Leyfi frá störfum vegna umönnunar barna
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls fyrir stuðning þeirra við frv. og erindi þess. Varðandi athugasemdir sem fram komu hjá hv. 4. þm. Reykn. tek ég það fram að þar sem kostur hefur verið á slíku leyfi hafa a.m.k. ekki enn þá mjög margar konur nýtt sér þessi réttindi og geta verið ýmsar ástæður til þess. Og þó að ég telji, og við kvennalistakonur, þetta vera mjög mikilvæg réttindi óttumst við jafnframt að því miður verði það líka þannig hér að það verði ekki á færi allt of margra að geta nýtt sér slíkt launalaust leyfi vegna þess að krafan um framfærslu heimilis hvílir í raun á báðum foreldrum. Hætt er því við að þetta geti orðið efnahagslega erfitt fyrir foreldra því miður. En í von um að það breytist og hagur heimilanna batni er nauðsynlegt að tryggja þessi réttindi þannig að þeim sem geta nýtt sér þau eigi völ á þeim.
    Varðandi réttindi þeirra sem ráða sig í staðgengilsstöðu hljóta þeir að vita það þegar þeir ráða sig að einungis er um að ræða tímabundna ráðningu. Ég veit um tilvik, svo að ég taki nú dæmi af hv. þm., þar sem menn hafa gerst þingmenn en gegnt stöðu hjá ríkinu. Þá hefur verið ráðið tímabundið í stöðu þeirra, aðrir hafa gegnt því starfi meðan þingmennskan varir en vitað að kannski yrði um tímabundið starf að ræða. Ég held þess vegna að það hljóti að vera hægt að leysa þann vanda sem kynni að blasa við þeim sem gengju í staðgengilsstarf ef gert væri ráð fyrir því þegar frá byrjun. Auðvitað þarf að tryggja þeirra réttindi jafnt og þeirra sem víkja úr starfi um ákveðinn tíma.
    Þetta er mál sem þarf að leysa líka í kjarasamningum en ég tek undir með hv. 6. þm. Reykn. að þetta er að sjálfsögðu líka mál þar sem hið opinbera þarf að ganga á undan með góðu fordæmi. Og ég vona, eins og þau tóku bæði fram, hv. þm., að þetta mál fái jákvæða og skjóta meðferð hér í þinginu þannig að það megi verða að lögum á þessu þingi.