Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti, athugasemdin skal vera örstutt. Ég sé ekki að neinn misskilningur sé á milli borgarstjórans í Reykjavík og okkar forseta sem áttum með honum fund, og ég harma nú að samforsetar mínir skuli ekki vera hér í salnum til að vera vitni um þann fund. Þó vil ég taka fram að hæstv. forseti hér í Sþ. var, ef ég man rétt, á þeim fundi. Það var einmitt þetta sem fram kom að engin ályktun lægi fyrir um það að borgin hygðist kaupa Hótel Borg. Síðan var einmitt rætt um þetta atriði, að auðvitað yrði Alþingi að sækja um breytingu á nýtingu hússins til byggingarnefndar og borgarstjóri sagði þá, og ég hef ótal vitni að þeim ummælum, að borgin mundi ekki leggja stein í götu Alþingis ef til þess kæmi. Jafnframt kom fram á þessum fundi að allir viðstaddir voru sammála um það að dagar þessa húss sem hótels væru taldir. Það getur vel verið rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að borgaryfirvöld vildu gjarnan að þetta væri ekki svona, en niðurstaða þessa fundar var sú að um það væri ekkert að ræða að bjarga húsinu fyrir hótelrekstur. Og síðan gerðist það, og það er atriði sem kom til eftir þennan fund og í framhaldi af honum, og ég bið hv. 8. þm. Reykv. að hlusta vel á það: Skrifstofustjóri Alþingis kom til forseta Sþ. með skilaboð frá Jóni Tómassyni borgarlögmanni, því að við höfðum beðið borgarstjóra að láta okkur vita hvort eitthvað nýtt kæmi fram sem hindraði frekari framgang málsins. Og skrifstofustjóri Alþingis bar þau skilaboð frá Jóni Tómassyni, allnokkuð löngu síðar, að það mundi ekkert nýtt koma fram. Þannig stæðu þessi mál. Borgin hygðist hvorki kaupa né styrkja neinn rekstur í húsinu og ekki fremur en um var talað leggja stein í götu Alþingis þegar til kæmi umsókn um breytta nýtingu hússins, þannig að ég tel að við höfum haft töluvert fyrir okkur í því að borgaryfirvöld mundu ekki beita sér í þessu máli gegn hinu háa Alþingi. Ég vænti þess að hæstv. forseti Nd. staðfesti þessi orð mín því við vorum öll saman í þessum málarekstri, þannig að ég sé ekki að þar sé um neinn misskilning að ræða. Ég skal svo sjá til þess að borgarstjórinn í Reykjavík fái afrit af þeim orðum sem hér hafa fallið af minni hálfu.