Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls hér aftur en sé fulla ástæðu til þess. Ástæðan er sú að fram er komin í Ed. breyting við lánsfjárlög frá fjh.- og viðskn. og hún hljóðar svona, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 37. gr. komi ný grein í III. kafla er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjmrh. heimilt að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til björgunarsveita, svo og til mannúðar- og líknarstarfsemi.``
    Hæstv. forseti. Ég fer fram á það hér við hv. formann fjh.- og viðskn. Nd. að hann taki upp á milli umræðna brtt. frá okkur hv. 5. þm. Vesturl. Inga Birni Albertssyni, breytingu nr. 7, b-lið, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Fjmrh. getur ákveðið með reglugerð að fella niður virðisaukaskatt af tækjum og búnaði til íþróttafélaga, hjálpar- og björgunarsveita.`` Ég óska eftir því að hv. formaður fjh.- og viðskn. taki þetta mál upp sérstaklega í nefndinni, hafi samband við sína menn í Ed. og sjái til þess að hv. Ed. sé ekki að flytja breytingar um virðisaukaskatt við lánsfjárlög. Ég tel það brýnt að það sem tilheyrir virðisaukaskattinum sé í þeim lögum en ekki einhverjum ,,þrátt fyrir`` ákvæðum um lánsfjárlög sem ég tel líka vafasamt að sé þingleg meðferð. Ég vil beina því hér til hv. 1. þm. Norðurl. v. að hann taki þetta upp og geri tillögu okkar hv. þm. Inga Björns Albertssonar að sinni með þeim breytingum sem hér eru lagðar til í Ed. þannig að þetta komi í heildarlögunum en sé ekki gert með þeim hætti sem hér hefur orðið.