Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Föstudaginn 15. desember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla sem er í öllum meginatriðum samhljóða núgildandi lögum um sama efni sem voru tímabundin og falla úr gildi um næstu áramót. Þessi lög um uppboðsmarkaði hafa nú verið í gildi í tæplega þrjú ár. Þegar þau voru sett snemma árs 1987 voru skiptar skoðanir um málið og þótti rétt að lögin giltu aðeins tímabundið þannig að af þeim fengist nokkur reynsla með það í huga að framlengja þau síðar í ljósi reynslunnar. Það verður að telja að þessi nýbreytni hafi gefist vel og stigið hafi verið rétt skref á sínum tíma þegar farið var út á þessa braut.
    Mál þetta er hv. deildarmönnum það vel kunnugt með því starfi sem hefur farið fram á þessum mörkuðum sem allir hafa fylgst með að ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að rifja það sérstaklega upp. Ég vildi leggja á það áherslu við sjútvn., sem fær þetta mál til meðferðar, að reynt verði að koma því til leiðar að frv. nái fram að ganga fyrir jólaleyfi af þeim ástæðum sem ég áður greindi að lögin falla úr gildi um næstu áramót. Hér er aðeins verið að leggja til að þau verði framlengd en þó án tímamarka í ljósi þeirrar reynslu sem nú er fengin.
    Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.