Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem mig langar til að gera sérstaklega að umræðuefni við 2. umr. fjárlaga. Annað atriðið víkur að Háskólanum á Akureyri. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar brtt. komu fram og það mál hafði ekki verið afgreitt. Vil ég vænta þess að það mál fái viðunandi afgreiðslu í fjvn. þannig að Háskólinn geti starfað. Ég tel auk þess eðlilegt að smáræði verði varið til stúdentagarða á Akureyri eins og gert hefur verið undir slíkum kringumstæðum í sambandi við Félagsstofnun stúdenta hér í Reykjavík. Ég þarf ekki að ræða þýðingu Háskólans á Akureyri. Þetta er merkasta byggðamál sem tekið hefur verið upp hér á landi á síðustu áratugum og einsýnt að sjávarútvegsdeildin á vel heima norður í Eyjafirði þar sem matvælaiðnaður á sér langa sögu í hjarta þess fjarðar þar sem 10% þjóðarinnar hafa bólfestu á svæðinu frá Ólafsfirði til Húsavíkur.
    Hitt atriðið sem ég ætlaði að víkja að er mjög annars eðlis. Í grg. með frv. um virðisaukaskatt sem er til umfjöllunar í fjh.- og viðskn. Ed. kemur fram á bls. 6 að heildaráhrif skattkerfisbreytingarinnar séu þau að ríkissjóður tapi 2 milljörðum í tekjum. Nú fengum við í fjh.- og viðskn. í morgun nýja útreikninga frá fjmrn. eftir að Verslunarráðið hafði lagt sín skjöl fram og við höfðum beðið hagdeild fjmrn. að bera saman útreikninga Verslunarráðs og þá útreikninga sem okkur voru látnir í té af hagdeild fjmrn. Í þessum útreikningum kemur fram að heildaráhrif á afkomu ríkissjóðs, eins og þau eru nú metin af fjmrn., eru nánast engin. Eins og þetta er skrifað upp af hagdeild fjmrn. er gert ráð fyrir að tekjur af virðisaukaskatti verði 37,8 milljarðar, tekjur af söluskatti 39,8 milljarðar og þar skakki 2 milljörðum kr. Endurgreiddur söluskattur samkvæmt gamla kerfinu var 1,6 milljarðar, bætt innheimta er hér áætluð 400 millj. en síðan segir að innheimta jöfnunargjalds verði hálfum milljarði minni en vænta mætti ef söluskattskerfið væri
áfram við lýði. Það sem vekur athygli m.a. í þessum upplýsingum fjmrn. er að í grg. með frv. til laga um breytingar á virðisaukaskatti sem fyrrv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, lagði fram var gert ráð fyrir því að bætt innheimta vegna skattkerfisbreytingar næmi 1 milljarði kr. Nú hefur þessi fjárhæð lækkað í 400 millj. --- 600 millj. kr. Samt sem áður er það mat fjmrn. að skekkjan sé 500 millj. kr. með því að talið er að ríkissjóður tapi 500 millj. kr. á jöfnunargjaldi sem ég tel út af fyrir sig hæpið og minni á að ríkisstjórnin hafði skuldbundið sig til þess í maímánuði sl. að leggja jöfnunargjaldið niður.
    Ég vil svo að síðustu aðeins taka það fram, hæstv. forseti, að það skakkar einhverjum hundruðum milljóna hvaða áhrif hagdeild fjmrn. eða þá Samband ísl. sveitarfélaga telur að skattkerfisbreytingin hafi á afkomu sveitarfélaganna. Eftir þeim upplýsingum sem fyrir liggja frá sveitarfélögunum, ef þær eru réttar, má segja að sú nettóskattheimta, sem hæstv. fjmrh. ætlar

að ná fram með skattkerfisbreytingunni, með frv. um tekjuskatt upp á 1,4 milljarða, með því að leggja á nýjan bensínskatt, 350 millj., og með því að leggja 250 millj. á orkufyrirtæki, nemi 2 milljörðum nettó. Eins og skattkerfisbreytingin var hugsuð upp á 26% og lögð fyrir er öldungis ljóst að ekki var um neinn jöfnuð að ræða. Það er komið í ljós að svo alvarlegar villur eru í tekjuútreikningum hagdeildar fjmrn. að óhjákvæmilegt er fyrir fjvn. og fyrir fjh.- og viðskn. að afla sem fyllstra gagna áður en 3. umr. fjárlaga fer fram og áður en frv. um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, tekjuskatt og aðra slíka skatta verður lagt fram. Þessi eina skekkja sem hér liggur fyrir, sem viðurkennd er af hagdeild, upp á 1,5 milljarða kr. er nægileg til þess, úr því að skekkjan fannst, að hæstv. fjmrh. getur stungið tekjuskattsfrv. í vasann og staðið jafnréttur eftir.