Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um frv. sem hér er til umræðu en sé mig knúna til að víkja örlítið að þeim þætti sem fjallar um vaxtabætur og kannski þá sérstaklega þau orð sem hér féllu af hálfu hv. 1. þm. Reykv. þar sem hann ræddi um orðnotkunina ,,afturvirk``, fyrst og fremst, sem hann virtist skilja á annan hátt en margir aðrir. Það má vel vera að hans skilningur á því orði sé réttur, en það breytir ekki því að þeir sem fjölluðu um vaxtabótafrv. og húsnæðisfrv. í fyrra, þar sem rætt var um húsbréfakerfið, höfðu annan skilning á því orði en kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. Hann vitnaði til orða minna í umræðum um þetta mál frá 8. maí sl., að því er ég held, þegar talað var um þetta ákvæði og sagði ég m.a. um hækkun vaxta og vitnaði til orða hv. 17. þm. Reykv. sem fjallaði um þetta mál þá, með leyfi forseta:
    ,,Það kom fram í máli hv. 17. þm. Reykv. hér annaðhvort á föstudag eða laugardag að hann taldi þetta mjög misráðið og fannst mikið óréttlæti að vextir á lánum til þeirra sem væru nú þegar búnir að fá lán mundu ekki hækka einnig ef vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins mundu hækka. Því er til að svara að auðvitað er aldrei hægt að fullnægja öllu réttlæti í þessum efnum, en það verður að muna eftir því að fólk er nú þegar búið að gera áætlanir miðað við þá vaxtabyrði sem það hefur nú, 3 1 / 2 % vexti, og það væri að koma aftan að fólki ef vextirnir væru hækkaðir afturvirkt. Þannig að auðvitað verður það meiri greiðslubyrði sem kemur á það fólk sem fær lán núna, en ég tel alveg ófært og Kvennalistinn taldi það ófært að vera að hækka vexti á þegar teknum lánum.``
    Þetta voru þau orð sem ég reikna með að hv. 1. þm. Reykv. hafi verið að vitna til þegar hann taldi mig hafa misskilið orðið ,,afturvirkt``. Það er ekki rétt, eins og hann hélt fram, að ég hafi skilið það þannig að ef vextir hækkuðu á þegar teknum lánum þýddi það að fólk þyrfti að greiða vexti mörg ár aftur í tímann. Það hefur hvergi komið fram og ég skil ekki að nokkur maður hafi skilið þetta þannig. Alla vega gerði ég það ekki og ég vona að hv. 1. þm. Reykv. hafi ekki haldið það því að það kom a.m.k. ekki fram í umræðunni í fyrra og að hann sé að uppgötva það fyrst núna hvað þetta samkomulag okkar fól í sér. Í samkomulaginu, 3. lið, stendur, með leyfi forseta:
    ,,Vextir af lánum sem úthlutað hefur verið úr Byggingarsjóði ríkisins verða ekki hækkaðir þegar húsbréfakerfið kemst í framkvæmd.``
    Og í nál. fjh.- og viðskn. á þskj. 1033 frá síðasta löggjafarþingi stendur: ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækkun vaxta hjá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki afturvirk,,, þannig að ég held að enginn hafi skilið þetta á þann veg sem hv. 1. þm. Reykv. virtist halda eftir orðum hans hér áðan. Þetta vildi ég leiðrétta.
    Það má vel vera að fólk telji það siðlaust að hækka ekki vexti á öllum lánum eins og fram kom í máli þeirra sem hér hafa talað, hv. 1. þm. Reykv. fyrst, en síðan hafa fleiri komið hér á eftir og tekið

undir það álit. Við höfum litið þannig á að það væri verið að koma aftan að fólki sem búið er að gera sínar áætlanir miðað við ákveðnar vaxtagreiðslur. Ég vil vekja athygli á því að í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að fólk komi til Húsnæðisstofnunar og leggi fram sínar áætlanir um það hvernig það ætlar að greiða af lánum. Það er talað um það að fólk verði að koma til ráðgjafarstöðvarinnar og leggja fram áætlun um það hvernig það hyggist greiða af þessum lánum og þar hlýtur að vera tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem tekna. Síðan á skyndilega annar aðilinn, Húsnæðisstofnun, að hækka vextina einhliða. Hvað gerist þá með allar áætlanir fólks? Þær hljóta náttúrlega að hrynja til grunna auk þess sem það hefur komið fram hér áður á Alþingi að ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar hefur neitað fólki um lán á þeim forsendum að það muni ekki ráða við afborganir af lánunum og þar af leiðandi hlýtur að gerast nákvæmlega það sama núna. Ef vextir eru hækkaðir á lánum þar sem fólk hefur gert sínar áætlanir hlýtur það að leiða af sér að þetta fólk geti hugsanlega ekki ráðið við lánin. Við kvennalistakonur metum það því þannig að þó að sjálfsögðu sé það óréttlæti að einhverjir þurfi að greiða hærri vexti af sínum lánum sé það meira óréttlæti af hálfu húsnæðismálastjórnar eða ríkisvaldsins að hækka vexti einhliða af lánum sem þegar eru tekin. Ég vil benda á að eldri húsnæðislán eru sum með 2,25% vöxtum og það er ekki ætlunin að breyta þeim. Það er ekki hægt samkvæmt skuldabréfunum að hækka þau lán. Það virðist vera mismunandi skilningur fólks á því hvernig þessu skuli háttað. Okkar skilningur er þessi. Og þá er ég ekki að tala um að ég skilji það þannig að fólk þurfi að greiða vexti af lánum frá því 1984 og þurfi þá e.t.v. að greiða hundruð þúsunda í vexti þó vextir hækki af þegar teknum lánum, eða ,,afturvirkt`` eins og margir kalla það.
    Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegur forseti, í þessari umræðu, en af því að spurt var einnig um hversu vel ríkisstjórnin hefði staðið við það samkomulag sem gert var vil ég aðeins víkja að því. Ef við víkjum að árinu í ár því það er nú að verða liðið og þar af leiðandi er auðveldara að taka á
því, þá stendur, með leyfi forseta: ,,Á árinu 1989 verði 100 millj. kr. raunaukning á framlögum auk þess sem felst í bréfi ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambandsins í tengslum við kjarasamninga 1. maí 1989,,, en ég bendi á að þar var gert ákveðið samkomulag. Mig minnir að það hafi falist í því að það ætti að byrja á 200 íbúðum á þessu ári og þetta var sem sagt aukning auk þess. Í endurskoðaðri áætlun í frv. til fjárlaga frá 1989 er ríkisframlagið óbreytt þannig að það hefur greinilega ekki verið staðið við þetta atriði. Síðan er líka talað um í samkomulaginu að árið 1990 verði 500 millj. kr. raunaukning á framlögum til félagslega íbúðalánakerfisins. Þar er einungis talað um að það verði raunaukning á framkvæmdafé. Ekki er búið að fjalla um fjárlagafrv. þannig að það er erfitt að meta nákvæmlega núna hverjar efndirnar verða, en

samkvæmt fjárlagafrv. er framlag ríkisins í Byggingarsjóð ríkisins einungis 150 millj. en í félagslega íbúðalánakerfinu --- samkvæmt fjárlagafrv., ég tek það fram, --- er lækkun á framlagi ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna, en það verður aukning á framkvæmdafénu samkvæmt frv., þannig að það er spurning hver niðurstaðan verður.
    Í sambandi við einn punkt enn þá er talað um að fyrir 1. nóv. verði lokið endurskoðun á félagslega húsnæðislánakerfinu. Sú nefnd hefur að því er mér skilst ekki enn lokið störfum þannig að það hefur alla vega ekki orðið fyrir 1. nóv. hvernig svo sem þeirri nefnd líður. Mér er kunnugt um að hún starfar enn. Það er því alveg rétt að það hefur ekki að öllu leyti verið staðið við þetta samkomulag. Það er ákaflega erfitt fyrir kvennalistakonur að standa upp og rífa hár sitt út af því. Ég veit ekki hvaða aðferð við eigum að beita. Ég reyni kannski að fara í smiðju til hv. 1. þm. Vesturl. til að læra hvaða aðferðum á að beita til að fá sínu framgengt, en það er ákaflega erfitt þegar verið er að gera samkomulag þar sem um er að ræða --- ja, hvað á maður að kalla það, gagnkvæmt traust þegar síðan er gengið á svig við það sem samið er um.
    Hins vegar vil ég vekja athygli hv. 1. þm. Reykv. á því að við höfum ekki staðið að né samþykkt hækkun vaxta. Fulltrúi Kvennalistans í húsnæðismálastjórn greiddi atkvæði gegn því þannig að sjómannskonan sem hv. þm. minntist á áðan þurfti ekki að greiða hærri vexti vegna þess að Kvennalistinn hefði samþykkt hækkun vaxtanna. Mér finnst það ósanngjarnt að fullyrða hér úr þessum ræðustól að það hafi verið vegna samþykktar Kvennalistans við ríkisstjórnina að hún hafi þurft að greiða hærri vexti núna af sínu láni en annars hefði verið.