Bifreiðagjald
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Í þessu frv. er lögð til hækkun á bifreiðagjaldi umfram almenna verðuppfærslu og umfram heimildir. Sú sérstaka hækkun sem hér um ræðir mun, ef frv. nær fram að ganga, skila 550 millj. kr. í ríkissjóð. Þetta er einn liður í því að afla ríkissjóði aukinna tekna í því skyni að mæta auknum útgjöldum og rétta af halla.
    Í upphaflegum tillögum ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að hækkun bifreiðagjalds tengdist umhverfisvernd og væri vel ef reynt væri með stýrandi sköttum að stemma stigu við síaukinni bílanotkun með öllu því sem henni fylgir í kostnaði og ekki síður mengun. Nú hefur þeim rökum verið vikið til hliðar. Tilgangurinn var sem sagt aldrei göfugri en sá að ná auknum tekjum þó að annað væri látið í veðri vaka, enda gefur skatturinn sjálfsagt meira með þessu móti.
    Það er athyglisvert að í rökum hæstv. fjmrh. eru hækkun tekjuskatts og álagning virðisaukaskatts sífellt spyrtar saman. Er það gert í því skyni að láta í veðri vaka að í raun sé ekki verið að hækka skatta. Hækkun eins skatts sé vegin upp með lækkun annars. Síðan er reiknað fram og til baka þar til hin opinbera útkoma er sú að flestir græði, þ.e. að tekjuskattshækkunin sé í raun lækkun hjá lág- og meðaltekjufólki.
    Í raun er blekkingavefurinn í útreikningum fjmrn. svo þunnur að flestir sjá í gegnum hann, en það fer ekki hjá því fyrst verið er að spyrða skatta saman með þessu móti að maður spyrji: Því er þessi bifreiðaskattur aldrei nefndur í því sambandi? Hann er þó hluti af heildarskattbyrði og vegur ekkert smátt þar. Í það minnsta þori ég að fullyrða að það sé í engu fráleitara að áætla að fleiri eigi bíl og muni því bera þennan skatt en að allir einstæðir foreldrar og hjón eigi tvö börn, annað undir 7 ára aldri.
    Næst þegar hæstv. fjmrh. gefur út fréttatilkynningu, sem hlýtur að verða mjög bráðlega ef marka má pappírsflóðið sem bylur á pósthólfum þingmanna, væri vel við hæfi að hafa fyrirsögnina: Eru útreikningar fjmrn. villandi? Sýna svo fram á að svo væri með því að taka bifreiðagjaldið inn í útreikninga. Kvennalistinn mun spyrja um það í fjh.- og viðskn. hve mikið þessi hækkun auki á heildarskattbyrði almennings.