Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það er nú töluvert um liðið síðan 1. umr. fór hér fram og mun ég því ekki hafa mitt mál mjög langt að þessu sinni þó full ástæða hefði verið til þess. Ég vil þó benda á örfá atriði. Það er í fyrsta lagi það að þau mál sem hér eru til umræðu eru auðvitað mjög mikilsverð og við hljótum að fagna því sem slíku að sú umræða sem hér er skuli fara fram.
    Eitt af þeim atriðum sem hefur orðið mikil aukning í og hefur valdið verulegum vanda er svokölluð umbúðamenning. Við sjáum það að með tilkomu einnota umbúða hefur það vaxið mjög að menn notuðu þær umbúðir ekki aftur. Þetta hefur út af fyrir sig aukið hagvöxt en ekki haft að öðru leyti jákvæð viðhorf nema með því safnast upp verulegt sorp og vandi. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem heyra undir þetta væntanlega ráðuneyti þó að það sjáist ekki enn sem komið er hversu mikið umfang slík starfsemi mundi þýða.
    Ég get nefnt hér ýmis önnur mál sem hér heyra undir en ætla ekki að gera það að svo stöddu en mörgum spurningum er enn ósvarað og hæstv. hagstofuráðherra skilst mér að sé nú ekki hér á landinu því að hann mun taka ráðstefnur erlendis fram yfir það að ræða um þessi mál hér þrátt fyrir það að hæstv. hagstofuráðherra eigi eftir því sem mér skilst að gegna störfum hæstv. umhverfismálaráðherra þegar þessi lög yrðu samþykkt. Það veldur manni auðvitað vonbrigðum að hæstv. hagstofuráðherra skuli ekki hafa meiri áhuga á þessu málefni heldur en þetta og verður að segjast eins og er að það segir manni það að þetta ráðuneyti er auðvitað alveg óþarft fyrst hæstv. tilvonandi ráðherra hefur ekki áhuga á því að hlusta á umræður eða kynna sér málið betur. Ég ætla að vona að okkur gefist tækifæri til að ræða við hæstv. hagstofuráðherra þegar að því kemur að hann hefur tíma til að sinna umræðum um þetta verkefni sem heitir umhverfismál. En hann mun hafa fengið umboð til þess að verða umhverfismálaráðherra. Hæstv. hagstofuráðherra mun að vísu hafa farið út til að hlusta á einhverri erlendri ráðstefnu um umhverfismál að sagt er, en það sýnir auðvitað að hæstv. ráðherra hefur ekki þann áhuga á málinu sem maður mundi ætla að hann hefði og er leitt til þess að vita að við skulum vera að ræða þetta mál hér í þinginu án þess að hæstv. ráðherra sé hér. Það sýnir hvað þetta er einskis vert ráðuneyti. Það þarf ekkert að setja það á laggirnar. Þeim málum er vel skipað undir önnur ráðuneyti og það liggur ljóst fyrir eftir þessa niðurstöðu í dag að það má alveg bíða með að ræða þetta töluvert lengi og helst þarf aldrei að samþykkja þetta ráðuneyti sem sérstakt ráðuneyti og má vel koma því fyrir í skrifstofu einhvers annars ráðherra.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að segja mikið meira núna en ætla að vona að næst þegar við tökum til umræðu um þetta mál verði hæstv. hagstofuráðherra hér svo að hægt verði að ræða við hann og bera fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra þannig að við megum vænta svara.