Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það vakti vissulega mikla eftirtekt hér í fyrradag þegar fram fór umræða um frv. til fjáraukalaga hversu vanstilltur hæstv. fjmrh. var í þeirri umræðu. Verður að sjálfsögðu ekki komist hjá því að fjalla nokkuð um hans ræðu, eins og hana bar hér að, samhliða því sem ég mun í fáum orðum fara yfir frv., gildi þess, og hvernig framlagningu þess hefur borið að hér á Alþingi.
    Það var helst svo að skilja á hæstv. fjmrh. að fjáraukalagaafgreiðsla sem hér fer nú fram og sem fram fór líka á síðasta þingi væri tilkomin vegna starfa hans sem fjmrh. Ráðherrann hafði um það mörg orð hvernig þau mál hefðu dregist úr hömlu og sérstaklega talaði hann í þeim efnum um hvernig til hefði tekist í þeim tilvikum sem Sjálfstfl. hefði borið ábyrgð á þeim málum.
    Hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, svaraði þessum ásökunum ráðherrans og sé ég því ekki sérstaka ástæðu til þess að fara yfir þau mál hér öðru sinni því að þar voru tekin af öll tvímæli um að aukafjárlög voru afgreidd á sl. vetri, allt frá árinu 1979, og m.a. að sjálfsögðu líka þau ár sem Alþb. hafði forræði þessara mála. Mér finnst hins vegar sérstök ástæða til þess að minna á, m.a. vegna þess að það hefur ekki komið fram í þessari umræðu, að þann 1. jan. árið 1987 var breytt um vinnubrögð í þessum efnum. Þá voru samþykkt lög um Ríkisendurskoðun og henni falið að endurskoða eða vera til aðstoðar við endurskoðun á ríkisreikningum. Hér var gerð á grundvallarbreyting sem
stórauðveldaði endurskoðun á ríkisreikningum og sú breyting er aðdragandinn að því að fjáraukalög, allt frá árinu 1979, voru samþykkt hér á sl. vetri og vori, og með sama hætti hefur sú skipan mála gert það að verkum að hægt er að fjalla um fjáraukalög fyrir árið 1989 eins og nú er gert. Það er mikil ástæða til að leggja sérstaka áherslu á þessa breytingu sem skýrir það að hlutur núv. hæstv. fjmrh. í þessum efnum er nánast enginn. Hann vann þessi verk á sl. vetri af formsástæðum einum saman og hann átti engan þátt í því, eins og hann staðhæfði hér í umræðunni í fyrradag, að fjáraukalög allt frá árinu 1979 til ársins 1987 voru afgreidd hér í fyrravetur. Það er mikil ástæða til að undirstrika þetta, m.a. vegna þess að eftir að Ríkisendurskoðun kom hér undir þingið hefur starfsemi hennar og störf mjög auðveldað þessi mál öll og þá ekki síst fjárlagagerð eins og mönnum er kunnugt um sem starfað hafa í fjvn.
    Það var líka slæmur misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að aukafjárveitingar hefðu í tíð fyrrv. fjmrh. verið einhver leyniskjöl, eins og hann komst að orði, og það var líka mikill misskilningur að ríkisreikningur lægi ekki fyrir hverju sinni sem fjárlagagerð færi fram. Það er vert að minna ráðherrann á það að listi yfir aukafjárveitingar hefur jafnan fylgt fjárlagafrv. sem fylgiskjal. Þar hefur mönnum gefist kostur á að sjá hvernig fjármagni ríkissjóðs hefur verið ráðstafað með aukafjárveitingum. Það er svo allt annað mál, og

um það er ekki ágreiningur, að sú breyting sem nú hefur verið gerð á með því að leggja fram fjáraukalög og væntanlega að afgreiða þau á sama ári og fjárveitingarnar fara fram er góður árangur og mikilvægur fyrir allan eðlilegan rekstur og eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Einmitt með því er hægt að ná fram miklu markvissari stjórn þessara mála en ella væri.
    Hæstv. fjmrh. hafði líka mörg orð um það hvað frv. til fjáraukalaga hefði verið lagt fljótt fram í upphafi þings og hann gat þess alveg sérstaklega að hann hefði jafnvel getað lagt frv. fyrir Alþingi einni eða tveimur vikum fyrr en raun ber vitni. Þetta vefengi ég ekki, m.a. vegna þess að frv., eins og það var lagt fyrir Alþingi af ráðherranum, var með þeim hætti að það var og er alveg sýnilegt að í uppsetningu þess var ekki lagður mikill tími, ekki mikil vinna og ekki vel til þess vandað. Auðvitað hefði hæstv. fjmrh. getað látið hrófla því upp með enn styttri fyrirvara en raun ber vitni.
    Ég geri ráð fyrir að það sé fremur þakkarvert hvernig ráðherrann gekk frá frv. til framlagningar hér á Alþingi því að það gerði það auðvitað að verkum að fjvn., og þá alveg sérstaklega formaður fjvn., varð að leggja miklu meiri vinnu í uppsetningu frv. til þess að ná fram bærilegri skipan á frv. Ég geri þess vegna frekar ráð fyrir að það hafi verið til bóta hvernig frv. bar að hér á Alþingi. Og það er mikil ástæða til þess að vekja á því athygli hvernig frv. lítur nú út eftir þá yfirferð sem það hefur fengið í fjvn. og það er mikil ástæða til þess að leggja sérstaka áherslu á störf formanns fjvn. að framgangi þess máls í fjvn. Ég tek sérstaklega undir það að fyrir hans atbeina hefur verið unnið mikilvægt starf.
    Hæstv. fjmrh. hafði um það mörg orð og stór að mikið vald fælist í fjáraukalagafrv. og hann tók það mjög óstinnt upp og mótmælti því raunar mjög harðlega sem fram kom í ræðu frsm. minni hl., hv. þm. Pálma Jónssonar, að mestöllum útgjöldum fjáraukalagafrv., 8,8 milljörðum kr., hefði verið ráðstafað áður en til fjvn. kom. Mér finnst mikil ástæða til þess að vekja athygli á þessari athugasemd fjmrh. því hún ber vissulega vott um það að ráðherrann sé ekki of vel inni í sínum eigin málum. En til þess að taka af öll tvímæli í þessum efnum, og sérstaklega ráðherranum til viðvörunar, ætla ég,
með leyfi virðulegs forseta, að flytja hér örfá orð úr ræðu formanns fjvn. eins og þau féllu í framsögu hans við þessa umræðu og skal ég þó einungis taka niðurlag þessara skýringa hans. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Eftir standa þá aðeins 285 millj. kr. sem segja má að fjvn. og Alþingi hafi getað tekið afstöðu til hvort greiða ætti eða ekki. Niðurstaða fjvn. var sú að hún leggur til í brtt. sínum að af þessari fjárhæð ógreiddra og óskuldbundinna aukafjárveitinga verði tæpur helmingur, eða um 117 millj. kr., ekki samþykktur. Fallist Alþingi á þær tillögur hefur Alþingi hafnað að greiðsluheimild yrði veitt fyrir þeim útgreiðslum úr ríkissjóði og fara þær greiðslur þá ekki

fram.``
    Hér verður tæpast skýrar talað. Og það er vondur kostur fyrir hæstv. fjmrh. að hafa ekki meira vald á þessu máli en svo að hann mótmæli þessum staðhæfingum hjá hv. þm. Pálma Jónssyni þegar þær eru komnar fram með óyggjandi hætti hjá formanni fjvn. og er ekki önnur skýring auðfengnari á því hversu fjmrh. er illa að sér í fjármálum ríkisins.
    Þetta segir það m.a. hvað þessi framlagning sem slík er í rauninni takmörkuð að því leyti að Alþingi hefur ekki áhrif á þessar greiðslur, 8,8 milljarða, nema sem svarar 117 millj. Á þetta er sérstök ástæða að leggja hér áherslu. Og raunar, ef betur er að gáð, er sumum af þessum greiðslum, sem þessar 117 millj. ná til, ráðstafað. Það er hægt að geta um marga fjárlagaliði sem eru undir þessum 117 millj. sem búið er að eyða fyrir lifandi löngu. Það kom t.d. fram í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar að 1. ágúst var tekin ákvörðun um að afgreiða til Landgræðslunnar 2 millj. kr. vegna fræræktarstöðvarinnar þar. Þessar 2 millj. kr. eru í niðurskurðarlistanum sem hér er birtur. Og það er svo með margar fleiri tölur. Að því er varðar greiðslur úr ríkissjóði má því segja að Alþingi hafi sáralítil eða nær engin áhrif á þá 8,8 milljarða sem þar eru færðir til gjalda. Það er svo allt annað mál og það liggur alveg fyrir að hæstv. fjmrh. hefur verið að leitast við að skýla sér á bak við þær ákvarðanir. Hann hefur ekki viljað kannast við hlutdeild sína í þeim efnum. Það er líka kostur við fjáraukalagafrv. að það skýrir með nokkrum hætti hvað hefur farið úr böndunum í framkvæmd fjárlaga hjá hæstv. fjmrh., og það má vel vera að það sé ein af skýringunum fyrir því hvað ráðherrann er viðkvæmur í þessari umræðu og hvað honum þykir mikils um vert að bera fjáraukalögin fyrir sig að það hafa að sjálfsögðu orðið gífurlegir brestir í framkvæmd fjárlaga og fjárreiðum ríkissjóðs í hans höndum.
    Það er t.d. sérstök ástæða til þess að minna á það hér og undirstrika alveg sérstaklega að af þessum 8,8 milljörðum sem hæstv. fjmrh. hefur eytt fram yfir heimildir fjárlaga eru einungis um 3 milljarðar til komnir vegna greiðslna til atvinnuveganna eða launabreytinga. Hitt er eyðslufé. Hitt er óráðsía ráðherrans. Og það er einmitt það sem hæstv. fjmrh. er að leitast við, að ná stimpli Alþingis á þær ákvarðanir. Það er líka vert að leggja á það áherslu hér að þrátt fyrir að þessi sé niðurstaðan í fjáraukalagafrv. má fullyrða það að við lok ársins verði þessar tölur enn hærri, m.a. af þeirri ástæðu sem ég hef nú tilgreint, að sumum af sparnaðarliðunum, og niðurskurðarliðunum, er búið að eyða fyrir lifandi löngu, og líka vegna hins, að hér eru ekki öll kurl komin til grafar. Það er þannig mikill kostur við fjáraukalagafrv., og í því felst kannski megingildi þess, að það upplýsist nú með skýrari hætti hvernig þessum málum hefur verið stjórnað á þessu ári.
    Um það segir fjáraukalagafrv. ýmislegt meira og þá m.a. það að þær ákvarðanir sem voru teknar hér við fjárlagagerð fyrir þetta ár, fyrir einu ári síðan, um sparnað í launum um 800 millj. og í rekstri um 250

millj., hafa ekki skilað sér. Þrátt fyrir öll stóru orðin þá hafa þessi sparnaðaráform ekki komið til skila. Það má segja að af þessum 800 millj. sem ákveðið var að spara í launum og 250 millj. sem átti að spara í rekstri hafi um helmingur komið til skila og má þá sjá hver árangur ráðherrans er í þessum efnum. Og eins er um þær 650 millj. sem ríkisstjórnin tók ákvörðun um að spara á sl. vori, í maímánuði að því er ég hygg, að sá sparnaður hefur heldur ekki komið til skila. Að vísu hefur stærsti hlutinn, þ.e. 500 millj. sem áttu og má kannski segja að hafi verið sparaðar í húsnæðislánakerfinu, ekki komið til útgjalda hjá ríkissjóði vegna þess að fyrir þeirri upphæð hafa verið tekin lán. Þær 150 millj. sem eftir stóðu hafa hins vegar ekki komið til sparnaðar, og það var einn erfiðasti þátturinn í störfum og yfirferð fjvn. á fjáraukalagafrv. að fá skýringar á því hjá ráðuneytunum hvernig sá sparnaður hefði verið fenginn. Og þær skýringar fengust reyndar að hann hefði ekki náðst nema að litlu leyti.
    Það er mikill kostur við þetta fjáraukalagafrv. að einmitt þessar staðreyndir skuli hafa skýrst við meðferð þess í fjvn. og við umræðuna hér á Alþingi. Og ég hygg að það sé m.a. skýringin á því upphlaupi sem varð hér við fyrri umr. hjá hæstv. fjmrh. því það er um þessi efni sem svo mörg önnur að sök bítur sekan. Með þessu er þó ekki öll sagan sögð. Það er vert að minna á það að hæstv. fjmrh. hafði mörg orð um það í upphafi þings, fyrir einu ári, hvernig komið væri fyrir ríkissjóði. Þar væru allar fjárhirslur tómar og íslenska þjóðin gæti nú ekki lengur lifað á brauð- og matargjöfum frá öðrum
þjóðum. Ráðherrann byrjaði að skýra frá 3 milljarða halla en svo þegar á leið bættist 1 milljarður við í hvert skipti sem hann tók til máls hér á Alþingi. Hæstv. ráðherra reyndist líka sannspár að þessu leyti því að síðustu tölurnar frá fyrrv. fjmrh. og núv. hæstv. utanrrh. sem hann skýrði frá í ágústmánuði 1988 voru þær að ríkissjóðshallinn mundi á því ári verða um 700 millj. kr. En, eins og kunnugt er, þegar upp var staðið um síðustu áramót var hallinn á því ári ekki 700 millj. kr. heldur 7 milljarðar kr. Og það var einmitt á grundvelli þeirrar tölu sem hæstv. fjmrh. náði fram skattahækkun á Alþingi í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár sem nam svipaðri upphæð eða 7 milljörðum kr. Nú hefur fjáraukalagafrv. skýrt það með ótvíræðum hætti hvernig til hefur tekist í þessum efnum eftir að núv. hæstv. fjmrh. hafði marglýst því yfir að nú yrði ekki lengur búið við ríkissjóðshalla. Það má þannig fullyrða nú að hallinn á ríkissjóði um næstkomandi áramót, sem er nú stutt í, muni þrátt fyrir alla þessa skattahækkun, upp á 7 milljarða kr., nema eitthvað yfir 5 milljörðum.
    Það er mikil ástæða til þess að vekja á því sérstaka athygli sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. hér í fyrradag þar sem hann var að tala um að hér hefði náðst góður árangur. Ríkissjóðshallinn væri ekki nærri því eins mikill og þingmenn Sjálfstfl. hefðu spáð og staðhæft hér m.a. við fjárlagaumræður fyrir einu ári.

Nú hef ég litið yfir þær ræður til þess að glöggva mig á því hvað þar hefur verið sagt. Og það vill svo til að í þeim efnum voru engar fullyrðingar af hendi okkar sjálfstæðismanna um það hver ríkissjóðshallinn mundi verða. ( Fjmrh.: Lastu ræðurnar eftir Eyjólf Konráð?) Allt sem ráðherrann sagði um þessi efni var því algjörlega úr lausu lofti gripið. ( Fjmrh.: Lastu ræðurnar eftir Eyjólf Konráð?) Það kemur hins vegar fram í framsöguræðu Pálma Jónssonar hver skoðun Sjálfstfl. var á fjárlagafrv. Og þar má leiða að því rök, og reyndar ótvírætt, að bent var á að ætla mætti að ríkissjóðshallinn yrði 3,5--4 milljarðar, reyndar aðeins minni en raun ber vitni. Þetta eru staðreyndir málsins. Það er harðleikið að hæstv. fjmrh., sem er að guma af því að hann vilji sérstök samráð og gott samráð við fjvn., skuli ekki geta farið rétt með í jafnmikilvægri framsetningu eins og þeirri sem hér er um að ræða. ( Fjmrh.: Er Eyjólfur Konráð ekki marktækur?) Eyjólfur Konráð er marktækur og fullkomlega það. ( Fjmrh.: Gott.) En það ber þess vissulega vott að hæstv. ráðherra er hér að flýja úr einu víginu í annað því að það sem hann var að tala um hér í fyrradag voru þau orð sem féllu við fjárlagagerð því að þar var að sjálfsögðu mótuð afstaða Sjálfstfl. um þessi mál. ( Fjmrh.: Svo að Eyjólfur Konráð er ekki marktækur?) Eyjólfur Konráð er ekki í fjvn. og ég stórefa það og reyndar fullyrði ég að Eyjólfur Konráð hafði ekki þau orð uppi að ríkissjóðshallinn yrði 15 milljarðar á þessu ári. Hann hafði hins vegar ekki frekar en aðrir neina trú á því að hér yrði hallalaus ríkisbúskapur. Þetta er dæmi um málflutning þessa hæstv. ráðherra.
    Ég hef nú, virðulegur forseti, farið í meginatriðum yfir frv. og fer því að stytta mál mitt. Ég legg á það áherslu að framlagning frv. og umfjöllun á Alþingi er til mikilla bóta og ég minni á það sem ég sagði fyrr í ræðu minni, að slík vinnubrögð leiða til markvissari fjármálastjórnunar og þó sérstaklega auðvelda þau fjvn. og þinginu að fylgjast með þessum málum ef vilji er fyrir því á annað borð af hendi fjmrh. Þessu hefur að sjálfsögðu ekki verið hægt að beita á þessu ári og þar af leiðir að frv. og afgreiðsla þess hefur nánast engin áhrif á þær peningalegu ákvarðanir sem eru í fjáraukalagafrv. Þær eru að langsamlega stærstum hluta á ábyrgð fjmrh. og ríkisstjórnarinnar. Á þetta ber að leggja áherslu vegna þess að það liggur alveg fyrir að fjmrh. er efst í huga að beita fjárlagafrv. fyrir sig sem varnaraðgerð við þá eyðslu og óráðsíu sem hefur farið fram í hans höndum í fjmrn. síðan hann tók þar við völdum. Á hinn bóginn er fjáraukalagafrv. mikilvægt vegna þess að það skýrir ríkisfjármálin fyrr og með betri hætti en annars væri og þess vegna liggur það nú enn ljósar fyrir og á talnalegum grundvelli að fjmrh. hefur mistekist að stjórna þessum málum þetta árið og er það vissulega mikilvæg niðurstaða og það víti sem sannarlega ber að varast.