í staðinn að stofna þróunardeild við Fiskveiðasjóð Íslands. Það er breytt um aðila sem á að sjá um framkvæmd á sama verkefni og áður. Í þessu frv. er að vísu ekki eins nákvæmlega tiltekið hvert verkefnið á að vera eins og var og er í lögum um Fiskimálasjóð.
    Í þessu frv. er talað um að það sé hlutverk þróunardeildarinnar að veita lán til rannsókna og þróunarverkefna á öllum sviðum sjávarútvegs. Þetta er nánar tilgreint í lögum um Fiskimálasjóð. Þar er þetta tiltekið í sex liðum. Tveir fyrstu liðirnir eru að vísu úreltir nú vegna þess að þeir fjalla um starfsemi sem nú fellur undir Hafrannsóknastofnunina en hinir liðirnir sem tilgreindir eru kveða á um að Fiskimálasjóður veiti styrki til tilrauna til að veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum, enn fremur veiti styrki til tilrauna við verkun og vinnslu sjávarafurða, svo og veiti styrki til markaðsleitar fyrir sjávarafurðir og svo loks veiti styrki til annarra rannsókna og nýjunga í þarfir sjávarútvegsins.
    Ég spyr: Er nokkur ástæða til að fella niður svo vegleg verkefni sem þessi sem ég hef upp talið úr gildandi lögum? Færi ekki betur á því að það stæði í því frv. sem við hér ræðum og þeim lögum sem sett yrðu ef frv. yrði samþykkt?
    En meginatriði í þessu máli, aðalatriðið er það að hin nýja þróunardeild geti starfað. Nú er það upplýst, eins og við vitum, að Fiskimálasjóður hefur ekki starfað. Hann hefur verið dauð stofnun um nokkur ár a.m.k. Og vegna hvers? Það er vegna þess að það hafa engar tekjur verið ætlaðar Fiskimálasjóði. Hann hefur verið sviptur þeim tekjum sem hann hafði áður. Nú hefði maður haldið að ef hreyfa ætti við þessum málum, þá væri það aðalatriðið að skapa tekjur til þess að sinna þessum verkefnum. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinum tekjum til hinnar nýju eða ætluðu þróunardeildar.
    Hæstv. ráðherra kom inn á þetta mál og vakti athygli á þessu. Hæstv. ráðherra sagði, eða ég skildi hann svo, að það væri eðlilegt að tekjur til þessara þarfa kæmu frá sjávarútveginum með einum eða öðrum hætti. Hann tók fram að sjávarútvegurinn hefði ekki stöðu til þess að þar væru teknar tekjur til þessara þarfa, en hann lýsti von sinni um það að það kæmu þeir tímar að hagur sjávarútvegsins batnaði. En það vill nú svo til að það er um þessar mundir mest komið undir hæstv. ráðherra sjálfum hvernig fer með stjórn sjávarútvegsmála og hverjir möguleikar sjávarútvegsins verða í þessu efni.
    Mér kemur til hugar hvort það hefði verið nokkur ástæða að koma með þetta frv. nú, nokkur ástæða til þess að gera kerfisbreytingar eða formbreytingar í þessu efni fyrr en búið væri að leysa það sem er aðalatriði þessa máls, að skapa tekjur, útvega tekjur til þeirra verkefna sem Þróunarsjóðnum er ætlað. Ég vildi

leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það lægju einhverjar nauður eða hverjar ástæður væru til þessara formbreytinga áður en þessu frumskilyrði er fullnægt.
    Þá er það eitt atriði sem ég vil aðeins víkja að. Það hefur ekki neina stórþýðingu en það er aðeins formsatriði. Ég tek eftir því, eins og allir mega sjá, að frv. þetta sem við nú ræðum hefur fyrirsögnina: ,,Frumvarp til laga um viðauka við lög nr. 44 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands``. Þetta frv. er um breytingu á lögum um Fiskveiðasjóð Íslands. Það er venja að taka það fram í frv. til laga sem eru breytingar við önnur lög að þau séu frv. til breytinga á þeim lögum og hafa formið á frv. þess eðlis, en ekki að tala um viðauka. Ég er hræddur um að ef sá siður hefði gilt þegar lögum er breytt að tala um viðauka --- og það er meira en að tala um viðauka, frv. til breytinga er þá með sjálfstæðri töluröð greina --- þá liti lagasafnið út allt öðruvísi en það lítur út í dag því að þá mundu flest lög þar vera með viðaukum og mörgum viðaukum sum. Ég sagði að þetta væri aðeins formsatriði, en ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra gæfi skýringar á því hvers vegna þetta form er í þessu frv. sem við nú ræðum.