Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Föstudaginn 15. desember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. tel ég, þótt ég vilji nú ekki fullyrða um þetta mál, að í flestum þessum löndum gildi sérstök lög um starfsemi sem þessa þar sem eru sett annars konar skilyrði en um margan annan atvinnurekstur. Þannig að starfsemi sem þessi hefur þar sérstöðu.
    Ég vil ekki fullyrða um hvort einhverjar breytingar þurfi að verða þarna á, en það er mín skoðun að ekki komi til greina að slaka á þessum skilyrðum sem ég tel að muni standast í ljósi þess að í hinum löndunum eru jafnframt annars konar skilyrði um uppboðsmarkaði en gilda um atvinnurekstur almennt. Ég lít svo á að að því er varðar samstarf EFTA og Efnahagsbandalagsins og okkar við fríverslunarsvæði í Evrópu, þá sé fyrst og fremst verið að tala um þær reglur sem varða almennan atvinnurekstur en þar séu vissulega undantekningar á eins og um starfsemi sem þessa.