Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegur forseti. Án þess að blanda mér inn í deilur um samkomulag um það sem hér skuli fram fara til jólahalds kem ég hér upp til að mótmæla við forseta sameinaðs þings því sem haft var eftir forsetanum í fjölmiðlum í kvöld, þ.e. í Ríkisútvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé einsdæmi í þingsögunni, að forseti sameinaðs þings komi í fjölmiðla til að lýsa því fyrir þjóðinni hverjir það séu hér á Alþingi sem dragi lappirnar, sem séu ekki samstarfshæfir. Meira að segja sé það maður úti í bæ, borgarstjórinn í Reykjavík, sem stjórni því hvernig sjálfstæðismenn starfi á Alþingi.
    Það er svo margt sem hefur verið að gerast að undanförnu sem við sem höfum verið hér alldrjúgan tíma þekkjum ekki og höfum ekki upplifað áður. Þetta er eitt af því. Ég kannast ekki við það í þau 30 ár sem ég hef hér setið að forseti Alþingis taki sig fram um það að gerast leiðtogi í fjölmiðlum, í fréttum meiri hlutans á Alþingi. Er hann þó ævinlega kosinn af meiri hlutanum.
    Ég vil ekki sitja undir því sem sagt var í útvarpinu í kvöld. Ég hefði ekki haft við það að athuga þótt hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., hefði sagt eitthvað í þessum dúr. Hann er pólitískur forustumaður sinna manna og það eru þeir, formenn þingflokkanna, sem fara hér til viðræðna við forseta þingsins til þess að reyna að ná fram því verklagi sem menn vilja hafa núna síðustu daga fyrir jól.
    Davíð Oddsson borgarstjóri, hvers vegna er hann nefndur? Hvers vegna hafði forsrh. ástæðu til þess að skrifa honum bréf? Er það ekki einmitt eitt af því sem við sjálfstæðismenn, eins og skýrt kom fram hjá formanni Sjálfstfl. í sjónvarpinu í kvöld, erum ekki ásáttir með og munum ekki samþykkja að tveimur til þremur dögum fyrir jól verðum við látnir brjóta það samkomulag sem er grundvöllur þeirrar löggjafar sem sett var hér á Alþingi um verkaskiptingu ríkisins og sveitarfélaganna. Hvers vegna skyldi formaður Sambands ísl.
sveitarfélaga hafa verið hér í þinghúsinu í dag til viðræðna við alþm.? ( Fjmrh.: Hann er í Sjálfstfl.) Hann er í Sjálfstfl., það er alveg hárrétt, og þekkir hæstv. fjmrh. vel til þess, búandi á Seltjarnarnesi og vilja ekki vera annars staðar en þar sem forusta Sjálfstfl. er. En hann var einmitt kominn hér til að ræða um þá hluti, ræða um þau samningsbrot sem hæstv. fjmrh. ætlar að standa fyrir hér seinustu dagana fyrir jól, einmitt þess vegna. Og ég get sagt honum það, hæstv. fjmrh., að því miður er forusta sjálfstæðismanna ekki í öllum sveitarfélögum í mínu kjördæmi, en það breytist nú. Ýmsir þeirra sem þar eru og m.a. úr hans eigin flokki hafa látið í sér heyra þar sem þeir hafa ekki viljað sætta sig við það sem er hér að gerast. Og hæstv. forseti kemur fram fyrir alþjóð og lýsir því yfir að þessi hluti þingsins sé bara ósamstarfshæfur og hélt svo áfram og sagði: ,,Við munum bara ekkert láta það á okkur fá. Við munum fara okkar fram.`` Þetta er sagt við þjóðina þegar við

erum að reyna að leysa málin hér. Hæstv. forseti hefur setið í forsetatól ekkert mjög lengi og ég vil gjarnan segja forseta það að ef forseti er að tala um málþóf, þá veit ég að forseti minnist þess að engar þær ræður eða ræðulengd sem hefur verið á þessu þingi eða seinasta er nokkuð í átt við málþóf ef menn vilja beita slíku.
    Eins og ég sagði áðan, ég vil ekki sitja undir þessu og vil mótmæla því og ég mundi segja: Forseti sameinaðs þings á að biðjast afsökunar á þeim orðum sem forseti lét falla við fréttamanninn í kvöld og þá er ég tilbúinn að gleyma því sem sagt hefur verið.