Nefndastörf
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Stefán Guðmundsson:
    Herra forseti. Í sjálfu sér þurfum við ekki að vera hissa þó svona umræða fari fram eins og hér er. Ég held að margt þurfi að laga í vinnubrögðum Alþingis. Þetta er nú ekki í fyrsta og sjálfsagt ekki í seinasta skiptið ef ekki verður að gert að við lendum í slíkri kreppu eins og við erum í í dag. Ég hef nú sagt áður og get sagt það hér úr þessum stól einnig að ég held að þessi tími sé býsna dýr fyrir þjóðina þar sem þingmenn þurfa að leika jafnhratt í tímapressu og við þurfum að gera þessa síðustu daga og þurfum ætíð að gera rétt fyrir jól. Það er mikill galli á að svo þurfi að vera.
    Hv. þm. Halldór Blöndal vék hér að störfum sjútvn. Það er erfitt að tala til hans því hann er ekki hér en ég verð þó rétt að skýra a.m.k. þingmönnum frá því sanna og rétta í málinu. Sjútvn. Ed. er ætlaður einn klukkutími á viku til starfa. Ég hef fundið að því að sjútvn. Ed. skuli vera ætlaður tíminn milli kl. 1 og 2 til þess að starfa á miðvikudögum. Ég held að allir menn sem hafa eitthvað verið hér og starfað að sjávarútvegsmálum hljóti að skilja það og vita að slík nefnd þarf miklu lengri tíma en hér er gert ráð fyrir. En nefndartími okkar er sem sé kl. 1 á miðvikudögum og þess vegna var fundur í nefndinni boðaður á þessum tíma. Síðan gerðist það í gær að ákveðið er að boða fund í Sþ. til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu um fjárlög. Þá fór ég fram á að þetta yrði tekið til athugunar og um það varð síðan samkomulag, að þessum fundi yrði seinkað og hann var haldinn kl. 2.30 í dag. Það mál sem þar var á dagskrá og hv. þm. vék hér að var í sambandi við breytingu á lögum um Fiskveiðasjóð og að ég hefði hafnað því að sýna honum ákveðna tillögu. Það sanna í málinu er að ég gat ekki sýnt honum tillöguna. Ég var alls ekki búinn að ganga frá þessari tillögu og skrifa hana á blað. Ég sagði honum hins vegar hugsunina í tillögunni og hvað við værum að fara. Á þennan fund nefndarinnar mætti annar fulltrúi Sjálfstfl. sem situr í nefndinni með okkur og stendur að
því nál. sem við gengum frá í sambandi við þetta mál. Þannig er nú það rétta í þessu máli.
    Það má líka segja, eða ég skildi a.m.k. málið svo, að menn hefðu verið aðeins að slaka á þingfundum á morgun í Sþ. Ég skil þá ekki það sem sagt er, ef ég heyrði það ekki rétt, að forseti hefði verið að tilkynna hér í Sþ. áðan að ákveðið hefði verið að fundur í Sþ. byrjaði ekki fyrr en kl. 12 svo nefndir hefðu svigrúm til þess að starfa í fyrramálið. Ég skildi það svo. Það er rétt að sjútvn. hefur þurft að boða fund kl. 8 í fyrramálið til þess að fjalla þar um ákveðið mál og það mun hún gera. Sá fundur hefur verið boðaður. Sjútvrh. kom hins vegar að máli við formenn sjávarútvegsnefnda beggja deilda og óskaði eftir sameiginlegum fundi sjávarútvegsnefnda þingsins til þess að kynna þar ákveðið mál og ákveðið var að koma þeim fundi á til þess að nýta þennan tíma sem hæstv. þingforseti var að tilkynna okkur um kl. 11 á morgun, beggja deilda.

    Nú hefur hins vegar orðið sú breyting á og ég held að hæstv. sjútvrh. hafi fallist á það að ósk ákveðinna nefndarmanna að sá fundur yrði ekki haldinn á morgun kl. 11, heldur yrði hann færður til og haldinn á föstudag kl. 9. Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal hafi frekar getað sinnt þessu máli á föstudegi en fimnmtudegi og því mun hafa verið orðið þar við ósk hans.
    En ég verð, úr því að ég er kominn hér upp, að segja frá því að ég hef áhyggjur af þessum störfum, hvernig þetta gengur. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir vék hér áðan að nefndarstarfi í heilbr.- og trn. þar sem við erum með gífurlega stórt og erfitt mál viðfangs. Við erum nánast á hrakhólum þar með tíma hvernig við eigum að koma þeim málum áleiðis. Þess vegna segi ég að hér er um slæmt skipulag á þinginu að ræða. Stórum hópi þingmanna sem starfar bæði í fjh.- og viðskn. deilda og fjvn. er gersamlega kippt út úr störfum annarra nefnda fram að áramótum. (Gripið fram í.) Ja, a.m.k. nefnda. Þetta er auðvitað óviðunandi og ég held nú að þingflokkarnir sjálfir eigi að athuga slíkt þegar fólk er sett til starfa í nefndum. Það sé tekið tillit til þess og sé tekið mið af því. Ég held að ég hafi skýrt þessi sjónarmið hvað viðkemur starfi sjútvn. og hún hefur ekki það sem af er vetri gengið freklega á tíma þingmanna.