Námsgagnastofnun
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er afurð af starfi nefndar sem fjallaði um verkefni Námsgagnastofnunar. Nefndin skilaði áliti í sumar og má segja að niðurstöður hennar hafi verið þríþættar. Í fyrsta lagi tillögur um breytingar á innra starfi Námsgagnastofnunar. Í öðru lagi tillögur um húsnæðismál Námsgagnastofnunar og í þriðja lagi tillaga um breytingu á lögum um Námsgagnastofnun.
    Tvö fyrrnefndu málin hafa verið til meðferðar, annars vegar í fjárlagafrv. þar sem gert er ráð fyrir nokkurri raunaukningu á framlögum til Námsgagnastofnunar frá því sem er á árinu 1989, og hins vegar eru húsnæðismálin einnig til athugunar í fjmrn. og fjvn. Þá hefur stjórn stofnunarinnar fjallað um þessa skýrslu og fallist á meginatriðin í efni hennar þannig að segja má að í framhaldi af starfi nefndarinnar hafi komist þó nokkur skriður á málin að því er þessa stofnun varðar.
    Það var í maí 1987 að Námsgagnastofnun fór fram á það við menntmrh. að endurmat færi fram á fjárþörf stofnunarinnar. Þegar stjórnarskipti urðu haustið 1988 var beiðni þessi ítrekuð við núv. menntmrh. og 27. jan. 1989 skipaði ég nefnd til að fjalla um mál stofnunarinnar. Nefndin var undir forystu Gerðar G. Óskarsdóttur og nefndin skilaði áliti 26. júní sl.
    Meginbreytingarnar sem gert er ráð fyrir í frv. eru í raun og veru ekki mjög viðamiklar. Það má segja að fyrsta meginbreytingin komi fram í því að gert er
ráð fyrir nokkurri breytingu á stjórn stofnunarinnar og hún verði skipuð til þriggja ára í senn í stað fjögurra ára. Að hún verði níu manna í stað sjö manna. Inn í stjórn stofnunarinnar komi fulltrúar frá Háskóla Íslands og fulltrúi frá foreldrafélagi eða samtökum foreldrafélaga eftir nánari ákvörðun þar um. Þetta er meginbreyting og það hefur komið fram í viðræðum sem ég hef átt við ýmsa aðila að menn telja sumir að óheppilegt sé að fjölga í stjórn stofnunarinnar. Ég sé nú satt að segja ekki að það þurfi út af fyrir sig að vera svo slæmt. Fyrir utan þá aðila sem tilnefndir eru samkvæmt tillögum nefndarinnar og frv. hefur komið fram að Félag skólastjóra og yfirkennara vill gjarnan að hlutur félagsins sé betur tryggður en gert er ráð fyrir hér í frv., þar sem sagt er að í stjórninni eigi að vera fjórir fulltrúar tilnefndir af Bandalagi kennarafélaga og skuli tveir þeirra starfa á grunnskólastigi.
    Ég taldi mér skylt að koma þessu sjónarmiði Félags skólastjóra og yfirkennara á framfæri við hv. þingdeild ef það mætti verða til þess að hún fjallaði um málið og þá einkum hv. menntmn. þegar hún fær málið til meðferðar.
    Í annan stað er gert ráð fyrir því, og það er önnur meginbreyting frv., að forstjóri Námsgagnastofnunar verði skipaður til takmarkaðs tíma, til fimm ára í senn, og er það í samræmi við aðrar stofnanir ríkisins sem hafa verið til meðferðar hér á hv. Alþingi í seinni tíð þar sem gjarnan er gert ráð fyrir því að forstöðumenn stofnananna séu skipaðir til takmarkaðs

tíma.
    Þriðja meginbreytingin er sú að gert er ráð fyrir að fella úr lögunum þau ákvæði að þar sé kveðið á um deildaskiptingu og skipulag starfsemi stofnunarinnar og gert ráð fyrir því í frv., eins og það lítur hér út, að þetta verði ákveðið í reglugerð.
    Loks má segja að það sé ein breyting sem skiptir máli í þessu efni, að gert er ráð fyrir nokkuð auknum skyldum stofnunarinnar í þróun námsgagna með könnunum og rannsóknum á gerð þeirra og notkun.
    Þetta eru þær fjórar meginbreytingar sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. Auk þess er um að ræða nokkrar minni háttar lagfæringar sem í sjálfu sér er ekki ástæða til að fjölyrða um eins og fram kemur t.d. í 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir að stofnunin geri fjárhags- og framkvæmdaáætlanir til allt að fimm ára í senn en árafjöldinn er ekki tiltekinn í gildandi lögum. Í frv. er gert ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að starfsemi stofnunarinnar skiptist í deildir í samræmi við verkefni hennar, sbr. ákvæði í reglugerð, en í gildandi lögum er, eins og ég sagði áðan, talið upp hvaða deildir það eru sem stofnunin eigi að skiptast í.
    Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara mikið fleiri orðum um þetta frv. Það er í raun og veru einfalt. Það er að vísu gert ráð fyrir því að lögin séu hér öll tekin upp vegna þess að sums staðar er um að ræða nánast ritstjórnarlegar lagfæringar og gert ráð fyrir því að verði frv. að lögum þá verði gefin út ný lög um Námsgagnastofnun.
    Ég vil aðeins benda á að lokum, herra forseti, að hér er sérstaklega vitnað til aðalnámsskrár grunnskóla sem viðmiðunargagns fyrir Námsgagnastofnun en ekki aðeins grunnskólalaganna. Aðalnámsskrá grunnskóla var gefin út sl. vor og við teljum mjög mikilvægt að ákvæði hennar séu höfð til viðmiðunar í starfsemi stofnunar eins og Námsgagnastofnunar. Síðan er fjallað hér í grg. frv. og í frv. um gömul námsgögn og hvernig með þau skuli fara en það er æskilegt að á því máli sé sérstaklega tekið.
    Ég vil leyfa mér að vísa hv. þm. á skýrsluna um Námsgagnastofnun, skýrslu um stöðu Námsgagnastofnunar og framtíðarþróun, sem var gefin út í júní 1989 og ég bað um að yrði dreift til allra þm. Ef það hefur ekki gerst nú þegar þá er það yfirvofandi alveg næstu sólarhringana.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.