Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Þessi fsp. er borin fram í nokkru framhaldi af umræðu sem ég vakti hér á hv. Alþingi fyrir nokkru síðan um endurgreiðslu söluskatts af tryggingaiðgjöldum. Þá var þetta mál búið að velkjast í kerfinu í allmarga mánuði og staðreyndin er sú að tryggingafélögin gerðu sér að sjálfsögðu ljóst að lögin áttu að falla úr gildi um áramót. En trú þeirra á kerfinu var nú ekki meiri en svo að þau upphófu strax bréfaskriftir og viðtöl við hæstv. ráðherra og ríkisskattanefnd og fengu aldrei svör við þessu þegar fyrirspurnir þeirra voru lagðar fram.
    Í mínum huga er það alveg ljóst að það er ekki hægt að varpa sökinni yfir á tryggingafélögin í þessu tilfelli og í mínum huga er það líka ljóst að þeir aðilar sem hafa ofgreitt, ólöglega að mínu viti og vegna þess að svara var vant frá ríkisvaldinu, eiga rétt á sömu kjörum á sinni inneign og ríkið tekur af skattskuld þegnanna í þjóðfélaginu. Það þýðir ekki að varpa þessari sök yfir á tryggingafélögin. Þau gerðu það sem fyrir þau var lagt. Munnlega af báðum þessum aðilum var sagt: Það er ekki ljóst hvernig með þessi mál verður farið. Endurgreiðslan á að sjálfsögðu að fara fram fullverðtryggð og með vöxtum á sama hátt.