Málsókn á hendur Magnúsi Thoroddsen
Miðvikudaginn 29. nóvember 1989


     Stefán Valgeirsson (um þingsköp):
    Virðulegi forseti. Ég verð nú að spyrja að því hvað veldur því að hæstv. forseti sameinaðs Alþingis skrifar formönnum þingflokkanna trúnaðarbréf út af þeim fyrirspurnum sem hæstv. forseti var að lesa upp hér áðan. Ég hitti hæstv. dómsmrh. að máli sólarhring áður en þessi fyrirspurn var lögð fram og spurði hann að því hvort hann sæi nokkuð athugavert við það að þessi fyrirspurn yrði lögð fram. Ég óskaði enn fremur eftir því að hann ráðfærði sig við dómsmrn. Sólarhring síðar hitti ég hæstv. dómsmrh. og hann sagði að hann sæi ekkert athugavert við að leggja þessa fyrirspurn fram. Mig eiginlega undrar þessi málsmeðferð og man ekki eftir því á 23 ára þingferli mínum að formönnum þingflokka hafi verið skrifað út af fyrirspurn.
    Það var hringt í mig norður í land og óskað eftir því að ég drægi fsp. til baka sem ég auðvitað neitaði eftir að hafa talað við dómsmrh. Síðan var mér sent póstfax til Raufarhafnar og m.a. stendur í þessu ( Forseti: Má ég biðja hv. þm. að virða að það er ekki leyfð efnisumræða um málið.) Ég er að lesa upp hvaða forsendur hæstv. forseti gefur sér sem eru alveg fáránlegar. ( Forseti: Ég bendi á að umræður um efniságreining og efni almennt eru ekki leyfðar í þessum ...) Mér þykir nú þetta alveg orðið með ólíkindum, þessi stjórn hér á þinginu. Ég verð nú bara að segja það. Ég mun samt virða þetta. En ég endurtek það að mér þykir þetta með ólíkindum. Og svo er annað. Það er víst stuðst við einhverja greinargerð sem einhver lektor í Háskólanum hefur tekið saman fyrir hæstv. forseta og formönnum þingflokkanna var afhent þetta skjal, þessi skýrsla en mér ekki.