Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim báðum, hæstv. ráðherrum, fyrir svörin, einkum og sér í lagi þó hæstv. viðskrh. sem segir að hér hafi einungis verið um viljayfirlýsingu að ræða og könnun á því hvort það gæti verið hagstætt fyrir Landsbanka Íslands að kaupa bankann. Hann mundi leita eftir öllum upplýsingum um hag bankans og kanna það væntanlega, og ég efast ekkert um að hann geri það áður en hann beitir, eða lítur til, 50. gr. viðskiptabankalaga, en þar hefur hann ekki bara heimild heldur skyldu til að leggja fram sitt álit á því hvort slík kaup geti farið fram og eigi að fara fram. Ég þakka honum fyrir það.
    Hitt held ég að sé á algjörum misskilningi byggt að ég hafi verið með einhver ósæmileg orð og síst þá í garð ráðherranna. Ég var ekki að tala við þá ef þeir hafa skilið það þannig. Ég sagði að ég héldi að það ætti að leita eftir ríkisábyrgð á erlendum lánum, erlendum skuldum Sambands ísl. samvinnufélaga, og það teldi ég óheiðarleg ráð. Þau yrðu þá opinber, en óheiðarleg gætu þau verið samt. Að ráðherrunum dróttaði ég engu mér vitandi. Hafi ég mismælt mig bið ég þá að sjálfsögðu afsökunar. En það hljóta auðvitað að vera óheiðarleg ráð ef svo færi að einhverjir kröfuhafar á ákveðið fyrirtæki ættu að sitja fyrir öðrum með þessum hætti og auðvitað verða íslenskar bankastofnanir að búa við sama rétt og erlendar. Misskilningurinn kann að hafa byggst á þessu.
    Að því er varðar orð hæstv. fjmrh., þá viðurkennir hann, með því að víkja ekki sérstaklega að því, að ég heyrði það rétt að mestu munaði um í endurskipulagningu Sambandsins sölu Samvinnubankans. Og þar sem hann sagði það hér að búið væri að selja Samvinnubankann, og ég gat ekki skilið það öðruvísi, var alveg eðlilegt og nauðsynlegt og sjálfsagt að ræða málin hér til botns. Hitt skil ég mjög vel að hæstv. viðskrh. vilji ekki upplýsa um þessar tölur
þegar hann segir okkur hér og þar með alþjóð að það sé alls ekki búið að selja bankann og heldur ekki kaupa hann. Það er allt í burðarliðnum ef það verður þá einhvern tíma barn úr þessu sem ég efast um að geti orðið. Mér sýnist nú allt málið vera þannig vaxið og þannig undirbúið að það geti varla til þess komið að Landsbankinn kaupi Samvinnubankann og tel ég það vel farið miðað við allar aðstæður en ekki verr farið ef þessum ósköpum linnir nú og menn horfast í augu við raunveruleikann og við fáum spilin á borð.