Niðurskurður á riðufé
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég hef litlu við að bæta, ég tek það fram að hvað fagleg atriði snertir eða sérfræðileg styðst ég að sjálfsögðu við álit dýralækna og fer eftir tillögum sauðfjársjúkdómanefndar í þessu máli og þessum efnum almennt og ég tel mig þess ekki umkominn, ég tel mig ekki hafa til þess þekkingu að hverfa frá því að fylgja ráðleggingum sérfræðinga á þessum sviðum og það á líka við um þetta tilvik. Ég held að það liggi í hlutarins eðli þegar farið er út í slíkar almennar aðgerðir eins og hér var gert, á grundvelli sérstakrar ríkisstjórnarsamþykktar um þessa aðgerð, verði að setja sér almennar vinnureglur sem síðan verði að fara eftir. Að láta túlkun eða mat á aðstæðum ráða í hverju einstöku tilviki yrði í fyrsta lagi óhemjulega vandasamt og flókið verk. Í öðru lagi er ég ansi hræddur um að upp kæmu ekki minni, og sennilega miklu meiri og erfiðari, vandamál sem yrðu þá fullyrðingar um eða ákærur um að menn hefðu verið beittir mismunun af slíkum toga. Ég held því að að öllu samanlögðu skoðuðu sé heppilegast að reyna að setja sér, eins og sauðfjársjúkdómanefnd og ráðuneytið hafa í raun og veru gert að tillögum dýralækna í þessum efnum, ákveðnar almennar reglur sem farið verði eftir og verði grundvöllur aðgerða. Það eru líka fordæmin sem við styðjumst við í þessum efnum af þeim toga sem skást hafa gefist í þessum vandasömu málum.