Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Gott kvöld, góðir áheyrendur. Það ætti að varða við lög að taka hefðbundna sjónvarpsdagskrá úr umferð á þennan hátt á fallegu fimmtudagskvöldi til þess að koma með pólitíska umræðu inn í stofurnar hjá fólki sem á sér einskis ills von. Það er búið að rjúfa kvöldfriðinn og heimilisfriðnum er stefnt í voða. Það má aldeilis vera brýnt tilefni sem knýr menn til þess að fara fram á umræður af þessu tagi á fallegu fimmtudagskvöldi og kalla fólk að skjánum langt fram á nótt. Það má aldeilis vera brýnt tilefni.
    En hvert var tilefnið? Tilefnið var að ræða vantraust á ríkisstjórnina. Og hvar er málshefjandinn? Hvar er málshefjandinn? ( Gripið fram í: Hann er að horfa á Stöð 2.) Málshefjandinn er líklega að horfa á Stöð 2, og sannast þá betur en orð fá lýst hvað ég var að segja áðan. En það er búið að kalla úlfur, úlfur, og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur mínum gamla skólafélaga, Þorsteini Pálssyni. Ég vil gjarnan fá að ræða þessi mál aðeins við hann sem gamlan skólafélaga, spjalla um þessi mál, láta hann vita að það er ekkert fararsnið á þessari ríkisstjórn. Þorsteinn gat vel vitað það. Ef hann var í einhverjum vafa í gær gat hann spurt mig þegar ég hitti hann niðri í kaffi. Ég hefði getað sagt honum það strax.
    Þetta er eins og að kalla landsliðið í knattspyrnu út um miðja nótt bara til þess að láta það staðfesta að það sé enn þá í liðinu. ( Gripið fram í: Er það Valsliðið?) Í Valsliðinu. Þetta er úlfur, úlfur. Auðvitað eru allir áfram í liðinu. Við erum það allir. Við lýsum trausti á stjórnina í nótt og um leið, því miður, vantrausti á minn gamla skólafélaga, Þorstein Pálsson. Því miður. Ég vona að dagskrá Stöðvar 2 sé senn á enda runnin og Þorsteinn birtist í salnum.
    Í skóla var Þorsteinn tvímælalaust ábyrgðarfullur ungur maður og það datt hvorki af honum né draup. Þegar við hinir áttum það til að hanga aftan í bílum og vorum að stelast til þess að reykja vindla og vorum stundum þreyttir á nánudagsmorgnum var Þorsteinn þessi vatnsgreiddi fyrirmyndarunglingur, fullur af ábyrgð. En í dag hefur dæmið snúist við. Nú kemur Þorsteinn fram af fullkomnu ábyrgðarleysi þegar hann byrjar þessa umræðu, þessa vantraustsumræðu á viðkvæmu stigi fyrir íslenska þjóð sem stendur í stórfelldum samningum við aðrar þjóðir. Núna tekur Þorsteinn minn út sitt gelgjuskeið á miðjum aldri í stað þess að gera það með okkur hinum þegar við vorum að hanga aftan í bílunum í Þingholtunum.
    En úr því að Þorsteinn vildi ná athygli og trufla með því hefðbundin þingstörf, raska með því fjárlagagerð og halda þjóðinni við skjáinn, af hverju sagði hann þá ekki fólkinu eitthvað sem það hefði frekar viljað heyra en að hlusta á tal um vantraust? Af hverju sagði hann ekki fólkinu hvernig það gæti losnað undan matarskattinum sem hann lagði á það, hann og sautján sjálfstæðismenn? Átján sjálfstæðishendur voru á lofti þegar matarskatturinn var samþykktur. ( Gripið fram í: Það dugar ekki til.)

Af hverju hjálpaði Þorsteinn ekki fólkinu að losna? ( Gripið fram í: Það eru 63 á þingi.) Af hverju sagði Þorsteinn ekki fólkinu hvernig það gæti losnað undan okurvöxtunum sem frjálshyggjan hefur kallað yfir þjóðina? Fólkið hefði hugsanlega viljað sitja lengur fram eftir kvöldi við skjáinn til þess að fá einhver ráð sem mundu duga til þess að losna úr þeim greipum sem matarskattur og okurvextir frjálshyggjunnar hafa haldið fólkinu í.
    Ólafur Thors sagði einhvern tímann fyrir langalöngu að það væri tvennt sem formaður Sjálfstfl. mætti aldrei vera. Hann mætti ekki vera þingmaður úr landbúnaðarkjördæmi og hann mætti ekki vera fjármálaráðherra. ( Gripið fram í: Hann var það nú sjálfur samt.) Ólafur Thors hefði sjálfsagt líka sagt hvernig menn ættu ekki að bera sig að þegar samningar standa yfir við aðrar þjóðir ef honum hefði dottið í hug að nokkur maður mundi gera það á þann hátt sem arftaki hans hefur gert hér í kvöld.
    Góðir áheyrendur. Ég held fast við þá skoðun mína að þjóðin eigi annað skilið en að fá stjórnmálamenn inn á sig á fallegu fimmtudagskvöldi. Það ætti að varða við lög. Ég býð ykkur góða nótt.