Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Á árinu 1989 hafa tryggingafélögin yfirleitt gefið út vátryggingaskírteini með hefðbundnum hætti og innheimt söluskatt af iðgjöldum þótt vátryggingatímabilið hafi náð að hluta yfir á árið 1990.
    Eins og fram hefur komið hér á hv. Alþingi skrifaði ég bréf 10. nóv. sl. og heimilaði endurgreiðslu söluskatts af vátryggingaiðgjöldum sem greidd hafa verið fyrir tryggingatímabilið eftir 1. jan. 1990 þegar virðisaukaskatturinn kemur í stað söluskatts.
    Í þessu bréfi er óskað eftir því að embætti ríkisskattstjóra sjái um framkvæmd þessarar ákvörðunar. Hún felur það í sér að hluti iðgjaldaskírteina sem út verða gefin á árinu 1989 eða hafa verið gefin út og tilheyra vátryggingatímabili á árinu 1990 verði án söluskatts.
    Nánar hefur verið kveðið á um það að endurgreiðslum verði hagað sem hér segir:
    1. Að söluskattur af þeim hluta iðgjalda sem er vegna tímabilsins er nær til ársins 1990 skal reiknaður út og bakfærður hafi hann áður verið reiknaður og færður. Hin reiknaða fjárhæð söluskattsins skal annars vegar færð vátryggingatökum til tekna og hins vegar til lækkunar á söluskattsskuld vátryggingafélaga. Endurgreiða skal vátryggingatökum inneignir þeirra vegna þessarar bakfærslu eigi síðar en 15. des. 1989.
    2. Vátryggingafélög skulu haga skilum á söluskatti á árinu 1989 og 1990 eftir þeim reglum sem í gildi eru, sbr. bréf fjmrn. um það efni frá 7. maí 1976. Við skil á söluskatti fyrir októbermánuð 1989 með gjalddaga í desember er vátryggingafélagi heimilt að draga þann söluskatt sem bakfærður hefur verið skv. 1. tölul. frá þeim skatti sem skila ber vegna októbermánaðar. Ógreiddur söluskattur miðað við októberlok eftir þessi skil verður því söluskattur á óinnheimtum iðgjöldum eftir að skattur vegna iðgjalda ársins 1990 hefur verið bakfærður. Reynist hinn bakfærði söluskattur hærri en sá skattur sem innheimtur er í október skal ríkissjóður greiða vátryggingafélagi mismuninn eigi síðar en 20. des. 1989.
    Berist vátryggingafélagi greiðsla á söluskatti af iðgjöldum vegna ársins 1990 eftir söluskattsskil samkvæmt því sem hér hefur verið sagt skal skatturinn endurgreiddur tryggingartaka svo fljótt sem við verður komið og skal endurgreiðslan jafnframt dregin frá söluskatti á næsta gjalddaga.
    Það er enn fremur spurt um það hvort á endurgreiðslurnar verði reiknaðar verðbætur eða vextir. Svarið við því er að það verður ekki gert í samræmi við þá viðteknu venju sem verið hefur þegar endurgreiðslur af þessu tagi koma til framkvæmda.
    Að öðru leyti en ég hef hér greint skulu vátryggingafélög haga bókhaldi sínu þannig að innheimta söluskattsins, skil á honum, bakfærsla hans og endurgreiðslur verði á þann veg að skattyfirvöld geti á hverjum tíma rakið þær fjárhæðir sem tilgreindar eru á söluskattsskýrslum og yfirlitum til

bókhaldsins og þeirra bókhaldsgagna hjá vátryggingafélögunum sem þessar endurgreiðslur eru byggðar á.