Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það væri auðvitað hægt að ræða hér í löngu máli þau makalausu viðbrögð hæstv. forseta að lýsa því yfir að fundir forseta með þingflokksformönnum muni fara fram eins og ekkert hefði í skorist eftir að upplýst hefur verið og fram hefur komið hér á þessum fundi að forseti hefur notað ummæli eins þingflokksformanns sem tilefni fjölmiðlaárása á heilan þingflokk. Og þegar óskað er eftir því að beðist sé velvirðingar og lagt til að þessir fundir fari ekki fram eins og málum er komið tilkynnir forseti að þeir muni fara fram eins og ekkert hafi í skorist. Ég held að þessi umræða sé komin á það stig að nauðsynlegt sé að menn taki nokkurt hlé og kanni það hvort ríkisstjórnarforustan getur ekki rætt við hæstv. forseta um vinnubrögð og yfirlýsingar hér ef ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur á annað borð einhvern áhuga á að það sé virðing yfir þingstörfunum og að mál gangi hér fram svo sem sæmir löggjafarsamkomu íslensku þjóðarinnar. Þá vil ég eindregið taka undir að það hlé verði gert á þessum fundum sem til þess þarf að koma hér á eðlilegri skipan á samskipti forseta þingsins og þingmanna.
    Ég ætla ekki að gera hér sérstaklega að umtalsefni síðari ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Í sjálfu sér verða þau ummæli ekki túlkuð, eins og þau voru sögð, sem einhver viljafirlýsing af hálfu forustu stjórnarliðsins um eðlileg vinnubrögð og samstarf hér í þinginu. Ég ætla hins vegar ekki að gera það á þessu stigi. Ég þykist vita að þau hafi hrokkið af vörum hv. þm. í stundaræsingi, en auðvitað eru þau ósmekkleg og óviðeigandi með öllu. Staðreynd er sú að mál stóðu eftir fund þingflokksformanna og forseta og forsrh. í gærkvöldi á þann veg að svo nærri samkomulagi lá að málgagn hæstv. forsrh. birti það með stríðsfyrirsögn að samkomulag hefði tekist, að hæstv. forseti þingsins notaði það sem árás á þingmenn Sjálfstfl., að þeir hefðu rofið samkomulag sem gert hefði verið. Svo langt var þetta samkomulag komið, svo langt hafði
stjórnarliðið og margir þeirra innan stjórnarliðsins sem hafa sýnt fullan skilning á því að Alþingi geti ekki farið fram með þvílíku ofbeldi gegn sveitarfélögunum sem hæstv. ríkisstjórn hafði ákveðið, að ég hef skilið það svo að mikill meiri hluti stjórnarliðsins væri þeirrar skoðunar. Og svo langt var það komið að hæstv. heilbrrh. lýsir því yfir í Morgunblaðinu í morgun að líklegast sé að tillögurnar um það að Reykjavíkurborg greiði hluta af rekstrarkostnaði Borgarspítalans verði dregnar til baka.
    En hvað gerist svo í framhaldi af þessari stöðu sem þannig var, eins og hér hefur verið lýst, að við lá að fullt samkomulag væri orðið? Hæstv. heilbrrh. lýsir því yfir í viðtali í Morgunblaðinu að líklegast sé að gengið verði að þessum kröfum. Hvað gerist þá? Þá kvisast það hér að hæstv. forsrh. hafi verið að skrifa borgarstjóranum í Reykjavík bréf. Það var spurt að því hér fyrr í umræðunni hver hefði ,,platað`` hæstv. forsrh. til að skrifa þetta bréf. Og enginn hv. þingmanna var í efa um hver það hefði verið. En

staðreynd er að því er virðist að hæstv. forsrh. hefur verið að senda hér einhver leynibréf í dag til borgarstjórans í Reykjavík. Það er alveg nauðsynlegt að Alþingi verði þegar í stað upplýst um það mál.
    Ég var spurður að því af fréttamanni hvort í þessu bréfi fælust tvær tilteknar hótanir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Nú veit ég að vísu ekki um efni þessa bréfs og gat því ekki svarað viðkomandi fréttamanni. En ef það er svo að hæstv. heilbrrh. hafi í gærkvöld í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í morgun lýst því að líklegast væri að málin yrðu dregin til baka en það gerist svo í dag að hæstv. forsrh. er að senda borgarstjóranum einhver leynibréf og ef grunsemdir fréttamannsins sem við mig talaði eru réttar að í því hafi falist hótanir, þá er alveg augljóst hver það er sem þykist ráða ferðinni í hæstv. ríkisstjórn og ekki tók þátt í samningaumleitunum í gærkvöldi en þykist vera þess umkominn að láta hæstv. forsrh. skrifa bréf í dag og þykist vera þess umkominn að halda til streitu tillögum um að rjúfa verkaskiptingarsamkomulag ríkis og sveitarfélaga einhliða með lagavaldi hér á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað hæstv. fjmrh.
    Að gefnu tilefni er nauðsynlegt að hæstv. forsrh. upplýsi um þetta bréf, lesi efni þessa bréfs hér á þessum þingfundi áður en honum er frestað. Það er svo augljóst af þeim árásum sem þingmenn Sjálfstfl. hafa orðið hér fyrir af hálfu hæstv. forseta Sþ. að undan því verður ekki vikist að hæstv. forsrh. lesi þetta bréf frá orði til orðs þannig að Alþingi verði gerð grein fyrir því í hvaða bréfaskriftum hæstv. forsrh. er og í hverju þessar bréfaskriftir eru fólgnar. Ég ber þessa ósk hér fram og vona að við henni verði orðið, en ítreka svo það að ég tel skynsamlegt og rétt að að lokinni þessari þingskapaumræðu verði þingfundum frestað. Réttast væri nú að slíta þessum fundi þar til formönnum þingflokka hefði gefist tóm til þess að ræða saman.
    Ég vil ítreka það að það er ekki stjórnarandstaðan, a.m.k. ekki Sjálfstfl., sem er sérstaklega að óska eftir samkomulagi um það að flýta hér tilteknum málum. Sjálfstfl. er ekki að biðja um það að tiltekin tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar fari hér á færibandi í gegnum þingið, illa undirbúin
frumvörp fari í gegnum nefndir þingsins án nægjanlegrar skoðunar og eftir stuttar umræður hér í þinginu. Það er alls ekki ósk Sjálfstfl. Þvert á móti er það ósk Sjálfstfl. að nefndir þingsins geti fjallað ítarlega um þessi mál og komið aftur saman til fundar til að fjalla betur um þau því að fyrir því eru fullgild rök og meira að segja háværar kröfur úti í þjóðfélaginu. Það er ósk sjálfstæðismanna að geta rætt þessi mál ítarlega eins og venja er til, en við höfum áður lýst því yfir að við værum tilbúnir til þess að mæta óskum hæstv. ríkisstjórnar um það að greiða fyrir þingstörfum. Ég hef hins vegar ekki orðið þess áskynja, hvorki af þvergirðingshætti og hroka hæstv. fjmrh. né yfirlýsingum hæstv. forseta, að það sé áhugamál ríkisstjórnarmeirihlutans að greiða fyrir framgangi þingmála með þessum hætti. Þvert á móti

verður ekki annað lesið út úr viðbrögðum ríkisstjórnarforustunnar en að hún kæri sig ekkert um að þessar óskir hennar verði að veruleika. Kannski felst í því einhver efi um réttmæti og gildi þessara frumvarpa, og ef svo er þá er vel. En þetta er auðvitað nauðsynlegt að komi fram hér í þessari umræðu, að það eru óskir hæstv. ríkisstjórnar sem hafa staðið til þess að málum væri hraðað hér í gegnum þingið með óeðlilegum hætti.
    Að endingu ítreka ég ósk mína um það að hæstv. forsrh. upplýsi og lesi fyrir þingheimi efni þessa leynibréfs sem svo mjög hefur verið gert hér að umtalsefni.