Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til að flytja hv. 14. þm. Reykv. sérstakar þakkir fyrir þann áhuga sem hann sýnir framgangi þessa máls sem hér er á dagskrá og tel einnig ástæðu til að þakka honum fyrir að hann skuli setja ofan í við stjórnarliðið og þannig geti þeir, hann og hæstv. fjmrh., sameinast um að knýja þetta mál í gegn og ná þar eðlilegri niðurstöðu því að nauðsynlegt er að hafa góða stjórn en það er líka mjög nauðsynlegt að hafa árvökula og öfluga stjórnarandstöðu.