Gjaldheimtan í Reykjavík
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Þessa fsp. bar fram hv. þm. Sveinn G. Hálfdánarson er hann átti sæti hér á Alþingi í nóvember. Í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1988 kemur fram að gjaldheimtur skulduðu ríkissjóði 74,5 millj. kr. í árslok 1988. Þar af nam skuld einnar gjaldheimtu, þ.e. Gjaldheimtunnar í Reykjavík, 52,2 millj. kr. Við umfjöllun yfirskoðunarmanna upplýsti Ríkisendurskoðun að þessi skuld hefði myndast vegna þess að rekstrarkostnaður Gjaldheimtunnar í Reykjavík væri ekki gerður upp jafnóðum þannig að allur rekstrarkostnaður var dreginn af innheimtufé ríkissjóðs allt árið 1988.
    Í samningi ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar og Sjúkrasamlags Reykjavíkur frá 26. maí 1962 eru ákvæði um svohljóðandi skiptingu kostnaðar: ,,Ríkissjóður og Reykjavíkurborg beri 42,5% af kostnaðinum hvor aðili en Sjúkrasamlag Reykjavíkur 15%.`` Og enn fremur segir í 7. gr. þessa samnings, með leyfi forseta: ,,Samningur þessi er gerður til 5 ára, uppsegjanlegur með árs fyrirvara en sé honum ekki sagt upp framlengist hann um eitt ár í senn.``
    Þessum samningi mun aldrei hafa verið sagt upp og hann hefur verið í gildi í rúm 27 ár þrátt fyrir ýmsar breyttar forsendur á þessum tíma. Því hlýtur að teljast eðlilegt að þessum reksturskostnaði sé skipt upp milli rekstraraðila nokkurn veginn jafnharðan. Ef þessi uppgjörsmáti hefur átt sér stað eins og raun ber vitni, þ.e. Reykjavíkurborg greiði ekki sinn hlut fyrr en komið var fram á yfirstandandi ár, þá hlýtur að vakna spurning um vaxtalega meðferð þessarar innheimtu þar sem öll önnur sveitarfélög verða að greiða sinn hluta jafnharðan. Í ljósi þess sem að framan greinir er borin fram eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh. á þskj. 165:
,,1. Er það rétt að Reykjavíkurborg hafi ekki greitt sinn hluta af rekstrarkostnaði Gjaldheimtunnar í Reykjavík fyrir árið 1988 fyrr en nú á yfirstandandi ári?
    2. Ef svo er, hvers vegna fór slíkt uppgjör ekki fram mánaðarlega? Og hvernig var hagað vaxtareikningi við uppgjörið?
    3. Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að gerður verði nýr samningur milli ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar um rekstur Gjaldheimtunnar í Reykjavík?``